Birgir Andrésson. Alveg frá fyrstu sýningu var hann þjóðlegur.
Birgir Andrésson. Alveg frá fyrstu sýningu var hann þjóðlegur. — Morgunblaðið/Jim Smart
Eftir Þröst Helgason Crymogea 2010, 180 bls.

Þröstur minn, þú átt að byrja bókina svona: Birgir Andrésson er alger vitleysingur,“ segir Þröstur að Birgir hafi sagt við sig sumarið áður en hann dó. Þröstur fór ekki að ráðum hans enda byrjar bókin varla né endar. Nema byrjunin sé einmitt þarna á síðustu síðunni þar sem þessi tilvitnun í Birgi er, á sömu síðu og lokaorðin eru. En eins og Birgir segir þá eru byrjanir líka oftast skáldskapur og hann lætur þjóðsögukenndar tillögur fylgja um hvers vegna hann hafi farið í myndlist, þessi piltur sem var alinn upp af blindum foreldrum. Þröstur leiðir oft lesandann til Birgis eins og um SÚM-verk eða gjörning sé að ræða. Augnablik og upplifanir koma og fara án mikilla útskýringa.

SÚM-húmorinn hittir alltaf í mark hjá minni kynslóð. Þegar ég var að alast upp voru þeir ekki lengur uppreisnarmenn. Hin póststrúktúralíska bylting sem Barthes, Foucault, Derrida og fleiri stóðu að úti í Evrópu kom SÚM með til landins á áttunda áratugnum. Þegar ég elst upp eru þeir viðmiðið og hafa haldið stöðu sinni síðan þá. Þessi blanda af húmor, gagnrýni og snjallheitum sem einkennir verk Birgis sést líka hjá sumum af betri listamönnum samtímans. En Birgir horfir meira inn til þjóðarinnar en margir þeirra. Alveg frá fyrstu sýningu Birgis, Náttúruspjallið, er hann þjóðlegur. Samkvæmt bókinni byrjaði áhugi hans á hinu þjóðlega enn fyrr. Átján eða nítján ára byrjaði hann að kíkja í rit Jónasar frá Hrafnagili, Íslenska þjóðhætti. Það verk var víst uppspretta margra hugmynda að verkum hans. Þjóðhættir, þjóð- og goðsögur sem Birgir ýmist rannsakaði eða afbyggði.

Hann vitnar í Sigurð Guðmundsson sem sagði að „íslenskir myndlistarmenn væru eins og íslenska kartaflan. Það tæki þá að minnsta kosti tvö sumur að vaxa og þeir yrðu aldrei neitt sérstaklega stórir en alltaf svona promising.“

Það má halda því fram að Birgir hafi unnið í sjálfstyftunarstíl sem hefur verið svo vinsæll á Íslandi undanfarna áratugi, í raun eðlilegt framhald af þeim sjálfbirgingshætti sem þjóðernisremban olli í sjálfstæðisbaráttunni og eitthvað fram yfir sjálfstæðisyfirlýsinguna. Sjálfur fékk Birgir sín tækifæri á alþjóðavettvangi, til dæmis með velheppnaðri sýningu í Feneyjum en segir sjálfur í kartöflustíl að þeir hafi yfirgefið Feneyjar án þess að fylgja þeim árangri eftir. Birgir var víst ekki mikill plöggari. En hann var frábær listamaður sem gerði góðlátlegt grín að smásálarskap Íslendinga. Þröstur fer afskaplega vel með þennan merka listamann og fer að honum með orðum í anda listamannsins sjálfs.

Börkur Gunnarsson