Erla Ottósdóttir fæddist í Reykjavík hinn 6. apríl árið 1945. Hún lést 28. nóvember 2010. Erla var dóttir hjónanna Ottós Guðjónssonar klæðskera, f. 1. ágúst 1898, d. 20. febrúar 1993 og Guðbrandínu Tómasdóttur, f. 31. ágúst 1899, d. 24. mars 1981.

Erla átti 6 systkini: Sigurður, f. 25. júlí 1922, d. 9. júlí 1991, Þorbjörg, f. 23. júlí 1924, d. 10. júlí 1991, Andrés, f. 3. apríl 1928, d. 13. febrúar 1993, Guðjón, sem lést ungur að árum, Kristín, f. 7. apríl 1929, d. 3. ágúst 1990 og Þórir Hans, f. 13. febrúar 1937, d. 31. maí 2007.

Erla giftist Erlingi Stefánssyni framkvæmdastjóra, f. 17. ágúst 1946, 14. maí 1967. Hann er sonur Stefáns Viktors Guðmundssonar, f. 3. febrúar 1912, d. 25. janúar 1993 og Jónu Erlingsdóttir, f. 21. október 1914, d. 20. júní 1997.

Erlingur og Erla eiga tvo syni: Andrés Erlingsson, f. 6. mars 1968, giftur Gyðu Sigurlaugsdóttir, f. 7 desember 1972 og eiga þau 2 dætur, Þorgerði Erlu, f. 1995 og Hrafnhildi Lilju, f. 2001; Guðbrandur Erlingsson, f. 23. nóvember 1972, í sambúð með Jessiku Larsson, f. 4. september 1976 og eiga þau 4 börn, Tíbrá Lilju f. 1996, Alex Baldvin, f. 1999, Davíð Frey, f. 2003 og Kristian Gimlir, f. 2007.

Erla ólst upp í Reykjavík, lengst af á Njálsgötunni. Hún starfaði fyrst við bókband, var lengi hjá Innheimtudeild Ríkisútvarpsins, vann hjá Íslandsbanka, Heilsuverndarstöðinni og síðustu árin var hún hjá Heilsugæslu Reykjavíkur.

Jarðarför Erlu hefur farið fram í kyrrþey.

Mamma er dáin. Þetta eru erfið orð að segja. Eftir lífshættulegt hjartaáfall var hún komin á beinu brautina og allir héldu að nú yrði framtíðin björt. En örlögin réðu annarri för. Hún var snörp og endaði 28. nóvember þegar mamma lést á gjörgæsludeild Landspítalans á fyrsta degi í aðventu.

Margar minningar renna upp þegar maður horfir til baka og hugsar um mömmu. Hún að elda, baka, að prjóna, að gróðursetja, skreyta fyrir jólin, skutlast með mann eða fyrir mann, alltaf var hún boðin og búin til að gera sitt þegar mann vantaði eitthvað, „mamma reddar“.

Þegar við bræður vorum litlir guttar voru þau pabbi mjög dugleg að fara með okkur í alls konar ferðalög bæði innanlands og utan. Þær eru ófáar ferðirnar sem farnar voru í tjaldútilegur og helst þar sem við gátum rennt fyrir fisk. Erlendis ferðuðumst við oft um gjörvalla Evrópu á bílaleigubíl og gistum á mörgum frábærum stöðum og áttum ófáar gleðistundir saman. Þýskaland var þar í sérstöku uppáhaldi, Mósel og Rín og heimsókn til góðra vina í Trier.

Mamma elskaði barnabörnin og var tíðrætt um strákana sína þrjá, Alex Baldvin, Davíð Frey og Kristian Gimli, og hana Tíbrá Lilju í Svíþjóð og fannst erfitt að geta ekki umgengist þau eins mikið og hana langaði til. Stelpurnar hér á Íslandi, Þorgerður Erla og Hrafnhildur Lilja, gátu hins vegar ávallt gengið að henni vísri enda stutt á milli heimila. Þegar til ömmu var komið var ávallt nóg fyrir stafni, föndur, litir, púsl og svo mátti alveg kíkja aðeins í tölvuna. Svo var ávallt eitthvert góðgæti í skúffunni til að gæða sér á.

Sumarbústaður foreldra okkar bræðra, Erlusel, var sérstakur staður í þeirra augum. Þar undu þau sér best og breyttu auðn í iðagrænan skóg og mamma var öflug við gróðursetningu og ræktun landsins. Á meðan mundaði pabbi hamarinn og sögina og bætti við veröndum og auka-rými. Alltaf var jafngott að koma í sveitina til þeirra og ávallt bar mamma fram þvílíkar veitingar að sæmt hefði hverri veislu. Þarna undu barnabörnin sér við leik og gleði og Júlli Labrador átti sitt pláss í stólnum „sínum“ í stofunni.

Mamma var mikið jólabarn. Hún lét pabba skreyta húsið með jólaljósum og inni fylltist heimilið af jólaskrauti, föndri, jólagardínum og dúkum, kertum og jólasveinum af öllum stærðum og gerðum. Hefðirnar voru hafðar í hávegi frá fyrri tíð forfeðranna og kveikt var á messu á aðfangadag og borðað klukkan sex alveg eins og amma gerði alltaf. Þá komu jólin.

Það var gott að sækja mömmu heim, hún bar hag manns ávallt fyrir brjósti og þrátt fyrir erfið veikindi síðustu árin þá lét hún alla aðra en sjálfa sig ganga fyrir ef svo bar undir. Við kveðjum mömmu með miklum söknuði og eftirsjá og mamma, það mun loga sérstakt kerti fyrir þig á aðfangadag.

Andrés og Guðbrandur.