Það skiptir öllu máli fyrir heill þjóðarinnar að leggja við hlustir þegar fólk talar sem lifað hefur tímana tvenna og þrenna.

Það skiptir öllu máli fyrir heill þjóðarinnar að leggja við hlustir þegar fólk talar sem lifað hefur tímana tvenna og þrenna. Ekki er síður mikilvægt, að fólk sem komið er á efri ár og hefur svo mikið að gefa, gefist ekki upp á því að miðla lærdómi sínum, reynslu og þekkingu til yngri kynslóða, þó að þær skelli stundum skollaeyrum við því.

Jenna Jensdóttir rithöfundur á síðasta orðið í Lesbók Sunnudagsmoggans í dag. Hún er 92 ára, á að baki farsælan feril sem rithöfundur og fæst enn við ljóðasmíðar. Nú er verið að endurútgefa Öddubækurnar. Það er síður en svo sjálfsagt að sögupersóna jafngömul lýðveldinu sé endurútgefin og eigi enn erindi til barna á öllum aldri. Sjálf segir Jenna að sagt sé að aldarhátturinn og aldarfarið geri bækurnar mikils virði.

En það er ekki síður sá sanni tónn sem er í bókunum. Það má glöggt finna á frásögninni að höfundurinn hefur unnið með börnum og velt fyrir sér því umhverfi sem mótar þroska þeirra. Hlýjan og væntumþykjan fyrir persónunum skín í gegn, þó að hún sé ekkert alltaf að hlífa þeim.

Og það er ekki aðeins yngsta kynslóðin sem getur lært af orðum Jennu, heldur einnig þeir sem eldri eru. Enda er kynslóðabil ekki til í hennar huga. Hún ætti að vita það. Hún var náin langömmu sinni og sjálf er hún langamma.

Og af ömmu sinni og nöfnu lærði hún mikilvægi þess að vera maður: „Augnablikið kemur aldrei aftur, leitaðu að því besta sem þú finnur í fari annarra, en lærðu af hinu.“

Þjóðþing er hornsteinn lýðræðisins

Það er ekki amalegt að fá tækifæri til að skrifa seinni leiðarann um annan ástsælan barnabókahöfund, sem er af annarri kynslóð og síung í skrifum sínum, Guðrúnu Helgadóttur. Hún hefur hvorki meira né minna en eina kenningu um hvað maður geri best fyrir börnin sín „og það er að vera góður við þau“.

Guðrún hefur haft margt á prjónunum í gegnum tíðina, eins og títt er um Íslendinga, og á einnig stjórnmálaferil að baki, sem spannaði næstum tuttugu ár. Kolbrún Bergþórsdóttir spyr hana í viðtali í Sunnudagsmogganum í dag hvað henni finnist um að virðing almennings fyrir þinginu sé í lágmarki.

„Ég hef gríðarlegar áhyggjur af því,“ segir Guðrún. „Þjóðþing er hornsteinn lýðræðisins í hverju landi. Fyrir það er fólk í ófrjálsum ríkjum reiðubúið að deyja. Sé svo að þingið hafi sett niður er ekki við aðra að sakast en þingmennina. Mér kemur á óvart hvað þinghaldið er að verða laust í reipunum. Ég sé til dæmis ekki að það hefði getað gerst í minni tíð að þingmaður tæki sér frí til að berja olíutunnur fyrir framan þinghúsið með fólki sem lítur á skemmdir og ofbeldi sem aðferð í pólitískri umræðu. Það er ekkert andstyggilegra en að afla sér vinsælda með því að snobba niður á við. Vilji maður snobba fyrir einhverju er lágmark að maður snobbi upp á við.“

Þegar þessar tvær konur tala, Jenna Jensdóttir og Guðrún Helgadóttir, leggur fólk við hlustir.

Íslendingar eru einfaldlega aldir upp við það!