[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenskukennslan er bæði þakklátt og árangursríkt starf svo framarlega sem efni og framsetning vekur áhuga nemendanna, þeir skynji gagnsemi hennar og hafi vitund um að hún víkki sjóndeildarhring þeirra.

Ég hef stundum verið að því spurð hvort hlutskipti íslenskukennarans sé ekki einkar dapurlegt nú um stundir. Þeir sem þannig spyrja vísa oftast til þess að unga fólkið okkar sé orðið illa talandi og áhugalaust um móðurmálið og tjái sig helst á enskuslettum og upphrópunum. Því er ekki að neita að talsmáti unglinganna lætur stundum skringilega í eyrum en því fer samt fjarri að íslenskukennsla sé vonlaust og vanþakklátt starf. Og þess eru jafnvel dæmi að kennari fái á baukinn hjá nemendum sínum fyrir óvandaða málnotkun.

Áður en ég settist niður til að skrifa þessa grein lauk ég við að fara yfir skyndipróf í Snorra-Eddu. Meðaleinkunnin var rúmlega 8,5 og svör sumra nemendanna voru nánast á gullaldarmáli. Þar „öttu goðin kappi við jötna“ og sitthvað var „brotið til mergjar“. „Gýgurin Þökk grét þurrum tárum þegar allir aðrir grétu Baldur,“ þótt sumir skrifuðu raunar að það hafi verið eldgígur sem drap Bald. En meginefni þessa 13. aldar rits var svo ljóslifandi í huga unglinganna, að það var engu líkara en að höfundurinn væri samtíðarmaður þeirra og beitti þeirra eigin tungutaki.

Annað ánægjuefni og ekki síðra var verkefnavinna, þar sem nemendur skrifuðu og gáfu út 19. aldar rit í anda rómantísku stefnunnar. Þarna spruttu fram ýmis alþýðuskáld, svo sem Vatnsenda-Rósa og Sigurður Breiðfjörð, sem áttu undir högg að sækja hjá Fjölnismönnum en nutu ástar og aðdáunar alþýðumanna og -kvenna sem yljuðu sér við kveðskap þeirra á kvöldvökum. Jón Árnason fékk unga blaðamenn til föruneytis þar sem hann fór illa skóaður um harðbýl héruð og skráði niður þjóðsögur af gömlum körlum og kerlingum sem höfðu numið þær af forfeðrum langt í ættir fram. Sjálfur Fjölnir var töfraður fram með nútímatækni og ýmsir furðuðu sig á stafsetningu ritstjóranna en ekki síst margvíslegum fróðleik sem þeir komu á framfæri. Þeir fengu líka lof og prís fyrir að vera fyrstir til að birta á prenti ljóð eftir íslenska konu en hörmuleg örlög og skáldgáfa Guðnýjar Jónsdóttur frá Klömbrum varð afar hugstæð þeim 18 ára unglingum sem fengu í sinn hlut að greina frá henni.

Eitt af því sem vakti athygli nemendanna í þessari verkefnavinnu var hversu íslenskan var orðin dönskuskotin á 19. öld enda þótt skáld og rithöfundar gerðu sér far um að skrifa fallegt mál. Mér varð þá hugsað til æskuára minna í Reykjavík þar sem enn þótti fínt og eðlilegt að sletta dönsku þótt hún hafi nú að mestu vikið fyrir annars konar blæbrigðum. Grannar mínir í Norðurmýrinni höfðu á hraðbergi margs konar dönsk orð, svo sem bílæti, stakket, altan og fortó og sumt af þessu rataði inn í mitt daglega mál og hrýtur ósjálfrátt út úr mér við vissar aðstæður. „Áttu ekki prógramm?“ spurði ég því nemanda sem afgreiddi miða á leiksýningu í Versló. Hann starði á mig stórum augum og spurði svo hvort ekki væri örugglega átt við leikskrá. Honum hefur víst þótt þessi talsmáti örugglega jafnskringilegur og okkur kennurum þegar nemendur tjá sig með orðaforða sem ekki telst til góðrar íslensku. Og ég vissi upp á mig skömmina og ákvað að sýna meira umburðarlyndi en endranær, næst þegar unglingur varpaði fram þeirri spurningu hvernig best væri að segja ákveðið enskt lýsingarorð á okkar ástkæra, ylhýra máli.

Og svo ég svari nú skilmerkilega þeirri spurningu, sem vísað var til í upphafi, er íslenskukennslan bæði þakklátt og árangursríkt starf svo framarlega sem efni og framsetning vekur áhuga nemendanna, þeir skynji gagnsemi hennar og hafi vitund um að hún víkki sjóndeildarhring þeirra. Slíkt ætti í rauninni að vera meginmarkmið okkar sem veljum okkur það hlutskipti að leiðbeina unglingum á krókóttum menntavegi.