Una Sighvatsdóttir una@mbl.is Íslenskir námsmenn við erlenda háskóla eru nú orðnir fleiri en þeir voru veturinn fyrir kreppu, en í millitíðinni fækkaði talsvert í þeim hópi.

Una Sighvatsdóttir

una@mbl.is

Íslenskir námsmenn við erlenda háskóla eru nú orðnir fleiri en þeir voru veturinn fyrir kreppu, en í millitíðinni fækkaði talsvert í þeim hópi.

Haustið 2008 héldu margir að sér höndum og hættu við að sækja um rándýrt nám í útlöndum á meðan óstöðugleikinn var sem mestur. Einnig sáu sumir íslenskir námsmenn sér ekki annað fært en að hætta námi og snúa heim vegna gengisfalls krónunnar.

Metfjöldi í TOEFL-prófi

Haustið 2009 voru því talsvert færri Íslendingar við nám í útlöndum en árin á undan. En þrátt fyrir að flestir þurfi enn að reiða sig á námslán og horfi fram á miklar skuldir að námi loknu hefur þessi þróun nú snúist við á nýjan leik og skólaveturinn 2010-2011 stunda 2.484 Íslendingar nám utan landsteinanna samanborið við 2.341 árið 2007.

Útlit er fyrir að þessi þróun haldi áfram ef marka má þann metfjölda sem tók í haust alþjóðlegt stöðupróf í ensku, TOEFL, sem flestir skólar sem kenna á ensku krefjast af umsækjendum. Metaðsókn var í TOEFL-prófið í fyrra en í ár var það met slegið og þurfti að bæta við auka-prófdegi nú í desember þar sem fljótt fylltist í öll sæti.

„Ég held að margir hafi örvænt fyrst og ákveðið að bíða með að fara út en nú er eins og fólk sjái tækifæri til að drífa sig af stað,“ segir Hjördís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra námsmanna erlendis. Hún segir að svo virðist sem margir treysti því að kreppan hafi náð lágmarki og bjartara sé framundan. SÍNE hafi hins vegar áhyggjur af fyrirhugaðri breytingu á úthlutunarreglum fyrir næsta ár, að sjálfsfjármögnun skólagjalda verði allt að 30% og að það muni hafa áhrif á möguleika stúdenta til að sækja um nám erlendis. Hugsanlegt sé að það verði þá aðeins á færi efnafólks að mennta sig utan landsteinanna og það sé ekki góð þróun.

Mikilvægt að þau komi aftur

„Það hlýtur að teljast jákvætt að fólk sæki í að mennta sig erlendis. Íslendingar komast líka almennt inn í flotta skóla og verða eftirsóttir vinnukraftar. En þetta fólk kemur náttúrlega ekki til baka ef aðstæður bjóða ekki upp á það, þótt Ísland togi mikið í þá þurfa stjórnvöld að hugsa hvað við getum gert til að lokka fólk til baka að loknu námi.“

Fleiri kjósa að mennta sig 9