Í þinglok Þingmenn voru ósammála um margt, en því sem þeir voru þó á eitt sáttir um slepptu þeir að afgreiða.
Í þinglok Þingmenn voru ósammála um margt, en því sem þeir voru þó á eitt sáttir um slepptu þeir að afgreiða. — Morgunblaðið/Heiddi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Önundur Páll Ragnarsson onundur@mbl.is Framlenging á fresti til að taka út séreignarlífeyrissparnað gleymdist ekki í þinginu í vor.

Fréttaskýring

Önundur Páll Ragnarsson

onundur@mbl.is

Framlenging á fresti til að taka út séreignarlífeyrissparnað gleymdist ekki í þinginu í vor. Málið komst einfaldlega ekki að vegna mikillar umræðu um einstök önnur mál og að stórum hluta til vegna fastheldni stjórnarandstöðunnar á tiltekinn lista þingmála sem þyrftu að fá umræðu. Þetta segir Þuríður Backman, þingflokksformaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Formenn þingflokka semja á lokavikum hvers þings um það hvaða mál eigi að fá forgang þegar takmarkaður tími er til stefnu.

Í Morgunblaðinu í gær var greint frá því að forsvarsmenn Landssamtaka lífeyrissjóða telja mjög slysalegt að málið hafi ekki farið í gegn á vorþingi, enda enginn ágreiningur um það. Ákvæði um málið var sett inn í frumvarp um lífeyrissjóði, sem síðan strandaði vegna ágreinings um allt önnur atriði. Hefði auðveldlega mátt færa það yfir í eitthvert annað frumvarp, svo sem eins og bandorm um aðgerðir í ríkisfjármálum.

Framlengingin gleymdist ekki

Þuríður segir að upphaflega hafi verið lagður fram listi yfir mál sem ættu að vera í forgangi. Framlenging frestsins til að taka út séreignarsparnað hafi sannarlega verið á þeim lista og málið því hvorki verið gleymt né grafið. „En í lokin var það þannig að stjórnarandstaðan festi sig eða batt sig við ákveðinn lista sem var settur fram á ákveðnum tímapunkti og síðasta hálfa mánuðinn var bara mjög erfitt að breyta nokkru eða koma fleiri málum þar inn. Það voru fleiri mál sem fullur einhugur var um og hefðu að öllu jöfnu átt að geta gengið.“

Hún segir það vopn stjórnarandstöðunnar að geta beitt sér í samningum um það hvaða mál fái að komast á dagskrá, því ef ekki sé farið eftir neinu samkomulagi um það geti komið til málþófs. Það sé hluti af lýðræðinu að stjórnarandstaðan hafi sín áhrif. Haldið hafi verið við þann lista til að forðast málþófið. Segir hún að bæði hafi stóra kvótafrumvarpið og önnur mál þurft mikla umræðu. „Það voru miklu fleiri mál sem hefðu getað verið afgreidd undir eðlilegum kringumstæðum, en það var bara ekki. Það er alveg hægt að sjá hvaða tími fór í umræðu um mál sem engum hafði dottið í hug að yrði einhver umræða um, en varð til þess að hafa áhrif á það hvaða mál komust inn á dagskrána,“ segir Þuríður.

Verklagið er ekki í lagi

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, fyrsti varaforseti Alþingis, segir formenn nefnda eiga að halda utan um hvaða mál séu ágreiningslaus í nefndum og vilji til að ljúka. Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og skattanefndar, hefði átt að fylgjast með því hvort heimildin kæmist í gegn.

„Var það vilji stjórnarmeirihlutans og alþingismanna almennt að framlengja þetta? Hefur ekki verið áhugi á því hjá nefndinni og þetta þar af leiðandi ekki lagt fyrir? Eða hitt, sem mér þykir líklegra, að hamagangurinn á þessum síðustu dögum þingsins hafi verið svo mikill að þetta hafi einfaldlega fallið á milli skips og bryggju.“ Hún segir algjörlega óásættanlegt að svona mál þurfi að bíða til haustsins.

Hún leggur til að forsætisnefnd breyti vinnulagi sínu og fundi bæði fyrr og oftar með formönnum nefnda til að hafa betri yfirsýn. „Forseti þingsins hefur fundað með formönnum nefnda til að leggja áherslu á þetta. En þarf ekki að gera það fyrr og oftar? Verklagið hjá okkur er ekki í lagi,“ segir Ragnheiður.

Helgi Hjörvar segir að hann hafi einfaldlega klárað málið frá sinni nefnd og komið því inn í frumvarp. Það hafi svo verið formenn þingflokka sem sömdu um hvað kæmist á dagskrá og hvað ekki. Ekki náðist í formenn annarra þingflokka í gær.

Ný lög um þingsköp bæta verklag Alþingis til muna

Annar háttur á strax í haust

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, segir það ekki útilokað að fyrir gleymsku hafi fresturinn ekki verið framlengdur. Það hafi hins vegar verið á forræði þingflokksformanna að semja um mál fyrir þinglok.

Hún segir að með nýsamþykktum lögum um þingsköp Alþingis verði fjölmargar nýjungar til þess að bæta vinnubrögð þingsins strax í haust. „Það verður hafður annar háttur á mörgu strax í haust, vegna þess að það er verið að breyta þingsköpunum mjög mikið,“ segir Ásta Ragnheiður.

„Ég geri ráð fyrir að við það eitt að nefndum mun fækka úr tólf niður í átta þá hafi menn betri yfirsýn yfir þau mál sem eru til umfjöllunar. Þingmenn munu þá verða bara í einni nefnd, í mesta lagi tveimur, en eru nú í allt að fjórum nefndum. Ég geri ráð fyrir að með þessum breytingum muni allt verklag batna til muna.“