Eyjólfur Snæbjörnsson Eyfi er dáinn. Ég hef búist við að heyra þessa fregn fyrirvaralaust síðastliðin 25 ár, því að oft hefurhann verið hætt kominn í baráttu við líkamleg mein. Kvíðinn við að missa svo tryggan vin, sem á tímabili var mér sem annar faðir, blundaði í undirmeðvitundinni. Svo þegar að alvörunni kemur, blikna orðin, sem honum voru alla tíð ætluð sem kveðja. Orð sem eiga að tjá þakkarskuld vegna áralangrar umhyggju hans og vináttu.

Ódrepandi áhugi Eyfa á skátastarfi hvatti marga til að leggja alltaf mörkum um árabil í þágu þess. Hann var kletturinn sem ávallt vará sínum stað, óhagganlegur í öldurótinu sem velti okkur hinum yngri. Hjá honum mátti fá skjól, ný úrræði og örvun. Hann byggði starfið í Bústaðahverfinu upp frá grunni og fylgdist með félaginu alla tíð síðan. Þótt máttfarinn væri orðinn undir það síðasta, ræddi hann af sama áhuga og fyrr um starfið.

Ávallt var Eyfi reiðubúinn að leggja hönd á plóg til að búa í haginn fyrir yngra fólk. Óeigingjarnt starf hans við skátaskólann að Úlfljótsvatni ber órækastan vott þar um. Uppbyggingin á þeim stað í samvinnu við konu sína og góða félaga var honum mikils virði. Fáir standa jafn vel undir einkunnarorðunum eittsinn skáti, ávallt skáti.

Hann sannaði það sem BadenPowell sagði einhverju sinni að leikur héldi manni ungum. Hann þroskaðist vel en eltist lítið. Lundin létt, stöðug atorka og lifandi áhugi voru bráðsmitandi fyrir alla sem til hans sóttu, fram til síðasta dags.

Ég þakka samfylgd góðs vinar, sem á sínum tíma hjálpaði mér að komast til manns. Ég tjái þér, Lillý mín, hluttekningu og þakkir fyrir þá umhyggju sem þú sýndir Eyfa í veikindum hans. Ég veit að þú hefur misst mikið. Fari Eyfi, vinur minn, í friði, minning hans mun lifa.

Gretar Marinósson