13. ágúst 2010 | Aðsent efni | 853 orð | 1 mynd

Löggildingu fyrir félagsliða

Eftir Rakel Ólöfu Bergsdóttur

Rakel Ólöf Bergsdóttir
Rakel Ólöf Bergsdóttir
Eftir Rakel Ólöfu Bergsdóttur: "Fagheitið félagsliði var stofnað fyrir rúmum áratug til að mæta breyttum áherslum og viðhorfum í þjónustu við aldraða og fatlaða, þar sem sjálfstætt líf og sjálfstæði er útgangspunkturinn."
Félag íslenskra félagsliða sótti fyrir einum þremur árum um það að fá löggildingu á starfsheitið sitt en ekkert gerist þrátt fyrir meðmæli frá Landlæknisembættinu og ummæli frá heilbrigðisráðuneytinu. Umsóknin liggur nú inni á borði hjá vinnumálasviði félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Félagið var stofnað 10. apríl 2003 og er fagfélag á landsvísu sem hefur á að skipa í dag um 370 meðlimum sem eru í 13 mismunandi stéttarfélögum. Eins og gefur að skilja þegar um svo mörg stéttarfélög er að ræða um allt land þá koma upp alls konar mál sem þarft er að taka á en erfitt er fyrir félagið að sinna hagsmunamálum félagsmanna sinna til fulls fyrr en löggilding fæst. Brögð eru að því að eftir námslok hjá félagsliðum fái félagsmenn okkar ekki samningsbundnar launahækkanir sem að sjálfsögðu er hróplegt óréttlæti og er þá stundum vitnað í að löggildingin sé engin.

Fagheitið félagsliði var stofnað fyrir rúmum áratug til að mæta breyttum áherslum og viðhorfum í þjónustu við aldraða og fatlaða, þar sem sjálfstætt líf og sjálfstæði er útgangspunkturinn. Nám félagsliða er fyllilega sambærilegt við nám sjúkraliða svo dæmi sé til tekið nema hvað fagfögin eru félagstengd hjá félagsliðunum en tengd umönnun hjá sjúkraliðum. Félagsliðanámið er 81 einingar framhaldsskólanám í dagskólanum. Einnig er í smíðum framhaldsnám fyrir félagsliða og er áætlað að bjóða það fram á næsta ári. Langtímamarkmið er að gera námið að undanfara háskólanáms.

Starf félagsliða felst í að efla sjálfstæða og félagslega virkni, á heilbrigðis-, félags- og menntunarsviði. Veita stuðning og umönnun þar sem þarfir einstaklingsins eru hafðar að leiðarljósi. Skjólstæðingar félagsliða eru oftast einstaklingar eða hópar sem vegna röskunar á þroska, veikinda, öldrunar eða áfalla þurfa á stuðningi og þjónustu að halda.

Ég sem einstaklingur velti stundum fyrir mér gildum í því samfélagi sem við búum í. Nær alltaf þegar ég tala um starf mitt með fötluðum við fólk almennt þá nefnir fólk mjög oft að því þyki starf sem þetta mjög göfugt og að það hljóti að þurfa sérstaka einstaklinga til að geta unnið þessi störf. Eftir að hafa unnið á annan áratug í umönnunarstörfum þá segi ég já. Það þarf sérstakt fólk til að endast í þeim störfum. En alltaf er samt misjafn sauður í mörgu fé. Er hægt að læra það í skólum sem til þarf? Já, að hluta til, tel ég að það sé hægt. Mín skoðun er sú að öll menntun sé alltaf til bóta fyrir okkur. Nám vekur okkur til umhugsunar um oft nýja hluti sem við höfum ekki áður velt fyrir okkur. Varðandi vinnu við umönnun á fólki ber að gæta margs til að brjóta ekki mannréttindi á fólki. Rannsóknir hafa t.d. sýnt fram á að „ofbeldi“ viðgengst oft í samskiptum fólks í umönnunarstörfum og getur verið auðvelt að fela í samskiptum tveggja einstaklinga og þá bæði andlegt og líkamlegt. Meðvitund okkar breytist við nám, við verðum meðvitaðri um hugsanir okkar og gjörðir og eigum auðveldara að mínu mati með að setja okkur í spor þeirra sem við erum að vinna með. Einnig tel ég að við náum betur að samhæfa okkur í starfi hvert við annað sem störfum saman með því að vera stöðugt að bæta við okkur þekkingu. Fyrir utan það að starfið okkar verður skemmtilegra og minni líkur eru á því að við stöðnum. Aftur á móti erum við sem mannverur misjafnlega í stakk búin til þess frá náttúrunnar hendi að setja okkur í spor annarra, sýna umhyggjusemi og almenna hæfni í starfi. Þolinmæði og að sýna hverjum manni alúð eru að mínu mati mikilvægir þættir í umönnunarstarfinu. Ég fékk eitt sinn athyglisverða spurningu frá manni sem starfaði sem arkitekt: Hvernig er metnaði þínum í lífinu fullnægt í starfi þínu með fötluðum? Ég svaraði henni þannig að ég vissi að ég fengi enga medalíu um hálsinn eða neitt klapp á bakið frá neinum nema þeim einstaklingi sem ég væri að vinna með. Hugsaðu þér einstakling sem er algerlega fjötraður? (mín upplifun) í eigin líkama, getur ekki tjáð sig á neinn hátt nema með einföldum tjáskiptum. Með tímanum ef maður leggur alúð í starfið lærum við að lesa líðan einstaklingsins og finnum leiðir til þess að láta honum líða vel eða að ná að uppfylla þarfir hans og óskir. Bara þetta einstaka bros frá einstaklingnum eða neisti frá auganu er sú fullnægja sem heldur manni kyrrum og færir mér að minnsta kosti líðan sem ekki er hægt að lýsa fyllilega með orðum.

Eins og nær allir vita þá skipa konur meirihluta þeirra sem vinna við umönnun fólks og þau störf hafa verið mjög illa metin í launum. Nú hefur þó sá árangur fengist á síðustu árum að nokkur markviss námskeið eru í boði fyrir ófaglært fólk til að mynda stuðningsfulltrúanám og félagsliðanámið sem hafa það að markmiði að gera fólk hæfara til starfa og um leið að breyta kjörum fólks, því er afar mikilvægt að fá eins og fyrir félagsliðana nú löggildingu á starfsheitið sem allra fyrst. Ég vona að félagsmálaráðuneytið sjái sér fært sem allra fyrst að verða við beiðni okkar um löggildingu því of margir bíða úti í samfélaginu eftir því að fá menntun sína metna að verðleikum.

Höfundur er félagsliði og vinnur sem leiðbeinandi á Vinnustofum Skálatúns.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.