Fagurskreytt Dagný segist geyma skrautið vel og notar það ár eftir ár.
Fagurskreytt Dagný segist geyma skrautið vel og notar það ár eftir ár. — Morgunblaðið/Sigurður Sigmundsson
Hugrún Halldórsdóttir hugrun@mbl.is Jólatréð sem stendur í aðalsal gistiheimilisins Grundar á Flúðum hefur vakið verðskuldaða athygli.

Hugrún Halldórsdóttir

hugrun@mbl.is

Jólatréð sem stendur í aðalsal gistiheimilisins Grundar á Flúðum hefur vakið verðskuldaða athygli. Það er einstaklega fagurskreytt, líkt og flest önnur jólatré landsmanna, en er sérstakt fyrir þær sakir að á því hanga nánast einungis handgerðir jólamunir.

Heklaði á vakt

„Ég hef í gegnum árin verið að hekla bæði jólabjöllur og engla sem ég stífi og hengi á tréð. Ég held að jólabjöllurnar séu í kringum 30 talsins og englarnir eitthvað svipað,“ segir Dagný Ólafsdóttir, eigandi gistiheimilisins á Flúðum.

Á trénu góða er ekki einungis að finna muni eftir Dagnýju því fleiri hafa lagt henni gott til að skreyta tréð. „Mamma bróderaði svolítið af dóti sem hangir þarna og hún nafna mín, Dagný Atladóttir, perlaði stóra bjöllu sem er ofarlega á trénu þegar hún var 10 ára gömul. Þetta er svona samansafn,“ segir Dagný og hlær.

Dagný heklar mikið yfir vetrartímann þegar rólegt er, en hún vann vaktavinnu í mörg ár í fangelsinu í Kópavogi og þar urðu margir munirnir til. „Þær voru miklar hannyrðakonur sem unnu með mér og við sátum gjarnan og hekluðum eða prjónuðum á nóttunni. Við nýttum tímann því þetta var náttúrlega bara yfirseta.“ Aðspurð hvort það sé ekki kúnst að hekla að nóttu til segir Dagný: „Nei nei þetta er enginn vandi. Þegar maður er búinn að gera svona eitt til tvö stykki þá gerirðu þetta nánast hugsunarlaust.“

Tréð vekur lukku

Dagný segist passa vel upp á skrautið og notar það ár eftir ár. „Maður hendir því hvorki né týnir, því þetta er eitthvað sem þú gerir sjálfur en kaupir ekki í búð. Svo finnst fólki þetta svo fallegt og það hvetur mann náttúrlega til að geyma það vel.“ Að lokum segir Dagný tréð vekja mikla lukku og þá sérstaklega þegar búið er að hengja upp jólaljósin og jólatónlistin farin að hljóma. „Þá kemur góður fílingur.“