Hamid Karzai
Hamid Karzai
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvað ætli Ed fái að þessu sinni í afmælisgjöf frá bróður sínum, David?

Það getur verið erfitt hlutskipti að eiga afmæli á aðfangadegi jóla – degi sem öll önnur mannsbörn eiga líka. Nema menn líti þannig á að verið sé að halda upp á fæðingu þeirra og tilveru alla! Lítum á nokkur vel valin afmælisbörn dagsins.

Nokkrir merkir stjórnmálamenn eru fæddir á aðfangadag. Fyrsta skal nefna Törju Halonen Finnlandsforseta. Hún er 67 ára í dag. Sumsé fædd sama ár og höfðingi okkar þjóðar, Ólafur Ragnar Grímsson. Á alþjóðavettvangi er Halonen líklega þekktust fyrir áhuga sinn á mannréttindamálum.

Ed Miliband, sem kjörinn var formaður Verkamannaflokksins í Bretlandi á árinu, á líka afmæli í dag. Hann er 41 árs sem telst ekki hár aldur hjá formanni í stjórnmálaflokki. Hvað ætli Ed fái að þessu sinni í afmælisgjöf frá bróður sínum, David?

Þegar horft er til fjarlægari slóða kemur upp úr dúrnum að Hamid Karzai, forseti Afganistans, er einnig fæddur á þessum degi. Fagnar 53 ára afmæli sínu í dag. Hann komst til valda árið 2001 þegar stjórn talibana var steypt af stóli en tók formlega við forsetaembættinu þremur árum síðar. Karzai er umdeildur maður og að minnsta kosti fjórum sinnum hafa menn freistað þess að ráða hann af dögum. Án árangurs.

Af afmælisbörnum dagsins úr menningarlífinu má nefna skáldsagnahöfundinn og spennudrottninguna Mary Higgins Clark sem heitir raunar fullu nafni Mary Theresa Eleanor Higgins Clark Conheeney. Og hafiði það. Clark, sem er 83 ára í dag, hefur ritað ógrynni bóka um dagana og fjölmargar þeirra verið þýddar á íslenska tungu. Illa verður maður svikinn ef sú nýjasta verður ekki í einhverjum jólapökkum í kvöld.

Tónlistarmenn eiga vitaskuld sína fulltrúa í hópi jólabarna. Fyrstan skal þar nefna sjálfan Lemmy Kilmister, forsprakka málmbandsins goðsagnakennda Motörhead og einn af brautryðjendum þeirrar eðlu stefnu. Hvort sem menn trúa því eður ei er Lemmy 65 ára gamall í dag. Ætli kappinn telji ekki í Ace of Spades af því tilefni?

Annar merkur þungarokkari fæddist á þessum degi, Munataka Higuchi, trommuleikari japönsku sveitarinnar Loudness, en hann lést langt fyrir aldur fram 2008 af völdum krabbameins. Blessuð sé minning hans.

Af mýkri músíköntum skal nefndur hjartaknúsarinn frá Púertó Ríkó, Ricky Martin. Hann fæddist á því ágæta ári 1971 og heldur því upp á 39 ára afmæli sitt í dag. Martin á frækinn feril að baki í poppheimum og hefur selt um sextíu milljónir platna. Geri aðrir betur! Árið sem er að líða var viðburðaríkt hjá Martin en snemma vors gerði hann sér lítið fyrir og kom út úr skápnum. Fáum brá víst við þau tíðindi.

Annar hjartaknúsari heldur 36 ára afmæli sitt hátíðlegt í dag, nefnilega Ryan Seacrest, útvarpsmaður og kynnir í amerísku stjörnuleitinni. Seacrest, sem er með hressari mönnum, er sagður þekkja ofboðslega margt frægt fólk. Sama dag og Seacrest kom í heiminn í Bandaríkjunum leit Marcelo Salas fyrst dagsins ljós í Síle. Hressilega rættist úr honum en Salas gerði garðinn frægan sem knattspyrnumaður, meðal annars með Lazio og Juventus á Ítalíu. Jæja þá, alla vega Lazio.

Annar kunnur sparkandi á afmæli í dag, Tyrkinn Yıldıray Bastürk, sem fæddist árið 1978. Frægðarsól hans hefur raunar lækkað hratt á lofti og á þessu ári náði hann aðeins að leika einn hálfleik með Blackburn Rovers í ensku úrvalsdeildinni. Hann var þar til reynslu en félagið ákvað að semja ekki við hann til frambúðar. Grindvíkingar, Bastürk er sumsé á lausu.

Fallega fólkið á líka sína fulltrúa í hópi afmælisbarna dagsins, þannig er Riyo Mori, fegurðardrottning heimsins 2007, 24 ára í dag. Hún er frá Japan.

Öllu þessu fólki er óskað til hamingju með afmælið og ykkur hinum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

orri@mbl.is