Varið skot Varnarmaður Hauka ver hér skot frá Margréti Köru Sturludóttur í leiknum í Hafnarfirði í gær.
Varið skot Varnarmaður Hauka ver hér skot frá Margréti Köru Sturludóttur í leiknum í Hafnarfirði í gær. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Haukar sendu skýr skilaboð í gærkvöldi þegar liðið lagði Íslandsmeistaralið KR í fyrstu umferðinni í Iceland Express deild kvenna í körfuknattleik. Aðeins eitt stig skildi liðin að í leikslok, 65:64.

Haukar sendu skýr skilaboð í gærkvöldi þegar liðið lagði Íslandsmeistaralið KR í fyrstu umferðinni í Iceland Express deild kvenna í körfuknattleik. Aðeins eitt stig skildi liðin að í leikslok, 65:64. Haukar létu bandaríska leikmanninn Alyshu Harvin fara frá félaginu fyrir tveimur dögum en fjarvera hennar hafði greinilega góð áhrif á liðið. KR lék einnig án erlends leikmanns en búast má við því að þessi lið verði í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn ásamt Keflavík og Hamri.

Lokasekúndurnar á Ásvöllum í gær voru afar spennandi. Haukar voru fjórum stigum yfir allt þar til að 9 sekúndur lifðu af leiknum. Hildur Sigurðardóttir skoraði þriggja stiga körfu fyrir KR en það reyndist einnig vera síðasta karfa leiksins.

Ragna Margrét Brynjarsdóttir var nálægt því að ná þrefaldri tvennu í liði Hauka í gær. Hún skoraði 15 stig, 10 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Íris Sverrisdóttir skoraði flest stig heimaliðsins eða alls 20. Hildur var stigahæst í liði KR með 26 stig og hún tók að auki 5 fráköst.

Adamshick skoraði 21 stig

Keflavík vann nauman sigur á nágrönnum sínum í Njarðvík, 80:75, en liðin mættust í íþróttahúsinu í Njarðvík sem oft er nefnd ljónagryfjan. Dita Liepkalne gerði flest stig Njarðvíkinga, 19, en Shayla Fields var með 16 stig. Jacquline Adamshick skoraði 21 stig fyrir Keflavík og tók 15 fráköst. Bryndís Guðmundsdóttir var með 17 stig.

Butler og Braun í stigakeppni

Hamar, sem lék til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn s.l. vor, vann öruggan sigur á Snæfelli á heimavelli í Hveragerði, 92:71. Jaleesa Butler gerði 25 stig fyrir Hamarsliðið Jamie Braun var með 31 stig fyrir Snæfell og var stigahæst.

Í Grindavík náðu nýliðar Fjölnis að standa í heimaliðinu en leiknum lauk með sigri Grindavíkur, 70:67.