Jóhanna Sigurðardóttir
Jóhanna Sigurðardóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skemmst er þess að minnast hversu Steingrímur J. og hans þéttasta stuðningslið voru kokhraust, jafnvel rígmontin...

Á fimmtudag í síðustu viku, þann 16. desember, gerðust þau stórtíðindi að þrír þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, studdu ekki fjárlagafrumvarp formanns síns og fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, heldur sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

Þetta voru þingmennirnir Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason og Lilja Mósesdóttir. Þetta er vitaskuld stórviðburður og eftir situr ríkisstjórn löskuð og lömuð og annar stjórnarflokkurinn, VG, er ekki bara í sárum. Þar ríkir upplausn og kaos og enginn veit hvað við tekur.

Það sem gerir þennan fáheyrða atburð enn fréttnæmari er sú staðreynd að það var einnota þingmaðurinn Þráinn Bertelsson, sem nýlega gekk til liðs við þingflokk VG, eftir að fullreynt var, að hann og hinir þrír þingmenn Hreyfingarinnar gætu ekki starfað saman undir sömu pólitísku formerkjunum á Alþingi, sem hélt lífi í ríkisstjórn þeirra Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar, með því að styðja fjárlagafrumvarpið. Þráinn hinn einnota var vitanlega að reyna að framlengja sitt pólitíska, einnota líf og ekkert annað.

Þannig féllu atkvæðin: 32 þingmenn stjórnarinnar studdu frumvarp fjármálaráðherrans en 31 þingmaður sat hjá, 28 þingmenn stjórnarandstöðunnar og 3 stjórnarþingmenn. Tæpara gat það ekki staðið, því ef Þráinn einnota Bertelsson, hefði ekki leitað sér að nýrri heimilisfesti á Alþingi hefði stjórnin fallið.

Lilja Mósesdóttir gerði grein fyrir afstöðu VG þingmannanna þriggja á fimmtudagsmorgun og greindi m.a. frá því að þau hefðu lagt fram tillögur um breytingar á frumvarpinu í þingflokki VG, en þeim hefði verið hafnað. „Það eru mikil vonbrigði að varnaðarorð um að fjárlögin muni dýpka kreppuna hafi ekki verið tekin alvarlega. Haldið er dauðahaldi í efnahagsáætlun AGS þrátt fyrir að hagvaxtarforsendurnar séu brostnar. Niðurskurður ríkisútgjalda við slíkar aðstæður mun stækka fjárlagafrumvarpið á næsta ári og krefjast meiri niðurskurðar en nú er gert ráð fyrir,“ sagði Lilja þegar hún gerði grein fyrir atkvæði sínu.

Vitanlega hefur sú niðurstaða að ná rétt með herkjum meirihluta fyrir fjárlagafrumvarpinu stórlaskað og veikt þá ríkisstjórn sem nú er við völd. Vandséð er hvernig þeim Atla, Ásmundi og Lilju á að verða líft áfram í þingflokki VG.

Skemmst er þess að minnast hversu Steingrímur J. og hans þéttasta stuðningslið voru kokhraust, jafnvel rígmontin, eftir að óánægjuraddir VG höfðu verið kveðnar í kútinn á flokksráðsfundi VG þann 19. og 20. nóvember sl.

Er því nú haldið fram fullum fetum að Steingrímur J. og félagar hafi gerst of sigurvissir of snemma. Það hafi bara myndast svikalogn um hríð, eða í rétt tæpar fjórar vikur og atkvæðagreiðslan um fjárlögin hafi sýnt fram á það, að þótt formaðurinn hafi verið svona líka rífandi ánægður með flokksráðsfundinn í nóvember, þá hafi hann haft hæpið tilefni til þess að fagna með þeim hætti sem hann og nánustu samstarfsfélagar í flokknum gerðu á laugardagskvöldið, 20. nóvember, að afloknum flokksráðsfundinum.

Nú eru ýmsir í VG sem segja: Flokksforystunni var nær að hlusta ekki á grasrótina í flokknum; það var ekki hlustað á efasemdir grasrótarinnar um stefnuna í Evrópusambandsmálum; það var yfirhöfuð ekki hlustað á nokkurn skapaðan hlut og nú situr hálflömuð ríkisstjórn eftir með sárt ennið og veit ekki sitt rjúkandi ráð.

Heimilisböl þeirra Jóhönnu og Stengríms J. á stjórnarheimilinu er orðið svo margbreytilegt og óendanlegt, að það hljóta margir að spyrja sig að því, hversu lengi hún mun hanga við völd, á vananum einum og málningunni.

En þar fyrir utan, kæru lesendur: Nú er aðfangadagur jóla og því segi ég við ykkur: Gleðileg jól.