Nýbylgjumeistarinn Claude Chabrol.
Nýbylgjumeistarinn Claude Chabrol.
Síðasta spennumynd franska nýbylgjumeistarans Claudes Chabrols er komin á ferð og dreifingin teygir sig æ víðar um Evrópu. Chabrol, sem lést á 81. aldursári í september sl.

Síðasta spennumynd franska nýbylgjumeistarans Claudes Chabrols er komin á ferð og dreifingin teygir sig æ víðar um Evrópu.

Chabrol, sem lést á 81. aldursári í september sl., naut þeirrar sérstöðu hérlendis meðal kollega sinna evrópskra, að myndir hans áttu gjarnan góðu gengi að fagna í kvikmyndahúsum borgarinnar. Oftar en ekki voru þær hörkugóðar, harðsoðnar glæpamyndir þar sem menn voru drepnir á hugmyndaríkan hátt. Slík tilbreyting hefur löngum heillað afkomendur víkinganna. Þá notaði hann heilmikið eiginkonu sína, Stéphane Audran (f. 1932), stórglæsilega, fagurrauðhærða prýðisleikkonu. Köld fegurð hennar og þóttafullt yfirbragð hentaði vel hlutverkum í myndum manns hennar þar sem hún var oftast kaldlynd, framhjáhaldandi tæfa, siðblind og spillt sem lét ekkert standa í vegi fyrir áformum sínum. Aukinheldur var Michel Piccoli (f. 1925), einn besti karlleikari Frakka fyrr og síðar, ósjaldan í móthlutverkinu. Þessi frægu sjarmatröll léku m.a. í óhugnaðinum Les noces rouges ('73).

Síðasta verk Chabrols, Inspector Bellamy, telst ekki með hans bestu myndum en óhætt er að skipa henni langt ofar miðju og gott dæmi um starfsþrekið og hugmyndaflugið þó að leikstjórinn væri kominn um áttrætt er hann vann við myndina. Hún er full af kostum sem settu gjarnan mark sitt á verk leikstjórans og einkenndu merkan, langan og farsælan ferilinn. Aðalpersónan er hinn víðfrægi lögreglustjóri Parísarborgar, Paul Bellamy (Gérard Depardieu), sem er tímabundið nýsestur að úti í sveit ásamt konu sinni. Verður það hinum þekkta rannsóknarlögreglumanni um megn að hverfa úr ys og þys stórborgarlífsins og hvílast í sveitasælunni? Bellamy þykir ljómandi gott að fá sér neðan í því og klípa konu sína (Marie Bunel) í gumpinn. Einkum ef vandræðagripurinn litli bróðir hans (Clovis Cornillac) lætur sjá sig. Hann er að dudda við krossgátur þegar friðurinn er rofinn af dularfullum náunga (Jacques Gamblin), sem á eftir að hrista upp í hlutunum. Hann fer að læðast um í garði þeirra hjóna og ber að lokum fram játningu fyrir Bellamy, segir honum að nýafstaðið bílslys hafi í raun verið morð sem hann lagði á ráðin um til að svíkja út tryggingarfé. Lengst af lýsir Inspector Bellamy skemmtilega notalegri sundurþykkju á milli bræðranna um lítið sem ekki neitt. Athugull áhorfandi á engu að síður að taka eftir að Chabrol er iðinn við að læða inn vísbendingum sem segja ekki minna um persónuleika lögreglustjórans en gátuna um náungann sem er að læðupokast í garðinum. En Chabrol var greinilega mikill blekkingameistari til síðasta dags, það er ekki allt sem sýnist í Inspector Bellamy, frekar en flestum öðrum verkum hins nýlátna meistara frönsku glæpamyndarinnar.

saebjorn@heimsnet.is