19. október 2011 | Aðsent efni | 538 orð | 2 myndir

Almenn hækkun tekjuskatts einstaklinga boðuð í fjárlagafrumvarpinu

Eftir Símon Þór Jónsson og Jakob Björgvin Jakobsson

Símon Þór Jónsson
Símon Þór Jónsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Símon Þór Jónsson og Jakob Björgvin Jakobsson: "Þar sem verðtrygging persónuafsláttar var lögfest í sumar, er ekki hægt að sjá hvernig hún tengist þeirri breytingu sem er fyrirhuguð og kynnt í fjárlagafrumvarpinu."
Samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi er ætlunin að hækka fjárhæðarmörk skattþrepa tekjuskattstofns um 3,5% í upphafi tekjuársins 2012 í stað þess að miða við launavísitölu eins og lög kveða á um. Launavísitalan hefur hækkað um 8% síðastliðna 12 mánuði og viðmiðun við hana er því mun hagstæðari fyrir launþega en viðmiðun við þá 3,5% hækkun sem boðuð hefur verið. Það er því útlit fyrir almenna hækkun tekjuskatts einstaklinga á næsta ári, frá því sem ella hefði orðið, ef boðaðar breytingar í fjárlagafrumvarpinu ná fram að ganga. Þrátt fyrir þetta fullyrti fjármálaráðherra á Alþingi 4. október síðastliðinn, að fjárlagafrumvarpið gerði ekki ráð fyrir neinum almennum skattahækkunum á næsta ári.

Í Morgunblaðinu 10. október síðastliðinn birtist umfjöllun um fyrirhugaða breytingu á hækkun fjárhæðarmarka skattþrepa, en miðað var við útreikninga Deloitte hf. og vísað til annars undirritaðs um áhrif fyrirhugaðrar breytingar. Kom fram í útreikningum Deloitte að viðmiðun við 3,5% í stað viðmiðunar við launavísitölu leiddi til þess að allir einstaklingar sem yrðu með hærri mánaðartekjur á árinu 2012 en 217 þúsund kr. þyrftu að greiða hærri tekjuskatt en ella.

Í Morgunblaðinu 11. október síðastliðinn var haft eftir fjármálaráðherra að ekki væri um að ræða skattahækkun. Sagði fjármálaráðherra að aðgerðin skilaði í sjálfu sér lægri skattbyrði. Þá sagði ráðherra að horfa yrði á áformin í fjárlagafrumvarpinu í samhengi við núgildandi löggjöf sem gerir ráð fyrir verðtryggingu persónuafsláttar.

Frumvarpið boðar meiri skattbyrði

Persónuafsláttur er tengdur við neysluverðsvísitölu og dregst frá tekjuskatti. Vegna vísitölubindingarinnar hækkar persónuafslátturinn og það leiðir til þess að tekjuskattur einstaklinga verður lægri en ella. Neysluverðsvísitölubinding persónuafsláttarins er hins vegar í gildandi löggjöf og forsenda sem einstaklingar hafa getað gengið út frá óháð fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2012. Launavísitölubinding skattþrepanna er einnig í gildandi löggjöf og því einnig forsenda sem einstaklingar hafa getað gengið út frá óháð fjárlagafrumvarpinu. Nú er fyrirhugað, samkvæmt því sem fram kemur í fjárlagafrumvarpinu, að breyta síðarnefndu forsendunni, einstaklingum í óhag, þannig að þeir þurfa almennt að greiða hærri tekjuskatt vegna tekna á árinu 2012 en þeir gátu gengið út frá áður en fjárlagafrumvarpið kom fram. Í því sem boðað er í fjárlagafrumvarpinu felst því almenn hækkun tekjuskatts á einstaklinga, þ.e. nánar tiltekið á þá sem verða með meira en 217 þúsund kr. í mánaðartekjur á árinu 2012.

Frumvarpið samræmist illa yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 5. maí 2011 um tekjuskatt einstaklinga

Verðtrygging persónuafsláttarins síðastliðið sumar kom m.a. til vegna yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga frá 5. maí 2011 um að verðtrygging persónuafsláttarins yrði bundin í lög. Í yfirlýsingunni kom einnig fram að engin sérstök áform væru um breytingar á skattlagningu launa á árunum 2012 og 2013. Þar sem verðtrygging persónuafsláttar var lögfest í sumar, er ekki hægt að sjá hvernig hún tengist þeirri breytingu sem er fyrirhuguð og kynnt í fjárlagafrumvarpinu. Þá er einnig ljóst að fyrirhuguð breyting samræmist illa yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 5. maí 2011, um að engin sérstök áform væru um breytingar á skattlagningu launa, þar sem boðuð breyting felur í sér meiri skattlagningu launatekna 2012 en ella og væntanlega einnig meiri skattlagningu launatekna 2013. Einnig er ljóst að efast má um gildi yfirlýsingar fjármálaráðherra þegar hann segir að frumvarpið geri ekki ráð fyrir neinum almennum skattahækkunum.

Símon Þór er forstöðumaður á skatta- og lögfræðisviði Deloitte hf. Jakob Björgvin er lögfræðingur á skatta- og lögfræðisviði Deloitte hf.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.