Ef Jónas Jónsson frá Hriflu var umdeildasti Íslendingur tuttugustu aldar, þá var sennilega Sigurður Nordal, prófessor í norrænum fræðum, hinn óumdeildasti. Bar þar margt til.

Ef Jónas Jónsson frá Hriflu var umdeildasti Íslendingur tuttugustu aldar, þá var sennilega Sigurður Nordal, prófessor í norrænum fræðum, hinn óumdeildasti. Bar þar margt til. Hann var snjallt skáld, góður rithöfundur, áheyrilegur fyrirlesari og hafði sérstakt lag á fólki. „Hann sigraði mig með ritsnilldinni,“ sagði Barði Guðmundsson, sem hafði deilt við hann um skýringar á íslenskum fornritum.

Það var að líkum, að Sigurður var leystur undan kennsluskyldu um miðjan starfsferil sinn og að hann var skipaður sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, þegar mikið þótti liggja við vegna endurheimtar íslenskra handrita í dönskum söfnum.

Ekki voru þó allir jafnhrifnir af Sigurði. Steinn Steinarr orti kvæðið „Universitas Islandiæ“:

Ég minnist þess

að fyrir átján árum

stóð opinn lítill gluggi

á þriðju hæð.

Og fólkið tók sér hvíld

eitt andartak

og horfði dreymnum augum upp í gluggann.

Þá brá ég við

og réði mann til mín,

sem múraði upp í gluggann.

Ég les úr þessu kvæði ádeilu á Sigurð. Það var ort 1942, þegar endurskoðuð útgáfa Íslenzkrar lestrarbókar Sigurðar birtist, en fyrst kom hún út átján árum áður, 1924. Skrifstofa Sigurðar var á þriðju hæð í háskólahúsinu. Steini sárnaði líklega, að Sigurður sniðgekk hann með öllu í þessari endurskoðuðu útgáfu, þótt hitt sé rétt, að hún átti aðeins að ná til þjóðhátíðarársins 1930, og Steinn hafði þá ekki gefið út neina bók.

En ef einhverjir lesendur telja sig vita betur, þá eru athugasemdir þeirra við þessa skýringu vel þegnar.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar.

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is