Jólafrí Barack Obama kom til Hawaii í gær og dvelur þar um jólin.
Jólafrí Barack Obama kom til Hawaii í gær og dvelur þar um jólin. — Reuters
Bogi Þór Arason bogi@mbl.

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Öldungadeild Bandaríkjaþings hefur staðfest nýjan START-samning við Rússland um fækkun kjarnavopna og er staðfestingin álitin mikill sigur fyrir Barack Obama Bandaríkjaforseta, aðeins sjö vikum eftir að demókratar biðu ósigur fyrir repúblikönum í þingkosningum.

Öldungadeildin samþykkti START-samninginn með 71 atkvæði gegn 26 í fyrrakvöld. Þrettán repúblikanar greiddu atkvæði með samningnum. Nokkrum vikum áður höfðu nokkrir ráðgjafar Obama ráðlagt forsetanum að fresta því að leggja samninginn fyrir öldungadeildina þar sem miklar líkur voru taldar á því að hann yrði felldur.

Obama undirritaði í fyrradag lög sem afnámu bann við því að samkynhneigðir hermenn segðu frá kynhneigð sinni. Lögin voru samþykkt í öldungadeildinni með 65 atkvæðum gegn 31.

Þessir sigrar á þinginu hafa gefið Obama byr í seglin, aðeins sjö vikum eftir kosningarnar sem þóttu veikja mjög stöðu forsetans. Hann stendur þó frammi fyrir harðri baráttu við repúblikana eftir að nýja þingið kemur saman í janúar. Repúblikanar verða þá í meirihluta í fulltrúadeildinni og meirihluti demókrata í öldungadeildinni minnkar.

Obama sagði að skilaboð kjósendanna í kosningunum í nóvember væru þau að demókratar og repúblikanar þyrftu að vinna saman. Hann kvaðst ætla að beita sér fyrir slíku samstarfi á komandi ári en gera sér fulla grein fyrir því að hann ætti „erfiða baráttu fyrir höndum á næstu mánuðum“.

VÆNTIR ÞESS AÐ ÞING RÚSSLANDS STAÐFESTI START

Kjarnaoddum fækki um 30%

Dímítrí Medvedev Rússlandsforseti fagnaði í gær þeirri niðurstöðu öldungadeildar Bandaríkjaþings að staðfesta nýja START-samninginn og kvaðst vona að hann yrði einnig samþykktur á rússneska þinginu.

Gert er ráð fyrir því að Dúman, neðri deild rússneska þingsins, samþykki samninginn á næstunni og efri deildin staðfesti hann síðan eftir áramótin.

Í nýja samningnum er gert ráð fyrir því að kjarnavopnum Bandaríkjanna og Rússlands fækki um 30% miðað við markmið sem sett voru fyrir átta árum. Hvort ríki má eiga 1.550 kjarnaodda samkvæmt samningnum sem forsetar landanna undirrituðu í apríl.