Svava Betty Rosenberg Frederiksen Það sem sárast er fyrir okkur öll í þessum heimi er ástvinamissir. Þegar barn missir móður sína eða þegar móðir missir barnið sitt, það skilur eftir djúpt sár í hjarta okkar. Stundum verðum við að vera Guði þakklát fyrir, sérstaklega þegar konan sem við erum að kveðja er búin að vera mjög mikill sjúklingur í mörg ár. Ósjálfrátt kom upp í huga minn þetta erindi úr kvæðinu hans Tómasar Guðmundssonar, Hótel Jörð:

En þó eru sumir, sem láta sér lynda það

að lifa úti í horni, óáreittir og spakir,

því það er svo misjafnt, sem mennirnir leita að,

og misjafn tilgangurinn sem fyrir þeim vakir.

Ég fékk tilkynningu um andlát hennar Svövu í gegnum símann. Það fyrsta sem ég sagði var: Guði sé lof.

Svava frænka var föðursystir mín, hún og pabbi voru alla tíð mjög samrýnd. Það var svo gaman að koma á sunnudögum í eftirmiðdagskaffi á Hringbraut 91, þar sem hún bjó lengst af ævi sinnar. Hún var svo dugleg og aldrei kom maður að tómu húsi. Hún var alltaf til staðar, enda var nóg til að hugsa um.

Svava giftist mjög ung og stofnaði strax heimili. Maðurinn hennar var Adolf Fredereksen og áttu þau fimm börn saman: Erlu Margréti, Alfred, Hönnu Sjöfn, Birgi og Baldur Ómar.

Ég kveð þig, mín kæra frænka, með þá von í hjarta að nú sért þú sæl á þeim stað sem þú ert komin til.

Þá verður oss ljóst, að framar ei frestur gefst

né færi á að ráðstafa nokkru betur.

Því alls, sem lífið lánaði, dauðinn krefst

í líku hlutfalli og Metúsalem og Pétur.

Elskulegu frændsystkini, ég bið góðan Guð að gefa ykkur styrk.

Sigrún Rosenberg

(Dirra frænka)