Forystumenn íslenskra sósíalista, þeir Einar Olgeirsson og Brynjólfur Bjarnason, voru tíðir gestir í Moskvu allt frá 1920. Þeir tóku ekki aðeins við fyrirmælum þaðan, heldur líka miklum fjármunum.

Forystumenn íslenskra sósíalista, þeir Einar Olgeirsson og Brynjólfur Bjarnason, voru tíðir gestir í Moskvu allt frá 1920. Þeir tóku ekki aðeins við fyrirmælum þaðan, heldur líka miklum fjármunum. Þeir sendu einnig efnilega flokksmenn til þjálfunar í Rússlandi.

Að vonum kynntust Einar og Brynjólfur vel ýmsum mönnum þar eystra.

Kunnastur var Arne Munch-Petersen, þingmaður danska kommúnistaflokksins. Einar Olgeirsson hitti hann fyrst í Moskvu 1928. Hafði Munch-Petersen ýmis samskipti við Íslendinga síðar, eins og rakið er í bók Þórs Whiteheads, Sovét-Ísland . Munch-Petersen hvarf í Moskvu í júlí 1937.

Annar góðkunningi Íslendinga í Rússlandi var Allan Wallenius, sænskumælandi Finni, sem starfaði á skrifstofu Kominterns, alþjóðasambands kommúnista. Hann bauð Einari Olgeirssyni heim til sín í Moskvu 1931, kenndi nokkrum Íslendingum í þjálfunarbúðum Kominterns, var leiðsögumaður íslenskra sendinefnda um landið og skrifaði grein um Sölku Völku eftir Laxness í sænskt tímarit, og var íslensk þýðing birt í Rétti 1935.

Wallenius hvarf í Moskvu í febrúar 1938.

Þriðji málvinur þeirra Einars og Brynjólfs var þýski kommúnistinn Willi Mielenz, sem var um skeið forstöðumaður Norðurlandadeildar Kominterns. Hann hafði starfað í sérdeild þýska kommúnistaflokksins, sem sá um að falsa vegabréf og senda leyniskýrslur, og bar þá dulnefnið Lorenz. Mielenz kom hingað til lands skömmu fyrir Gúttóslaginn í nóvember 1932 og hélt fundi.

Mielenz hvarf í Moskvu í október 1938.

Venjulega þykja skyndileg mannshvörf dularfull, og leit hefst að hinum horfnu. En svo virðist sem þeir Einar Olgeirsson og Brynjólfur Bjarnason hafi einskis spurt. Nú vitum við, að þessir þrír góðkunningjar þeirra hurfu inn í Gúlagið og dóu þar, Munch-Petersen 1940 og þeir Wallenius og Mielenz 1942.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is