Í dag eru 100 ár liðin frá fæðingu Sigurbjörns biskups

Þegar rúmlega þrítugur sóknarprestur kvaddi Hallgrímssöfnuð í ársbyrjun 1945 lagði hann út frá orðum Jesú Krists: Mín kenning er ekki mín, heldur þess sem sendi mig. Og þegar sjálfur Kristur flytur ekki eigin kenningu, heldur er sendur, hversu fjarri munu þá ekki jarðneskir prestar hans vera því að fara með ráðstöfunarrétt yfir kristindómnum eða eiga með það að snúa honum, toga hann og teygja eins og tíðarandinn hverju sinni er grunaður um að heimta? Þetta skildi Sigurbjörn Einarsson mætavel. Hann vissi að það „er jafn fjarstætt að flytja boðskap um sjálfan Guð án þess að vera sendur til þess, eins og hitt að þegja um slíkan boðskap, ef maður þekkir hann. Af þessum rökum lifir kirkjan enn í dag. Rök hennar eru þessi: Mín kenning er ekki mín, ég er send, kenningin er hans sem sendi mig. Það liggur í augum uppi, að þetta er eina hugsanlega heimild dauðlegra manna til þess að flytja boðskap um sannan Guð, um viðhorf hans til mannanna, um vilja hans þeim til handa.“

En hvaða kröfur eru gerðar til kirkjunnar manna í dag? Heyrist oft gerð sú krafa til hennar að hún gleymi aldrei að hún sé send til að flytja kenningu sem ekki er hennar eigin, eða er henni kannski fremur legið á hálsi fyrir að vera ekki nægilega fljót að hlýða, hvenær sem nútíminn telur þörf á að laga kristindóminn að nýjustu uppgötvunum sínum? Og hvaða kröfur gera prestarnir sjálfir? Getur verið að þar á bæ þyki sumum brýnna að vera í takti við tíðarandann en þann helga? En „hver er ég eða hver ert þú, að við tækjum okkur fyrir hendur að flytja kenningu um Guð og eilífan veruleik hans af eigin efnum, sem eigin uppgötvun og sjálfseign! Getgátur geta menn flutt í eigin umboði, hugmyndir og skoðanir. En kirkjan þekkir þann Guð, sem vildi ekki láta mennina sitja uppi með getgátur einar um sjálfan sig, hugboð og óljósan grun um hið eina í tilverunni, sem raunverulega skiptir máli. Guð hefur talað og talar til vor fyrir Soninn.“

Sá ungi prestur, sem kvaddi söfnuð sinn í ársbyrjun 1945, átti þá eftir að skrifa, tala og predika yfir sístækkandi hluta þjóðar sinnar í meira en sextíu ár. Starfsferill Sigurbjörns Einarssonar varð einstakur eins og maðurinn sjálfur. Það blésu um hann vindar og sumir hvorki mildir né sérstaklega sanngjarnir þegar fast var tekist á um hvaða leiðir væru farsælastar til að tryggja öryggi landsins. En þótt Sigurbjörn hafi skipt sér af þeirri baráttu um skeið þá var æviverk hans öðru helgað, vitnisburðinum um Jesúm Krist og útbreiðslu orðs hans. Því hlutverki sinnti Sigurbjörn öll sín fullorðinsár, sem urðu mörg, og gerði það þannig að fáir munu hafa séð ástæðu til samanburðar við aðra menn. Jafnvel rammir trúleysingjar áttu erfitt með að neita sér um að hlusta þegar biskupinn yfir Íslandi talaði. Með orðfæri og málsmekk sem hæfði einum helsta andans manni landsins var þar talað um dýpstu sannindi af trúarsannfæringu sem engum gat dulist.

Þó að biskup léti af embætti sínu sjötugur eins og ósveigjanlegar reglur bjóða lét hann hvergi deigan síga. Í tæpa þrjá áratugi eftir það hélt hann sínu striki. Sína síðustu predikun flutti hann í Reykholti sumarið 2008 og minnti viðstadda á að hvað sem öðru liði þá væri Jesús Kristur í gær og í dag hinn sami og um aldir. Og kominn hátt á tíræðisaldur brýndi hann landa sína: „Það kemur fyrir að mennirnir blindast og krossfesta sína eigin gæfu, hjálp og blessun. Verst fer þeim ævinlega, þegar þeir blindast af ímynduðum glansi af sjálfum sér – ég er ekki viss nema einhverjir sperrtir hanar á tildurshaugum samtímans mættu taka þetta til sín. Og það er ekki hættulaust að seljast undir framandi íhlutanir og yfirráð. Hákon konungur reyndist Íslandi óheillavaldur. En verri en Hákon eru þau máttarvöld sum, sem menn eru svo aumlega flatir fyrir nú á dögum. Ég nefni aðeins það sjúka yfirlæti, sem þykist upp úr því vaxið að gera ráð fyrir neinu æðra sjálfu sér í alheimi, og þann gráðuga Mammon, sem virðir ekkert, enga helgidóma, engar hugsjónir, engin gildi.“