Geir H. Haarde í umræðum um viðskiptabann á Suður- Afríku: Verður viðskiptum hætt við aðra mannréttindabrjóta? NEÐRI deild afgreiddi í gær frá sér frumvarp um viðskiptabann á Suður-Afríku og Namibíu til efri deildar. Í umræðum um málið sagði Geir H.

Geir H. Haarde í umræðum um viðskiptabann á Suður- Afríku: Verður viðskiptum hætt við aðra mannréttindabrjóta?

NEÐRI deild afgreiddi í gær frá sér frumvarp um viðskiptabann á Suður-Afríku og Namibíu til efri deildar. Í umræðum um málið sagði Geir H. Haarde (S/Rvk) að til þessa hefði það verið stefna íslenskra stjórnvalda að eiga vinsamleg viðskipti við öll ríki án tillits til stjórnarfars eða stefnu ríkjandi stjórnvalda í innanríkismálum. Hann hlyti því að spyrja hvort helstu talsmenn þessa máls ætluðu aðleggja til að horfið verði frá þeirri stefnu gagnvart fleiri ríkjum þar sem víðar væru mannréttindi fótum troðin.

Geir H. Haarde (S/Rvk) sagði ríkisstjórn Suður-Afríku hafa um áratugaskeið gert sig seka um einhverja alvarlegustu misbeitingu ríkisvalds sem þekktist í víðri veröld. Slík kúgun sem þar færi fram stríddi gegn réttlætisvitund siðaðra manna um allan heim. Hún væri óréttlætanleg og hana hlytu allir lýðræðislega sinnaðir menn að fordæma.

Mannréttindi væru hins vegar fótum troðin víðar en í SuðurAfríku, þótt óvíða væru brotin jafn skipuleg af hálfu ríkisvaldsins og á jafn siðlausum grunni eins og sú aðskilnaðarstefna sem þar tíðkaðist. Menn þyrftu ekki að láta hugann reika víða til að geta nefnt fjölda ríkja sem brytu mannréttindi á þegnum sínum og neituðu þeim um t.d. trúarbragðafrelsi, ferðafrelsi, skoðanafrelsi og tjáningarfrelsi.

Geir sagði Alþingi Íslendinga og íslensk stjórnvöld, sem jafnan hefðu skipað sér í raðir þeirra, sem fordæmt hefðu kynþáttaaðskilnaðarstefnuna, standa frammi fyrir nokkrum vanda í þessu efni. Ættu þau að beita sér fyrir samskiptaeða viðskiptabanni gagnvart einu ríki, sem kúgaði þegna sína, einsog lagt væri til með tillögunni eða ætti e.t.v. að marka almenna stefnu um viðskipti Íslands við öll þau ríki, sem gerðu sig sek um mannréttindabrot af opinberri hálfu?

Til þessa hefði það verið stefna íslenskra stjórnvalda að eiga vinsamleg viðskipti við öll ríki án tillits til stjórnarfars eða stefnu ríkjandi stjórnvalda í innanríkismálum. "Ég hlýt því að spyrja," sagði Geir, "ætla helstu talsmenn þessa máls að leggja til að horfið verði frá þeirri stefnu gagnvart fleiri ríkjum?"

Geir sagðist ekki ætla að leggjast gegn því að Ísland skipaði sér á bekk með þeim ríkjum VesturEvrópu sem eindregnasta afstöðu hefðu tekið gegn kynþáttaaðskilnaðarstefnu Suður-Afríkustjórnar. Með þeim ríkjahópi ættum við meiri samstöðu um utanríkispólitísk málefni en öðrum.

Það væri þó alls óvíst hvort að viðskiptabann, eins og hér væri lagt til, myndi gagnast hinum kúgaða minnihluta sem skyldi. Það væri tilað mynda ekki ólíklegt að einhverjir blökkumenn myndu í kjölfar viðskiptabanns missa það lífsviðurværi sem þeir hefðu haft af framleiðslu ávaxta, sem seldir hefðu verið til Íslands. Ekki gæti það verið tilgangurinn með viðskiptabanni.

Margar hliðar væru á þessu máli, sagði Geir. Það væri til dæmis freistandi að spyrja þeirrar spurningar hvort helstu stuðningsmenn viðskiptabanns á Suður-Afríku myndu leggja slíkt bann jafn eindregið til ef Íslendingar ættu þar einhverra raunverulegra hagsmuna að gæta, ef þar væri til dæmis skreiðarmarkaður á borð við Nígeríu eða saltfiskmarkaður einsog eitt sinn var í Zaire. "Í ljósi þess og með tilliti til þess að hér er fyrst og fremst um það að ræða að veita blökkumönnum í SuðurAfríku táknrænan og siðferðilegan stuðning mun ég greiða þessu máli atkvæði mitt."

Hreggviður Jónsson (B/Rn) sagðist vera þeirrar skoðunar að við yrðum að líta til fleiri ríkja ef þessi tillaga yrði samþykkt. Mannréttindi væru fótum troðin í fjölda ríkja. Við sum þeirra ættum við veruleg viðskipti.

Hreggviður sagði það vekja athygli með hve miklu offorsi þetta mál væri keyrt í gegnum þingið og að Sjálfstæðisflokkurinn hefði horfið frá þeirri stefnu sinni að setja ekki viðskiptabann á eina þjóð framyfir aðrar. Vitnaði þingmaðurinn síðan úr þingtíðindum frá 1985 í svar Geirs Hallgrímssonar, þáverandi utanríkisráðherra, við fyrirspurn um þetta mál. Í þessu svari lýsti Geir Hallgrímsson yfir efasemdum um að viðskiptaþvinganir yrðu til þess að leysa þetta mál með friðsamlegum hætti.

Kjartan Jóhannsson (A/Rn) sagði það ekki vera tvískinnung að setja viðskiptabann á Suður-Afríku. Í ræðu Geirs H. Haarde hefði glögglega komið fram að við værum að sýna samstöðu með öðrum vestrænum þjóðum. Við hefðum líka alltaf reynt að sýna samstöðu með hinum Norðurlöndunum.

Kjartan lagði áherslu á að rödd Íslands þyrfti að skiljast á erlendum vettvangi. Menn spyrðu sig afhverju Íslendingar skæru sig úr meðal Norðurlandanna í þessu máli.

Varðandi það hvort að við hefðum gripið til þessara aðgerða ef við ættum einhverja hagsmuna að gæta þá hefðu ýmsar þjóðir sett viðskiptabann á Suður-Afríku sem hefðu haft verulegra hagsmuna aðgæta. "Ég vona að Íslendingar láti ekki afstöðu sína ráðast af krónum og aurum," sagði Kjartan að lokum.

Steingrímur J. Sigfússon (Abl/Ne) sagði að þegar Geir Hallgrímsson hefði svarað þeirri fyrirspurn sem Hreggviður vitnaði í hafði ekkert Norðurlandanna sett á viðskiptabann. Steingrímur J. sagði síðan að það myndi ekki breyta hans afstöðu þó að í SuðurAfríku væri markaður fyrir íslenskar vörur. Þetta væri líka sú leið sem svarti meirihlutinn vildi að yrði farinn.

Albert Guðmundsson (B/Rvk) sagði að síðastliðinn laugardag hefði birst viðtal í franska sjónvarpinu við biskup Tutu þar sem hann hefði verið spurður að því hvort viðskiptaþvinganir hefðu einhver áhrif. Tutu hefði svarað þessu þannig að allt sem sýndi samstöðu með málstað svartra hefði áhrif en viðskiptaþvinganir hefðu engin úrslitaáhrif. Í staðinn mælti hann með því að öllum samskiptum við landið yrði slitið.

Albert sagði Borgaraflokkinn telja að ef grípa ætti til aðgerða ættum við að stíga skrefið til fulls og slíta öll samskipti við SuðurAfríku. Takmark Alþýðuflokksins í þessum efnum væri að vera aftaní oss samstarfsflokka sinna á Norðurlöndunum.

Kjartan Jóhannsson (A/Rn) sagði alþýðuflokksmenn reiðubúna að athuga það að grípa til frekari aðgerða síðar.

Þórhildur Þorleifsdóttir (Kvl/Rvk) sagðist að sjálfsögðu vera sammála viðskiptabanni. Fáránlegt væri að rífast um jafn sjálfsagðan hlut og að veita svörtum í Suður-Afríku stuðning. Þessi stuðningur væri fyrst og fremst siðferðilegur. Þórhildur sagði að gagnvart Suður-Afríku mætti kannski fyrst og fremst líta á þetta sem fyrsta skref.

Páll Pétursson (F/Nv) sagði að við þyrftum ekki að slíta stjórnmálasambandi við Suður-Afríku þarsem við hefðum ekkert slíkt samband. Að vísu væri íslenskur konsúll í Suður-Afríku og suður-afrískur konsúll hér á landi en það þýddi ekki að við hefðum formlegt stjórnmálasamband.