Guðmundur H. Garðarsson: VINNUÞRÆLKUN VERSLUNARFÓLKS VERÐUR AÐ LINNA GUÐMUNDUR H.

Guðmundur H. Garðarsson: VINNUÞRÆLKUN VERSLUNARFÓLKS VERÐUR AÐ LINNA

GUÐMUNDUR H. Garðarsson (S/Rvk) mælti í sameinuðu þingi á laugardag fyrir tillögu til þingsályktunar um að ríkisstjórninni verði falið að hefja undirbúning að setningu laga um vinnuvernd í verslunum. Guðmundur H. sagði að þrátt fyrir viðræður launþega og vinnuveitenda í verslun hefði enn ekki tekist að ná viðunandi samkomulagi um tilhögun á vinnutíma í þessari grein. Þarna færi fram "óþolandi vinnuþrælkun" sem yrði að linna. Meðflutningsmaður er Halldór Blöndal (S/Ne).

Guðmundur H. Garðarsson sagði að vinnuálag á verslunarfólk hefði aukist gífurlega á síðustu árum. Aukin almenn velmegun og breytt viðhorf í viðskiptum hefðu leitt til þess að opnunartími verslana hefði lengst til muna og væri nú svo komið að í ýmsum stórmörkuðum gæti daglegur vinnutími fólks verið allt að 12-14 klukkustundir 5 daga vikunnar. Þar við bættust 7-8 klukkustundir á laugardögum. Þess væru dæmi að vinnuvikan gæti komist í 70-80 klukkustundir.

Þrátt fyrir ítarlegar viðræður fulltrúa launþega og vinnuveitenda í verslun hefði enn ekki tekist að ná viðunandi samkomulagi um tilhögun á vinnutíma í þessari grein. Virtist stefna í fullkomið óefni.

Með þingsályktunartillögunni væri ekki stefnt að því að þrengja hag eða rekstrarstöðu verslunarfyrirtækja, heldur lögð sú skylda á herðar Alþingis og ríkisstjórnar að tryggja að verslunarfólki yrði ekki misboðið með of miklu vinnuálagi, auk þess sem fjölskyldulífi þeirra er starfa við verslun verði ekki stefnt í voða vegna óheyrilegra langs vinnutíma sex daga vikunnar allt árið um kring. Guðmundur H. sagði að til svona aðgerða hefði verið gripið víða erlendis og einnig væri hér álandi fordæmi með Vökulögunum frá 1924. "Nú árið 1988 stendur verslunarfólk frammi fyrir svipaðri þróun og sjómenn árið 1924 - óþolandi vinnuþrælkun, sem verður að linna.

Félagsmenn VR væru nú um 14.000 manns þar af væru nokkur þúsund svonefnt skrifstofufólk og allmargir er ynnu hlutastörf. Gera mætti ráð fyrir að í félaginu væru um 10.000 manns sem væru í fullu starfi. Þar af væru 4-5.000 við afgreiðslustörf ýmiss konar. Í VR væru 63% félagsmanna konur og 37% karlar. Konur væru í yfirgnæfandi meirihluta við afgreiðslustörf sem meðalannars mætti sjá í stórmörkuðum á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Hið mikla álag og hinn mikli vinnutími kæmi því hvað harðast niður á konum og fjölskyldulífi þeirra. Þá væri einnig þess að geta að margar þeirra væru einstæðar mæður. Þess vegna væri brýnt að þessum málum yrði strax komið í viðunandi horf. Án afskipta Alþingis gerðist það ekki að mati fólksins sjálfs.

Danfríður Skarphéðinsdóttir (Kvl/Vl) sagðist styðja tillöguna og þakkaði flutningsmönnum flutninginn. Sagði hún þá kjaradeilu sem nú stæði yfir að mestu leyti snúast um vinnutímann. Einnig sagði hún Kvennalistann hafa flutt þingmál er tengdust þessu máli. Konur hefðu farið út á vinnumarkaðinn í æ ríkara mæli og þessi langi vinnutími hefði óneitanlega vond áhrif á fjölskyldulíf.

Guðmundur H. Garðarsson þakkaði Danfríði stuðninginn og sagði það vekja athygli að enginn annar þingmaður kveddi sér hljóðs til þess að veita þessu fólki lið.

Guðmundur H. Garðarsson