Konan á bak við Gyðju Collection er Sigrún Lilja Guðjónsdóttir. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Sigrún náð að hasla sér völl í hörðum heimi tískunnar með þrautseigju, vinnusemi og óbilandi trú á eigin verðleikum. Ingunn Eyþórsdóttir

Ég er algjör hrafn,“ segir Sigrún Lilja Guðjónsdóttir og vísar þar í eigin skynbragð. „Ég elska allt sem glitrar og glóir.“ Hönnun Sigrúnar á heima í Hollywood. Fyrirtæki hennar, Gyðja Collection, sérhæfir sig í fylgihlutahönnun og hefur á skömmum tíma skotist upp á stjörnuhimininn. Hvarvetna berast fregnir af stórstjörnum á borð við Kylie Minogue og Paris Hilton sem berjast um að klæðast í Gyðju.

Blaðamaður hittir konuna á bak við vörumerkið á Súfistanum í Hafnarfirði. Nærvera hennar fer ekki framhjá neinum. Dökkt, sítt hárið, grænu augun og glettna brosið gefa henni framandi yfirbragð. Smellirnir í hælaskónum fá fólk til að líta um öxl. Sest er hjá blaðamanni ung athafnakona.

„Ég stofnaði Gyðju Collection árið 2007, tæpum tveimur árum eftir að ég kom úr fjölskyldufríi frá Egyptalandi. Þar lét ég hanna á mig bleik og hvít stígvél úr úlfaldaleðri og tösku í stíl. Þetta heppnaðist vel og vakti mikla athygli. Eftir mikla hvatningu úr ýmsum áttum ákvað ég að finna framleiðanda, hafa yfirbygginguna smáa og opna vefverslun,“ segir Sigrún um aðdragandann að stofnun fyrirtækisins. „Í heil tvö ár reyndi ég að finna framleiðanda og á ákveðnum tímapunkti var ég við það að gefast upp. Að lokum fann ég framleiðanda í Kína sem starfar enn fyrir mig. Svo er ég með umboðsmenn og dreifingaraðila á mínum vegum í París, Bretlandi, Suður-Afríku, Ítalíu, New York og Los Angeles,“ segir Sigrún en reksturinn teygir nú anga sína til fjögurra heimsálfa.

Sigurvegari í ræðukeppni

Sigrún Lilja er aðeins 28 ára en hefur víðtæka náms- og starfsreynslu. Á menntaskólaárunum vann hún í Baðhúsinu hjá Lindu Pétursdóttur sem var henni ákveðin fyrirmynd í rekstri. Foreldrar hennar reka fyrirtækið Tanni Auglýsingavörur þar sem Sigrún starfaði í fimm ár og öðlaðist dýrmæta reynslu.

„Það markaði ákveðin tímamót þegar ég hætti að vinna hjá þeim og sneri mér alfarið að eigin rekstri. En ég er óskaplega þakklát fyrir það veganesti sem ég fékk úr föðurhúsunum. Mitt uppeldi var þannig að ég varð snemma mjög sjálfstæð. Ég var hvött til að byggja mig vel upp fyrir lífið, vera dugleg og leggja hart að mér í námi. Því byrjaði ég fremur ung að vinna og sá fyrir mér. Ég fékk einnig heimatilbúna kennslu í fjármálum sem ég tel vera mjög mikilvægt að unglingar fái heima fyrir.“

Síðar lauk hún diplóma í fjölmiðlafræði frá Háskóla Íslands. Haustið 2008 hóf hún námskeið hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands sem heitir Brautargengi, ætlað konum með viðskiptahugmynd í mótun.

„Konur eiga það til að vera áhættufælnar en þarna fóru hjólin að snúast og ég öðlaðist mikið sjálfstraust. Það sem olli hins vegar straumhvörfum hjá mér eru samtök sem heita PowerTalk. Þetta eru samtök sem efla sjálfstraustið og kenna heilmikið í ræðumennsku. Á níu mánuðum fór ég frá því að geta varla sagt nafnið mitt hnökralaust upphátt fyrir fólk yfir í það að vinna ræðukeppni á landsvísu,“ segir hún af mikilli rökfestu og er sjálfstraustið uppmálað.

Stefndi á útflutning frá upphafi

Að eigin sögn er Sigrún ofvirk og langt frá því að vera þessi „9-5“ týpa. Hún fer með hlutina alla leið og er stórhuga. „Ég fór strax að huga að útflutningi. Þegar maður ætlar að láta framleiða fyrir sig erlendis þarf magnið að vera til staðar og ég sá fljótt að íslenskur markaður dugði skammt. Ég er líka þannig úr garði gerð að ég er dýnamísk í hugsun. Ég hef alltaf stefnt að því að Gyðja verði stórt alþjóðlegt merki.“

Lá leiðin alltaf til Hollywood?

„Já, eiginlega. Mér fannst ekki vanta venjulega skó og ég hugsaði af hverju á ég að hanna skó sem allir aðrir eru að hanna? Mín sérstaða eru vörur sem draga augað, úr skemmtilegum litum og framandi hráefni, í miklum gæðum. Ég ákvað bara að hafa minn karakter í þessu. Það sem konur vantaði var möguleikinn á því að geta keypt sér skó, belti og tösku í stíl.“

Árið 2008 var Sigrún Lilja valin í verkefni á vegum Útflutningsráðs sem heitir Útflutningsaukning og hagvöxtur. Hún segir að þjálfunin þar hafi haft mikið að segja. „Maður fær frábæra leiðsögn, ég fékk ráðgjafa úr atvinnulífinu og meistaranemendur úr Háskóla Íslands í alþjóðaviðskiptum til liðs við mig. Upp úr krafsinu kom að ég átti að byrja á Bandaríkjamarkaði, í stjörnuborginni Los Angeles. Þarna var leikkonan Aníta Briem farin að ganga í Gyðju og það hjálpaði mikið.“

Í framhaldinu fór hönnun Sigrúnar að sjást víða á rauða dreglinum. Hvernig tilfinning er það að sjá alþjóðlegar stórstjörnur spígspora í skóm frá Gyðju með veski í stíl?

„Þetta eru manneskjur sem manni finnst óraunverulegar,“ segir hún um upplifun sína af þessum fregnum. „Þetta er gríðarlega öflug markaðssetning sem hefur víðtæk áhrif. En ég leyfi mér ekki að staldra við, ég er yfirleitt komin miklu lengra í ferlinu, ég hugsa frábært, æðislegt en sný mér svo að öðrum verkefnum.“

Hápunktur flestra hönnuða hlýtur að vera að komast á tískuvikuna í New York, nafla alheimsins. Sigrún hélt þangað ásamt fylgdarliði sínu í febrúar síðastliðnum.

„Það var æðislegt. Boðið kom í gegnum dreifingaraðila í Evrópu. Þessi sýning var í Bryant Park, þarna voru bara hönnuðir, pressa og Hollywood-stjörnur. Þetta var eiginlega óraunveruleg upplifun. Ég hef aldrei séð eins mikinn fjölmiðlasirkus á ævinni,“ segir hún og hlær smitandi hlátri um leið og hún baðar út höndunum.

Hefur mestar mætur á Versace

Sigrún Lilja hefur frá unga aldri saumað og hannað föt. Til þess að fá útrás fyrir sköpunarkraftinn lærði hún textílhönnun og myndlist eftir grunnskóla. Hún var komin á þann tímapunkt að fara í hönnunarnám þegar ferðalag Gyðju hófst sem enn sér ekki fyrir endann á. „Það var síðan sagt við mig að styrkur minn væri fólginn í því að ég væri ekki með gráðu í faginu. Ég geri bara það sem mér sýnist en er ekki of upptekin af ákveðinni form- eða hugmyndafræði. Núna ræð ég bara hönnuði mér til aðstoðar.“

En hvaða eiginleika þarf góður hönnuður að hafa?

„Það eru mismunandi skoðanir á því, smekkur fólks er svo misjafn. Persónulega, finnst mér að góður hönnuður þurfi að hafa mikinn sköpunarmátt og um leið að hafa þetta í sér. Coco Chanel kunni ekki að teikna en ef þú hefur þetta í þér finnur þú þína leið.“

Eftirlætis fylgihlutahönnuður Sigrúnar er Versace. Það kemur ekki á óvart. Hún kemur fyrir sjónir sem ítölsk díva með hraðan talanda og leggur áherslu á mál sitt með höndunum. Hönnun Sigrúnar hefur einnig verið tekið fagnandi þar í landi enda eru Ítalir annálaðir smekkmenn og mikið gefnir fyrir skart.

Hvaðan færðu inniblástur?

„Ég fylgist með tíðarandanum, tískuvefsíðum og tímaritum. En fyrst og fremst fæ ég innblástur úr íslensku náttúrunni,“ segir Sigrún sem er búsett ásamt unnusta sínum og tveimur hundum í Hafnarfirði, í návígi við hraunið sem er að hennar sögn, óendanleg uppspretta hugmynda. Í nálgun sinni fylgir hún eigin sannfæringu en hugar samtímis að því að varan sé söluvæn. „Maður verður að hafa það á bak við eyrað að varan seljist til þess að geta haldið áfram.“

Stefnir þú á víðtækari hönnun í framtíðinni?

„Ég er með verkefni í pípunum sem er kannski ekki tímabært að greina frá. Ég einbeitti mér fyrst að því að mynda mér sérhæfingu en ég stefni ótrauð að því að hanna fleiri vörur undir sama merki.“

Þakkar fyrir að vera Íslendingur

Sölumennska er Sigrúnu augljóslega í blóð borin. Með ótrúlegum sannfæringarkrafti sínum gæti hún selt nánast hvað sem er.

„Ef ég hef ástríðu fyrir hlutunum þá á ég auðvelt með að selja þá og ég er þannig gerð að ég er mikil keppnismanneskja. Það kemur samt fyrir að ég verð viðkvæm fyrir því að selja eigin hönnun, hún er svolítið eins og barnið manns. Þess vegna finnst mér rosagott að hafa sölufólk.“

Hver er galdurinn á bak við þessa velgengni?

„Það sem hefur hjálpað mér er að ég leyfi mér að hugsa stórt, dreyma stórt og ætla mér stórt. Ég er einbeitt og læt aðliggjandi verkefni ekki aftra mér. „Keep an eye on the price“ er eiginlega mitt mottó,“ segir hún.

Þú gætir skrifað sjálfshjálparbók. Hefur þú hugleitt það?

„Ég gæti það, án gríns,“ segir hún og hlær enn meira. Hlátrasköllin fær fólk á næstu borðum til þess að líta okkur hornauga. Hún heldur áfram: „Ég tileinka mér þakklæti, það er ekkert sjálfsagt, því má ekki gleyma. Ég þakka fyrir að vera Íslendingur. Það felast í því ótal tækifæri að vera fæddur á þessu magnaða skeri, með aðgang að hreinu vatni og friðsæld. Hlutirnir eru verkefni sem þarf að leysa, ekki hindranir. Þetta snýst ekki um það hvort hægt sé að leysa verkefnin heldur hvernig. Ég hef tileinkað mér „the secret“ hugmyndafræðina, ég bjó til vídeó með myndum af framtíðarsýn minni sem ég horfi reglulega á og þessir hlutir munu gerast,“ heldur Sigrún blátt áfram með sjálfshjálparfræðin að vopni sem hafa komið henni eins langt og raun ber vitni.

Illa haldin af skófíkn

Þetta hlýtur að gefa mikið í aðra hönd. Ertu orðin rík?

„Nei. En þegar maður er að byggja upp rekstur þá leggur maður allt í sölurnar og maður auðgast ekki í fyrstu skrefunum. Minn framtíðardraumur er að sjá þetta vaxa og dafna og verða að alþjóðlegu vörumerki sem veltir vonandi miklu einn daginn.“

Það er ekki úr vegi að spyrja gyðjuna að lokum hvort hún sé skófíkill. Eru skór þín „ syndsamlega ánægja“?

„Já, ég er haldin taumlausri skófíkn,“ segir hún og gengur sátt frá borði með sjúkdómsgreininguna í farteskinu. „Til þess að komast inn á heimili mitt þarf ég reglulega að losa út og gefa í Rauða krossinn. Ég er með svona 50 pör í almennri notkun núna. Skórnir skapa „jú“ manninn!“