Ólafur Már Þórisson omt@mbl.is Jóhannesi Karli Sigursteinssyni, þjálfara kvennaliðs Breiðabliks, og Vöndu Sigurgeirsdóttur aðstoðarþjálfara var báðum sagt upp störfum í gær af stjórn knattspyrnudeildar félagsins.

Ólafur Már Þórisson

omt@mbl.is

Jóhannesi Karli Sigursteinssyni, þjálfara kvennaliðs Breiðabliks, og Vöndu Sigurgeirsdóttur aðstoðarþjálfara var báðum sagt upp störfum í gær af stjórn knattspyrnudeildar félagsins. Árangur Breiðabliks í upphafi sumars var slakur en tveir sigrar á Grindavík og Fylki virtust ætla að gæða baráttu þeirra í deildinni lífi. Tvö töp fyrir Íslandsmeisturum Vals og Þór/KA fylltu hins vegar mælinn. Breiðablik er með sjö stig í 7. sæti Pepsi-deildarinnar.

„Ég átti ekki von á þessu í dag,“ sagði Jóhannes í samtali við Morgunblaðið. „Það er ákvörðun stjórnarinnar að styrkja ekki liðið þrátt fyrir að missa mjög sterka leikmenn fyrir mótið. Það átti að byggja á þeim leikmönnum sem við höfðum og stelpum úr yngri flokkunum. Púðrið átti að fara í það starf. Þar sem þetta var ákvörðun þeirra bjóst ég við að þeir hefðu þolinmæði til að vinna samkvæmt því. Það kemur mér á óvart að þeir hafi ekki meira hugrekki til að standa á bak við sína ákvörðun.“

Spurður hvort þeir væru að ganga á bak orða sinna sagði Jóhannes: „Þetta er í mótsögn við stefnu félagsins. Ég veit hins vegar að það er pressa frá stuðningsmönnum, foreldrum leikmanna og hún hefur áhrif á stjórnina. Stjórnin hafði ekki það hugarfar sem til þurfti. Það eru ef til vill einstaklingar þar sem þurfa að skoða sinn gang líka.“