Á nítjándu öld fylgdust Íslendingar af samúð með sjálfstæðisbaráttu Ungverja, og Steingrímur Thorsteinsson sneri hvatningarljóði þjóðskálds þeirra, Sandörs Petöfis, sem samið var 1848: Upp nú, lýður, land þitt verðu, loks þér tvíkost boðinn sérðu:...

Á nítjándu öld fylgdust Íslendingar af samúð með sjálfstæðisbaráttu Ungverja, og Steingrímur Thorsteinsson sneri hvatningarljóði þjóðskálds þeirra, Sandörs Petöfis, sem samið var 1848:

Upp nú, lýður, land þitt verðu,

loks þér tvíkost boðinn sérðu:

Þjóðar frelsi, þrældóms helsi.

Þú sérð muninn: Kjóstu frelsi.

En Ungverjar fengu ekki að kjósa, þótt þeir sæju muninn. Kommúnistar hrifsuðu völd í skjóli Rauða hersins 1945 og stjórnuðu af mikilli harðneskju. Verstur þeirra þótti Mátyás Rákosi, aðalritari ungverska kommúnistaflokksins 1945-1956 og alræmdur hrotti.

Þeir Brynjólfur Bjarnason og Hendrik Ottósson kynntust Rákosi, þegar þeir urðu samferða honum af öðru þingi Alþjóðasambands kommúnista 1920 í Moskvu, og varð þeim vel til vina. Rákosi hældi sér af því að hafa fundið upp „smábitaaðferðina“ (e. salami tactics) til að ná fullum yfirráðum. Hún var fólgin í að gleypa ekki of stóran bita í einu, heldur marga smábita hvern af öðrum.

Íslenskir sósíalistar áttu raunar skipti við fleiri ungverska kommúnista en þeir þekktu. Þegar Æskulýðsfylkingin var stofnuð 1938, fékk hún heillaóskir frá Alþjóðasambandi ungra kommúnista í Moskvu, og skrifaði „Michal Wolf“ undir bréfið.

Maðurinn, sem leyndist undir því nafni, hét Mihály Farkas og varð varnarmálaráðherra Ungverjalands í tíð Rákosis og yfirmaður leynilögreglunnar, AVO. Sonur hans, Vladimir Farkas, starfaði í leynilögreglunni og varð kunnur fyrir pyndingar. Á hann að hafa gengið sérstaklega hart fram í yfirheyrslum yfir Jánosi Kádár, sem var í ónáð á Stalínstímanum, en varð síðar aðalritari kommúnistaflokksins.

Eftir að stalínistar hrökkluðust frá völdum í Ungverjalandi, sátu Farkas-feðgar um skeið í fangelsi. Á gamals aldri sagði Farkas yngri opinberlega frá starfi sínu í leynilögreglunni, en harðneitaði að vonum að hafa pyndað fólk.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is