Þorsteinn Pálsson forsætisráðherra: Plútoníumflutningar ræddir við Bandaríkjastjórn UMRÆÐUR utan dagskrár voru í sameinuðu þingi í gær um fyrirhugaða flutninga á plútoníum frá Frakklandi til Japans yfir Norður-Atlantshaf.

Þorsteinn Pálsson forsætisráðherra: Plútoníumflutningar ræddir við Bandaríkjastjórn

UMRÆÐUR utan dagskrár voru í sameinuðu þingi í gær um fyrirhugaða flutninga á plútoníum frá Frakklandi til Japans yfir Norður-Atlantshaf. Fulltrúar allra þingflokka höfðu miklar áhyggjur af þessum flutingum og sögðu nauðsynlegt að koma í veg fyrir að af þeim yrði. Þorsteinn Pálsson, forsætisráðherra, sagðist ætla að gera ríkisstjórn Bandaríkjanna grein fyrir sjónarmiðum Íslendinga í opinberri heimsókn sinni til Bandaríkjanna síðar í mánuðinum en flutningarnir eru liður í samkomulagi Bandaríkjanna og Japans um friðsamlega nýtingu kjarnorku. Áætlað er að þeir hefjist árið 1990 eða 1991 og farnar verði 1-3 ferði í mánuði.

Hjörleifur Guttormsson (Abl/Al) hóf umræðuna utan dagskrár í gærum fyrirhugaða flutninga á geislavirku plútóníum frá Frakklandi til Japans yfir Norður-Atlantshaf. Hjörleifur sagði að brotlending flugvélar með svona farm yrði hörmuleg. Áform hefðu verið uppi um að lenda í Anchorage í Alaska á leið til Japan en vegna harðra mótmæla hefði verið hætt við það.

Þetta mál snerti ýmis ráðuneyti, sagði Hjörleifur, og vildi hann beina þremur spurningum til forsætisráðherra. Í fyrsta lagi hvort íslensk stjórnvöld hefðu lagaleg tök á að banna flug með hættuleg efni yfir íslenska efnahagslögsögu. Í öðru lagi hvort ríkisstjórnin myndi höfða til ákvæða alþjóðasamninga, svosem hafréttarsamningsins, og samninga um varnir gegn mengun sjávar til að koma í veg fyrir umrætt flug norður yfir heimsskautið. Og í þriðja lagi hvenær þetta mál yrði tekið upp við stjórnvöld í Bandaríkjunum og Japan og aðrar hlutaðeigandi ríkisstjórnir.

Þorsteinn Pálsson, forsætisráðherra, sagði það fyrst og fremst vera umhverfisverndarhagsmunir sem við þyrftum að gæta í þessu máli. Íslensk stjórnvöld hefðu nú þegar bannað yfirflug og lendingu véla með þennan farm. Réttur stjórnvalda til þess að banna yfirflug einskorðaðist þó við landssvæði Íslands. Varðandi aðra spurningu Hjörleifs sagði Þorsteinn að íslensk stjórnvöld myndu vísa til þeirra samninga sem þingmaðurinn nefndi sem og annarra til þess að vernda lögboðna hagsmuni Íslands.

Í þriðja lagi var spurt hvenær þetta mál yrði tekið upp við stjórnvöld í Bandaríkjunum og Japan. Forsætisráðherra sagði þessa flutninga ekki hefjast fyrr en í árslok 1990 eða árið 1991. Af Íslands hálfu yrði hlutaðeigandi stjórnvöldum gerð grein fyrir sjónarmiðum og ákvörðunum Íslendinga svo fljótt sem því yrði við komið.

Kristín Einarsdóttir (Kvl/Rvk) sagði plútoníum vera eitt hættulegasta geislavirka efnið. Ef það kæmist í fisk værum við illa úti og fyllsta ástæða fyrir okkur að koma í veg fyrir þessa hættu. Bandaríkjamenn hefðu til dæmis bannað flutninga á plútoníum yfir sitt landssvæði.

Páll Pétursson (F/Nv) sagðist hafa tekið þetta mál upp í flugráði. Þær upplýsingar hefðu fengist að öll flugfélög sem stunduðu flug á milli Evrópu og Japan millilentu á leiðinni, annaðhvort í Thule á Grænlandi eða í Anchorage í Alaska. Flugþol leyfði ekki flug án eldsneytisáfyllingar. Páll sagði yfirvöld í Danmörku ekki ætla að leyfa flug yfir Grænland eða millilendingu í Thule.

Kjartan Jóhannsson (A/Rn) sagði að sér fyndist það skrýtin ákvörðun að fljúga með þetta efni til Japans þó líkur á slysi væru litlar. Sjóflutningar væru venjan. Hann sagðist vænta þess og treysta að ríkisstjórnin tæki málið mjög traustum tökum svo horfið yrði frá því að flytja plútoníumið flugleiðina og síst af öllu yfir norðurslóðir.

Albert Guðmundsson (B/Rn) sagði fréttina um þessa flutninga hafi vakið upp ótta meðal þjóðarinnar. Orð forsætisráðherra slægju á þennan ótta. Sagðist Albert vilja lýsa yfir fullum stuðningi við orð hans.

Stefán Valgeirsson (SJF/Ne) sagði þetta vera eitt alvarlegasta mál sem upp hefði komið á Alþingi. Spurði hann forsætisráðherra hvort hann myndi ekki taka upp þessi mál í för sinni til Bandaríkjanna.

Þorsteinn Pálsson, forsætisráðherra þakkaði þann skilning sem komið hefði fram á þessu máli. Ríkisstjórnin myndi fyrir sitt leyti gæta hagsmuna Íslands eins og helst væri kostur. Forsætisráðherra sagðist gera ráð fyrir því að gera bandarísku ríkisstjórninni grein fyrir afstöðu okkar í þessum efnum.

Þorsteinn Pálsson