Kuldi Gestir á landsmóti hestamanna á Vindheimamelum í Skagafirði láta ekki veðrið á sig fá, en búist er við hlýindum í aðdraganda helgarinnar.
Kuldi Gestir á landsmóti hestamanna á Vindheimamelum í Skagafirði láta ekki veðrið á sig fá, en búist er við hlýindum í aðdraganda helgarinnar. — Ljósmynd/Hilda Karen Garðarsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Janus Arn Guðmundsson janus@mbl.is Landsmót hestamanna á Vindheimamelum í Skagafirði hófst sl. sunnudag. Mótið verður sett við formlega athöfn í kvöld klukkan 20:00.

Janus Arn Guðmundsson

janus@mbl.is

Landsmót hestamanna á Vindheimamelum í Skagafirði hófst sl. sunnudag. Mótið verður sett við formlega athöfn í kvöld klukkan 20:00. Búist er við um tíu þúsund hátíðargestum, en um og yfir fimm þúsund manns hafa nú komið sér fyrir á svæðinu. Heimsmet var sett á mótinu þegar stóðhesturinn Spuni frá Vesturkoti hlaut hæstu aðaleinkunn sem stóðhesti hefur verið gefin. Mótinu lýkur svo á sunnudaginn kemur, en búist er við góðu móti í ár.

Að sögn Hildu Karenar Garðarsdóttur, fjölmiðlafulltrúa Landsmóts hestamanna, hefur mótið farið vel af stað. Veðrið mætti vera betra, þótt það standi til bóta þar sem spáin sé með eindæmum góð fyrir helgina. „Gestir láta ekki veðrið aftra sér, enda um 5.000 manns á svæðinu,“ segir hún og bætir við: „Það er mikið af efnilegum hrossum og knöpum á svæðinu. Á þriðjudaginn sló stóðhesturinn Spuni heimsmet sem ætti að gefa nokkuð glögga mynd af gæðum íslenska hestsins. Mótið á því eftir að verða mjög spennandi í ár.“

Keppendur eru á öllum aldri og keppt er í öllum flokkum. Flokkarnir skiptast í A-flokk gæðinga, B-flokk gæðinga og síðast en ekki síst í þrjá flokka yngri knapa.

250-300 prúðklæddir knapar

Hilda segir dagskrána í dag og næstu daga með glæsilegasta móti. „Í kvöld verður forkeppni í tölti og setningarathöfn. Hún verður mjög hátíðleg, þar sem fánar verða dregnir að húni og 250-300 prúðklæddir knapar í hópreið á hestum sínum.“

Í ár ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. „Við verðum með marga skemmtikrafta og má þar nefna skagfirska söngvarann Geirmund Valtýsson, Álftagerðisbræður og karlakórinn Heimi,“ segir Hilda. Hún segir að Magni Ásgeirsson muni halda uppi stuðinu, en hann stýrir brekkusöng. „Börnunum ætti ekki að leiðast, í ár höfum við sett upp sérstakan barnagarð þar sem Magni Ásgeirsson og Sigríður Beinteinsdóttir sjá um að skemmta yngri kynslóðinni.“

Hilda segir mótinu víða veitt athygli úti í heimi. „Hér er fjöldinn allur af blaðamönnum og ljósmyndurum frá erlendum tímaritum,“ segir hún, en fjölmiðlamenn hafa komið gagngert til landsins til að fjalla um íslenska hestinn. Um þúsund erlendir ferðamenn eru á svæðinu og búist við enn fleirum um helgina.

Á sér langa sögu

Landsmót hestamanna hefur skipað sér í hóp helstu íþróttaviðburða landsins sem haldnir eru með reglubundnum hætti. Mótið á sér langa sögu, en mótið í ár er það 19. í röðinni. Landsmótið nú er haldið á Vindheimamelum í sjötta sinn. Að sögn Hildu var það fyrst haldið þar árið 1974 og segir hún það ánægjuefni að nú, 37 árum síðar, skuli það vera haldið á sama stað.

Að lokum bendir Hilda fólki á, sem ekki kemst á mótið, að hægt sé að horfa á það í gegnum heimasíðu þeirra, www.landsmot.is, gegn vægu gjaldi.

Stóðhesturinn Spuni fær hæstu einkunn sem gefin hefur verið

Jafnstoltur af Spuna og börnunum sínum

Stóðhesturinn Spuni frá Vesturkoti sló heimsmet þegar hann hlaut einkunn sem enginn stóðhestur hefur fengið áður. Spuni fékk 9,17 fyrir hæfileika og var með 8,43 fyrir sköpulag sem þykir ótrúlegur árangur hjá stóðhesti. Aðaleinkunn hans er því 8,87, sem er sú hæsta í heimi meðal stóðhesta. Spuni, sem er fimm vetra gamall, er undan Álfasteini frá Selfossi og Stelpu frá Meðalfelli. Eigandi Spuna er Finnur Ingólfsson, fyrrverandi ráðherra, en hann kveðst mjög ánægður með árangurinn. „Hann er undan meri sem konan mín gaf mér, en hún hefur gefið gríðarlega vel,“ segir Finnur og bætir við að hann sé jafnstoltur af Spuna og börnunum sínum þegar þau gera vel. „Það er mikill áhugi fyrir hestinum og ég hef fengið töluverð viðbrögð.“ Finnur segir Spuna þannig hest að hann viti aldrei hverju hann taki upp á. „Hann er til alls líklegur.“