Ósætti „Það vissi enginn neitt um þessar reglur og það gat enginn svarað fyrir þetta,“ segir Sigrún Edda Lövdal dagmóðir.
Ósætti „Það vissi enginn neitt um þessar reglur og það gat enginn svarað fyrir þetta,“ segir Sigrún Edda Lövdal dagmóðir. — Morgunblaðið/Skapti Hallgríms
Í frétt sem birtist í Morgunblaðinu 14. desember kom fram að fjöldi dagforeldra í Reykjavík væri ósáttur við breytingar sem leikskólasvið borgarinnar hyggst gera og snerta m.a. dvalarsamninga.

Í frétt sem birtist í Morgunblaðinu 14. desember kom fram að fjöldi dagforeldra í Reykjavík væri ósáttur við breytingar sem leikskólasvið borgarinnar hyggst gera og snerta m.a. dvalarsamninga. Nýju reglurnar voru sendar dagforeldrum í júlí og þeir beðnir um samþykki. Sigrún Edda Lövdal dagmóðir sagði engan hjá borginni hafa útskýrt reglurnar og því hafi margir verið óviljugir til að senda inn yfirlýsingu án fyrirvara. Dagforeldrum var sent bréf, sem dagsett var 30. nóvember, þess efnis að þeir sem skiluðu ekki yfirlýsingu án fyrirvara fyrir 15. desember fengju ekki greitt framlag 1. janúar.

Athugasemd, sem Reykjavíkurborg gerði við fréttina, birtist á fréttavef Morgunblaðsins 15. desember. Þar sagði að ranglega hafi verið fullyrt um að ekki hafi verið haft samráð við dagforeldra um breyttu reglurnar. Þá kom einnig fram að fundur hafi verið haldinn með dagforeldrum í september þar sem reglurnar voru útskýrðar. Sigrún segir þessi svör ekki svara neinu. „Ég var að tala um verklagið, en ekki aðdragandann að reglunum.“ Hún segir þann fund sem borgin minnist á ekki hafa skilað árangri. „Margir ef ekki allir dagforeldrar komu út af fundinum engu nær. Það vissi enginn neitt um þessar reglur og það gat enginn svarað fyrir þetta. Með því að senda yfirlýsingu án fyrirvara værum við að samþykkja reglurnar og allar þær breytingar sem á þeim kunna að verða. Það samþykki ég ekki.“

Sjálf segist Sigrún hafa verið með fyrirspurn á fundinum til lögfræðings borgarinnar og fékk hún þau svör að fyrirspurn hennar væri ekki svaraverð. „Þetta er skýrt dæmi um virðingaleysi. Ég vildi fá útskýringu og hún svaraði mér ekki.“ Sigrún segist vilja fá skýr svör frá borginni um nýju reglurnar og hvernig standi á því að niðurgreiðsla, sem ætluð er foreldrum, sé notuð sem verkfæri til að knýja dagforeldra til undirskrifta. hugrun@mbl.is