Höfðum við ekki þörf fyrir þetta hrun?

Öddubækurnar eru aftur komnar í hillur í bókabúðum. Það sætir tíðindum, þar sem aðalsögupersónan er jafngömul lýðveldinu. Ekki er heldur bilbug að finna á höfundinum, Jennu Jensdóttur, sem er 92 ára og því nær fullveldinu í aldri. Hún er skrifuð fyrir bókunum ásamt Hreiðari Stefánssyni eiginmanni sínum, sem fallinn er frá.

„Við skiptum með okkur verkum,“ segir Jenna. „Ég skrifaði algjörlega ein Öddurnar, við töluðum bara saman um hlutina, en Hreiðar skrifaði einn aðrar bækur, svo sem Sumar í sveit . Mér þykir vænt um að nöfnin okkar séu skrifuð saman á bókina, en þeir sem til þekkja sjá muninn. Hreiðar var sonur verkamanns og þangað sækir hann efniviðinn, í þrotlausa vinnu.“

– En hver var þín köllun?

„Áhugamál mitt var að koma út bók um kjörbarn – Adda er kjörbarn. Ég hafði séð svo margt á leið minni í gegnum lífið og kynnst því að kjörbörn geta orðið jafnkær foreldrum sínum, jafnvel þó að þau séu fjögurra ára þegar tekið er við þeim. Allar persónur í bókum mínum eru settar saman úr fólki sem hefur orðið á vegi mínum. Ef við horfum á föður Öddu, þá er hann læknir – einhverra hluta vegna hef ég kynnst mikið þeirri stétt manna. Ég set hann saman úr mörgum; hann hefur siðvit, það er réttsýni, kærleika og heilindi, og er samkvæmur sjálfum sér. Hann tekur Öddu aldrei í faðminn, þó að hún geri eitthvað af sér og fari að gráta. Þannig kennir hann henni orsök og afleiðingar, það er hennar veganesti út í lífið. En það má lesa á milli línanna að inni í honum bærist óvissa og sársauki; Öddu verður oft eitthvað á og hann veit ekki hverra manna hún er. Móðirin er hins vegar hjúkrunarfræðingur sem faðmar hana og kyssir og amman biður til Guðs.“

– Það segir frá sjóskaða í Adda lærir að synda ?

„Já, faðir hennar lendir í sjávarháska og skipbroti. Þá hugsaði ég til þess, að móðurbróðir minn fórst er hann var að sækja lækni. Þarna voru þrjú atriði: Ég vissi að læknir væri á leiðinni, að það væri pabbi hennar og að hann myndi lenda í skipbroti. En ég lét hann ekki deyja, þó að ég leyfði mér að láta hann slasast pínulítið, því ég þurfti á honum að halda við hlið Öddu lengur.“

– Bækurnar eiga enn erindi!

„Það er sagt að aldarhátturinn og aldarfarið geri bækurnar mikils virði. Það eru 67 ár síðan fyrsta bókin um Öddu kom út. Ég bjó til 30 eintök af henni fyrir kennslu. Það var árið 1944.“

Síminn hringir, ekki í fyrsta skipti í heimsókninni.

„Veistu, að ég er orðin hjartveik yfir símanum!“

Hún er fljót að kveðja.

– Hvers vegna hættuð þið Hreiðar að skrifa ykkur saman fyrir bókum?

„Það var seinna á ævinni. Hann hafði misst sex systkin sín, var elstur og mér fannst það hvíla á honum að segja frá því. Hann skrifaði verðlaunabókina Grösin í glugghúsinu . Ég aðstoðaði hann við að setja hana í aðra persónu, eins og Heinesen sem ég er hrifin af. Eftir það spurðist út að Jenna og Hreiðar væru skilin að skiptum. Fólk misskildi það auðvitað, margir hringdu og spurðu hvort við værum skilin, það var heilmikið vesen hjá ættfólkinu.“

– Það er áberandi við lestur bókanna hversu samgangurinn er mikill á milli allra kynslóða.

„Ég hef aldrei fundið neitt kynslóðabil! Samt hef ég verið með langömmubörnum mínum og langömmu minni, þannig get ég talið sjö ættliði fram og aftur. Þegar ég var fimm ára sagði ég öllum sögur úti í fjósi, stærri og minni. Ég var öðruvísi en önnur börn, oft var sagt að ég væri skrítin. Amma mín og nafna, sem ræktaði mig vel, sagði að minnstu örverur jarðarinnar væru ánamaðkarnir, hún vissi ekki betur; Guð hefði sett þá ofan í moldina til að liðka fyrir sólinni, þannig að geislarnir næðu niður í jörðina. Svo gerðist það um vorið þegar ég var fimm ára, að á fallegri stéttinni, þar sem grasið gægðist upp á milli steina, skriðu ánamaðkar og fylgdu eftir grasinu. Ég var svo hamingjusöm að sjá þetta.

En svo kom sorgin, ég gleymi því ekki meðan ég lifi, þegar ég vaknaði morguninn eftir, frostskæni yfir öllu og allir ánamaðkarnir hvítir og dánir. Ég rauk hágrátandi til ömmu og sagði að enginn Guð væri til, hann hefði drepið það sem væri minnst og hjálpaði manni mest. Ég grét og grét og sé enn myndir af þessu í huganum. Amma kenndi mér að þetta væru minnstu örverurnar og ég held að hún hafi ræktað þetta með mér. Að minnsta kosti hefur það verið í mér, frá því ég fór sjálf að heiman og átti ekki neitt, að sinna þeim sem voru hallari í lífsbaráttunni. Þú sérð til dæmis heimili mitt – sérðu hvað ég á lítið!“

Hún lítur ánægð í kringum sig.

„Ég óska þess að hafa lítið, ég þarf ekki á neinu að halda sjálf.“

– Þið hafið verið nánar!

„Það hjálpaði mér mikið að vera alin upp við hliðina á ömmu, sérstaklega þegar hún benti mér á mikilvægi þess að vera maður: „Augnablikið kemur aldrei aftur, leitaðu að því besta sem þú finnur í fari annarra, en lærðu af hinu. Ef gert er á þinn hlut, notaðu það til að hugsa: Býr þetta í mér? Er ég svona? Og bættu við: Þakka þér fyrir að hjálpa mér að gera mig að betri manneskju.“

Ég tek þetta geysialvarlega enn í dag. Ég verð aldrei ósátt við neinn, þó að oft taki samskiptin dýfur. Það skapar sátt hjá okkur að hugsa svona.“

Hún dregur línu í loftið.

„Ég hef búið til strik, skoðanirnar fara undir strik, en fyrir ofan það er maðurinn vandaður, við búum öll yfir þeim kjarna að vera góðar manneskjur og leitumst við að láta gott af okkur leiða, þó að við séum ekki alltaf samstiga.“

– Hvað stendur upp úr þegar þú lítur yfir farinn veg?

„Ég veit það ekki,“ svarar Jenna mildilega. „En það er ofarlega í huga mér, að við höfum aldrei gert meira fyrir börnin en núna. Þá hugsa ég, Pétur, höfðum við ekki þörf fyrir þetta hrun? Höfðum við ekki þörf fyrir það?“

Texti: Pétur Blöndal pebl@mbl.is

Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson kring@mbl.is