Bjarki Þorvaldur Baldursson fæddist á Sólborgarhóli í Glæsibæjarhreppi 5. júní 1936. Hann lést á Gjörgæsludeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri 9. desember 2010. Foreldrar hans voru Sigríður Ásgeirsdóttir, f. 3. júlí 1908, d. 16. júlí 1983, og Baldur Stefánsson, f. 24. ágúst 1914, d. 24. febrúar 1973.

8. ágúst 1959 kvæntist Bjarki Sigríði Benediktsdóttur frá Ytra-Dalsgerði í Eyjafjarðarsveit. Hún er dóttir hjónanna Vilhelmínu S. Kristinsdóttur, f. 7. janúar 1918, d. 21. janúar 1938, og Benedikts Bergssonar, f. 18. október 1913, d. 19. desember 1943. Þau slitu samvistum 1988. Börn þeirra eru: 1) Anna Guðrún, f. 1956, fyrrverandi eiginmaður Jóhann F. Stefánsson, f. 9. maí 1952. Synir þeirra eru: a) Baldur Hólm, f. 1973, sambýliskona Oddný Zophoníasdóttir, f. 1974. Börn þeirra eru Breki Hólm, f. 2005, og Bríet Hólm, f. 2006. b) Stefán Freyr, f. 1975, kvæntur Indíönu Ásu Hreinsdóttur, f. 1977. Dætur þeirra eru Marsibil og Ísabel, f. 2008. 2) Sigríður Hrönn, f. 1957, kvænt Hafsteini Péturssyni, f. 1953. Synir þeirra eru: a) Benedikt Kaster, f. 1974, kvæntur Höllu Guðmundsdóttur, f.1981, sonur þeirra er Viktor Berg, f. 2005, dóttir Benedikts frá fyrra sambandi er Alma Dögg, f. 1995. b) Pétur, f. 1979, sambýliskona Harpa Thoroddsen, f. 1979. Synir þeirra eru Hilmir, f. 2006, og Emil, f. 2009, c) Vilhelm Berg, f. 1985, sambýliskona Elín Ásta Bjarnadóttir, f. 1991. Sonur þeirra er Hafsteinn Bjarni, f. 2008. d) Stefán, f. 1993. 3) Heiðrún Edda, f. 1960. Sonur hennar Bjarki Þorvaldur, f. 1984, sambýliskona Kolbjörg Lilja Benediktsdóttir, f.1988. 4) Bjarki Þór, f. 1964, sambýliskona Ingibjörg Ingibergsdóttir, f. 1968. Synir þeirra eru: a) Aron Ingi, f. 1988, b) Davíð Freyr, f. 1988, c) Arnar Geir, f. 1995, d) Alex, f. 2001.

Bjarki lærði rafvirkjun og vann lengst af við þá iðn. Bjarki flutti frá Akureyri til Reykjavíkur árið 1978 og bjó þar til ársins 2003, en þá flutti hann aftur til Akureyrar í kjölfar veikinda.

Útför Bjarka Þorvaldar fór fram í kyrrþey frá Höfðakapellu 20. desember 2010.

Elsku pabbi. Ég vil þakka þér með þessu ljóði:

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Hafðu þakkir fyrir allt elsku pabbi minn.

Þín dóttir,

Sigríður (Sísa).

Mér tregt er um orð til að þakka þér,

hvað þú hefur alla tíð verið mér.

Í munann fram myndir streyma.

Hver einasta minning er björt og blíð,

og bros þitt mun fylgja mér alla tíð,

unz hittumst við aftur heima.

Ó, elsku pabbi, ég enn þá er

aðeins barn, sem vill fylgja þér.

Þú heldur í höndina mína.

Til starfanna gekkstu með glaðri lund,

þú gleymdir ei skyldunum eina stund,

að annast um ástvini þína.

Þú farinn ert þangað á undan inn.

Á eftir komum við, pabbi minn.

Það huggar á harmastundum.

Þótt hjörtun titri af trega og þrá,

við trúum, að þig við hittum þá

í alsælu á grónum grundum.

Þú þreyttur varst orðinn og þrekið smátt,

um þrautir og baráttu ræddir fátt

og kveiðst ekki komandi degi.

(Hugrún.)

Takk fyrir allt, elsku pabbi.

Heiðrún.

Elsku afi.

Á miðvikudegi frétti ég að þú værir mikið veikur og ættir líklega ekki mikið eftir. Eftir stutta baráttu var ljóst að ólíklegt væri að þú hefðir það af sem varð og raunin á fimmtudagsmorgni.

Nú þegar ég horfi aftur og minnist þess sem við gerðum saman og þú fyrir mig er margs að minnast. Fyrstu minningarnar eru að öllum líkindum allar þær stundir sem ég átti með þér og ömmu í sumarbústaðnum. Þið fóruð oft í bústaðinn og oft var dröslast með mig og fleiri barnabörn með. Í sumarbústaðnum var margt gert til dægrastyttingar, helst man ég eftir því að hafa grillað banana, gróðursett tré og þegar þú sýndir mér hvernig maður ætti að raka sig. Þú kunnir það jú betur en flestir enda alltaf snyrtilega rakaður.

Þegar þú bjóst í Reykásnum var ég einu sinni í pössun hjá þér í nokkra daga og ég man vel eftir þeim tíma. Við vöknuðum alltaf saman á morgnana og drifum okkur í sund. Þegar við vorum búnir í sundi fór ég með þér í vinnuna á Skjóli þar sem þú vannst í mörg ár. Ég dröslaðist með þér í vinnunni og man að ég hafði sérstaklega gaman af lampanum sem var á vinnuborðinu þínu, með stækkunarglerinu. Þegar mér var farið að leiðast var ekki djúpt á lausninni því þá var grafin upp litabók sem ég lék mér með tímunum saman. Kaffitímarnir á Skjólinu voru svo í miklu uppáhaldi hjá mér, enda nóg af bakkelsi með kaffinu og það leiddist mér ekki.

Á fermingardaginn minn varst þú hjá okkur mömmu og varst að hjálpa mér að hafa mig til fyrir stóra daginn. Það var gott að hafa þig á staðnum fyrir margar sakir, meðal annars kunni enginn bindishnút á heimilinu, þú reddaðir því vitanlega með bros á vör og kenndir mér um leið að binda bindishnút sem ég nota enn þann dag í dag.

Þetta eru bara nokkrar minningar sem koma upp í hugann þegar ég hugsa til þeirra stunda sem ég átti með þér. Minning þín lifir með mér.

Þó í okkar feðrafold

falli allt sem lifir

enginn getur mokað mold

minningarnar yfir.

(Bjarni Jónsson frá Gröf)

Elsku afi, hvíldu í friði og hafðu þökk fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig.

Þinn nafni,

Bjarki Þorvaldur.