Ragnar Valdimarsson fæddist í Reykjavík 8. júlí 1945. Hann lést á heimili sínu, Nýhöfn 5 í Garðabæ, 14. desember 2010.

Útför Ragnars fór fram frá Bústaðakirkju 21. desember 2010.

Ég kvaddi þig lauslega, kæri vinur, í símtali fyrir um tveimur vikum síðan. Hvorugum datt þá í hug þegar þú, glaður og reifur að jafnaði, kvaddir mig, að þetta yrði okkar síðasta símtal. Samskipti okkar Ragnars hafa í mörg undanfarin ár farið fram í gegnum síma og rafrænan póst. Það var ávallt svo að þegar ég heyrði í Ragnari eða ef við skiptumst á orðsendingum að hætti nútímans, þá var það sami trausti vinurinn sem hugaði að velferð minni og minnar fjölskyldu í Bandaríkjunum.

Ég kynntist Ragnari fyrst um miðjan áttunda áratuginn. Þá var hann starfandi stýrimaður á skipum Eimskipafélagsins. Síðar, snemma á níunda áratugnum, starfaði Ragnar með mér á skrifstofum Eimskipafélagsins við stjórnun í skiparekstri við undirbúning á lestun og losun stórflutningaskipa í innlendum og erlendum höfnum. Hafði hann þá ákveðið að fara í land, eins og það var kallað, eftir að hann kynnist Vigdísi, eftirlifandi eiginkonu sinni. Við kynntumst þá nánar og fjölskyldur okkar tengdust langtíma vináttuböndum. Ragnar var sterkur persónuleiki. Hæfileikar hans nutu sín við skipulagningu flókinna verkefna í skipaflutningum, þar sem reynsla til sjós og einstakt traust, skapfesta og heiðarleiki var eitthvað sem allir sem áttu við hann viðskipti kunnu að meta. Hann hafði því vináttubönd um allar strandhafnir landsins sem og til hafna erlendis, bæði vestan hafs og austan. Sjórinn kallaði á hann og var hann því ávallt reiðubúinn að fara túr og túr sem skipstjóri og þar í brúnni naut hann sín. Ragnar var hreinskilinn og drengilegur í hvívetna og hjálpfús með afbrigðum. Ragnar var sístarfandi og hafði nýlega hafið byggingu á litlu sumarhúsi við Flúðir og hafði það á orði að þetta ætti að vera lítið, einfalt, traust og byggt með gamla laginu með tjöruþaki. Hann vildi vinna við þetta sjálfur og helst taka sér góðan tíma í þessa byggingaframkvæmd og vanda verkið. Þar ætlaði hann að búa sér og sínum sælureit til framtíðarinnar. Brotthvarf langt fyrir aldur fram er fjölskyldu og hans vinum mikill harmur. Ragnar var mikill og traustur fjölskyldumaður og sannur vinur vina sinna. Hans verður sárt saknað.

Elsku vinur, hafðu þökk fyrir allt og allt. Friður Guðs þig blessi um alla tíma. Elsku Vigdís, börn og barnabörn, Guð veri með ykkur og gefi ykkur styrk í sorg ykkar.

Garðar Þorsteinsson.

Mér brá mikið og trúði því varla þegar hringt var í mig og mér sagt að Ragnar væri látinn. Þessi hressi og góði maður sem mér þótti svo vænt um. Eftir kynni mín af honum var ég ekki lengi að sjá hvaðan sonur hans, Raggi, hefði húmorinn sinn og stríðni. Oft spjölluðum við á léttum nótum um pólitík og lífið og tilveruna. Ragnar var frímúrari og það var alveg sama hvað ég reyndi að veiða upp úr honum um regluna, aldrei gaf hann sig og fíflaðist bara í mér á móti eins og honum var lagið.

Við Raggi sonur hans höfum verið góðir vinir síðan í barnaskóla og orðnir þeir bestu á seinni árum. Við komum heim til hvor annars og ég fann fljótt að heim til hans á Sævanginn og seinna í Garðabæinn var ég alltaf velkominn. Ég var ekki mjög ánægður þegar foreldrar mínir fluttu úr Hafnarfirði, ég þá 16 ára og í Hafnarfirði voru mínir félagar og vinir. Í félagsskap þeirra leitaði ég og oft stóð hann lengi fram eftir nóttu um helgar. Þá var gott að mega koma heim með Ragga fá sér að borða og sofa lengi frameftir í svefnsófanum hans.

Við Raggi urðum smám saman fullorðnari og allt í einu var ég með fjölskyldu. Þá fann ég enn betur hvað þau voru yndisleg bæði tvö og gott fólk. Þau fengu mig til að mála svolítið innan dyra og þótt ég vildi helst greiða með því á einhvern hátt allan þann mat og gistingar sem ég hafði notið í þeirra húsi kom það ekki til greina. „Helgi minn þú þarft pening eins og aðrir“ og ekki hlustað á annað en að greiða vinnuna að fullu, sem mér þótti bara skemmtileg og naut ég félagsskapar Ragnars á meðan sem bauð upp á heitar brauðbollur og með því.

Þau fögnuðu innilega strákunum mínum tveimur og fylgdust með hvernig fjölskyldunni vegnaði.

Um síðustu helgi ætluðum við Ásdís að kíkja í heimsókn til þeirra, en laufabrauðsbakstur truflaði áformin – enda mátti slík heimsókn aðeins dragast. Raggi og Arna að koma heim frá Bandaríkjunum í vikulokin og þá var planið að sjálfsögðu að hittast. En atvikin höguðu þessu á annan veg. Á þriðjudagsmorgun var hringt í mig; Ragnar hafði orðið bráðkvaddur um nóttina.

Mér var hugsað til Ragga míns í fjarlægum heimshluta og allar góðar stundir með Ragnari og Vigdísi komu fram í hugann. Ég fann fyrir sársauka og sorg. Mér fannst þetta svo óréttlátt sérstaklega hvað það var stutt þangað til að Raggi kæmi heim frá L.A. til að vera yfir jólin með fjölskyldu sinni

Að upplifa dauðann er mér sagt að sé hluti af því að verða fullorðinn og kynnast lífinu sem bæði er gleðilegt en því fylgir einnig sorgin. Nú hugsa ég með gleði til samverustundanna og þakklæti fyrir að hafa átt þær með fjölskyldu Ragga.

Elsku Raggi minn, Vigdís og fjölskylda. Um leið og við Ásdís vottum ykkur okkar innilegustu samúð, biðjum við Guð að blessa minningu Ragnars Valdimarssonar.

Helgi Þór Lund.

Fyrsta tilfinningin sem ég fann fyrir þegar ég fékk þá sorglegu frétt að Ragnar vinur minn og samstarfsmaður væri látinn var hversu lífið er stutt og hversu mjög það kemur manni alltaf í opna skjöldu þegar nákomnir ættingjar, vinir og samstarfsmenn látast skyndilega. Daginn áður hafði Ragnar leikið á als oddi í vinnunni og var léttur og kátur. Í huga mér varð til einhver hugrenning sem tengdi saman andlát Ragnars Valdimarssonar og það að sonur minn, 23 ára, hafði fyrir nokkrum dögum farið sína fyrstu ferð sem háseti á flutningaskipi hjá Eimskip. Lífið flaug hjá eins og í sviphendingu og virkaði svo óskaplega stutt.

Við Ragnar höfum unnið náið saman síðan 2004 í öryggismálum hjá Eimskip. Þar áður vorum við alltaf einhvers staðar í grennd hvor við annan í starfi, báðir að sinna öryggismálum og fleiru, hvor á sínu sviði.

Þegar síðan var ákveðið að setja öryggismálin í sérstaka deild naut ég þess að fá Ragnar með mér í það og þá gríðarlegu reynslu sem hann hafði á þessu sviði, bæði í landi og ekki síður á sjónum sem var ekki mitt fagsvið.

Ragnar var ekki bara traustur samstarfsmaður heldur líka góður félagi. Þegar við hittumst á göngunum eða við kaffivélina eða annars staðar gátum við alltaf slegið á létta strengi. Við áttum líka annan vettvang saman sem var Sjálfstæðisflokkurinn og pólitíkin sem var okkur óþrjótandi efniviður í gott spjall.

Ragnar vann alla tíð hjá Eimskip, byrjaði sem unglingur og þekkti félagið því afar vel. Hann var á sjónum fyrst sem háseti, stýrimaður og síðan skipstjóri. Þegar Ragnar var um fertugt söðlaði hann um og hóf störf á skrifstofunni í landi þar sem hann sinnti ýmsum ábyrgðarstörfum. Hann lagði líka mikla vinnu í félagsmálin innan félagsins og sinnti t.d. sumarhúsum starfsmannafélagsins ásamt fleirum af mikilli elju og kostgæfni í gegnum tíðina.

Núna síðustu árin fannst Ragnari, eins og mörgum öðrum, Eimskipafélagið hafa fjarlægst þann grunn og þær hugsjónir og anda sem það byggði á frá upphafi. Hann hafði því dregið sig talsvert út úr ýmsu þar sem hann áður hafði verið mjög virkur.

Ég fann það samt og heyrði að honum fannst félagið vera að koma til baka til sjálfs sín núna síðustu misserin. Skipareksturinn átti eðli málsins samkvæmt stóran stað í hjarta Ragnars og honum fannst gott að félagið hefur aftur lagt mun ríkari áherslu á þann þátt í rekstrinum núna undanfarið og sömuleiðis á gömlu góðu gildin sem hann mat svo mikils.

Ég vil fyrir hönd samstarfsmanna Ragnars innan öryggisdeildar Eimskips senda eiginkonu hans og fjölskyldu okkar innilegustu samúðarkveðjur. Minningin um góðan dreng lifir áfram í hjörtum okkar.

Eyþór H. Ólafsson.