Þórhallur Leósson ­ Minning Þess eru dæmi að óþekktar stjörnur hafi uppgötvast áður en þær sáust í nokkrum stjörnukíki. Þekktar stjörnur undir áhrifum þeirra hafa þá borið tilvist þeirra vitni og stjörnufræðingar veitt þvíathygli. Svo greinileg hafa áhrifin þá verið.

Þessi samlíking kemur mér í hug þegar ég hugsa um þau áhrif sem Þórhallur tengdasonur minn hefir orðið fyrir af föður sínum, Þórhalli Leóssyni, sem nýlega lést hér í borg, 88 ára gamall. Þegar ég kynntist yngra Þórhalli þóttist ég þegar sjá hvaða mann foreldrar hans hefðu að geyma í ljósi þess sannmælis, að sjaldan falli eplið langt frá eikinni. Það staðfestist og þegar ég kynntist þeim, og nú er hann genginn en minningin lifir.

Prúðmennska var Þórhalli Leóssyni umfram allt í blóð borin ásamt glöðu bragði og hjartahlýju, er fráhonum stafaði ómeðvitað alla tíð og hvarvetna, en þó hvergi sem á heimili hans og í því andrúmslofti ólust börn þeirra hjóna upp. Kurteisi hans og sálarylur áttu djúpar rætur í jarðveginum, sem ættartré hans spratt úr. Systkini hans kváðu einnig hafa borið eðlislægri menningararfleifð órækt vitni. Sjálfur kynntist ég þessu í fari Jóns Leós bróður hans.

Þórhallur Leósson fæddist á Ísafirði, sonur hjónanna Kristínar Halldórsdóttur frá Rauðamýri og Leós Eyjólfssonar söðlasmiðs og kaupmanns, en hann var bróðir Höllu skáldkonu á Laugabóli. Eyjólfur faðir Leós var bóndi, en forfeður hans í beinan karllegg voru prestar í 6 ættliði, að undanteknum þriðja ættliðnum, sem var Bjarni Pálsson, landlæknir.

Þórhallur ólst upp með sínum virtu foreldrum og systkinum á Ísafirði og ísafjörður var ævina á enda ofarlega í huga hans. Sérstaklega minntist hann íþróttastarfsins þar, sem hann var lífið og sálin í á uppvaxtarárum sínum. Hann var fjölhæfur íþróttamaður og stofnaði, ásamt bræðrum sínum, íþróttafélagið Hörð og var fyrsti formaður þess. Síðan sigldi Þórhallur, ásamt Jóni bróður sínum, til verslunarnáms í Danmörku og lauk prófifrá Kaupmannaskólanum í Höfn árið 1924.

Árið 1931 kvæntist hann eftirlifandi eiginkonu sinni Steinunni Ás geirsdóttur frá Ísafirði, merkri mannkostakonu. Meðan þau bjuggu á Ísafirði stundaði hann verslunarstörf og rak eigin verslun í 8 ár. En 1940 fluttust þau með þrjú börn sín til Reykjavíkur, þar sem hann vann áfram að verslunarstörfum, lengst af hjá heildversluninni Eddu. Þau Steinunn og Þórhallur byggðu sér hús við Sörlaskjól, á sólarströnd Seltjarnarness má kalla, þar sem er einhver fegursta fjara á höfuðborgarsvæðinu. þar stóð heimili þeirra í 38 ár. Börnin urðu 5 að tölu og barnabörnin eru orðin mörg. Öll hafa þau notið yndisstunda í þessu afa- og ömmuhúsi.

Og þar opinberaðist undirrituðum einmitt við sérstakt tækifæri, í áttræðisafmæli ættföðurins, hve mild og máttug áhrifin höfðu veriðfrá honum, og þeim báðum, á barna- og afkomendahópinn. Andrúmsloftið talaði sínu þögla en ótvíræða máli. Þar að auki talaði einn sona hans til hans, sem undirstrikaði allt er aldrei verður sagt en er þó ofar öllu, þar sem kærleikurinn ríkir.

Afmælisbarnið var ofurlítið annars hugar, heyrði e.t.v. ekki allt sem sonurinn sagði. En hvað sem því leið ríkti "sólfögur gleðin á brá". Hann var heima hjá sér, þar sem hjarta hans hafði ætíð verið, í hópnum sínum. Það var honum allt og þótt sonurinn gæti reiknað með að faðir hans fylgdist ekki með hverju orði, er hann mælti til hans af innsta hjartans grunni, valdi hann orð sín og tóninn, sem hann talaði í, af slíku listfengi og kostgæfni sem líf lægi við að áhrifin, sem hannhafði orðið fyrir frá honum, bærust aftur til upphafs síns.

Síðustu árin þurfti Þórhallur umönnunar við á hjúkrunarheimili. Aldrei brást þó ástúð eiginkonu og barna. Og svo lengi sem einhver veit eitthvað í þennan heim, og finnur til, nær hún ein í gegnum alla skilveggi.

Emil Björnsson