„Athyglin er tíföld miðað við hvað hún hefði orðið ef við hefðum ekki gert þetta, ógnin er miklu meiri og við erum í miklu betri stöðu til að halda áfram að hrinda alls konar aðgerðum í framkvæmd.“
„Athyglin er tíföld miðað við hvað hún hefði orðið ef við hefðum ekki gert þetta, ógnin er miklu meiri og við erum í miklu betri stöðu til að halda áfram að hrinda alls konar aðgerðum í framkvæmd.“ — Morgunblaðið/Kristinn
Stóra systir berst gegn aðgerðarleysi gagnvart mansali og vændi á Íslandi og svarar spurningum um áhyggjur sínar, borgaralega óhlýðni og tilgang baráttunnar Signý Gunnarsdóttir signy@mbl.is

Aðgerðir neðanjarðarhreyfingarinnar Stóru systur gegn vændi í vikunni hafa vafalaust ekki farið framhjá mörgum. Á fjölmennum fjölmiðlafundi í Iðnó kynnti Stóra systir bæði vinnu sína og kröfur en Stóra systir krefst aukinna aðgerða gegn vændi og mansali á Íslandi. Aðstandendur Stóru systur kjósa nafnleysi og sitt sýnist hverjum en gagnrýnisraddir hafa verið ansi háværar og þá sérstaklega vegna þeirrar ákvörðunar. Stóra systir ákvað að taka málin í sínar hendur og sýna fram á hversu mikil eftirspurn eftir vændi er hér á landi með því að birta nokkrar auglýsingar bæði á vefsíðum og í prentmiðlum og skrá niður viðbrögðin. Nöfnum og númerum þeirra sem sóttust eftir vændi var safnað saman og afhenti Stóra systir lögreglunni lista með 56 nöfnum og 117 símanúmerum. Stóra systir settist niður með blaðamanni og rökstuddi aðferðafræði sína og lýsti yfir áhyggjum sínum af þessari þróun í undirheimunum og takmarkaðri getu lögreglunnar til að takast á við þetta vandamál.

En hvernig skyldi þetta allt saman hafa byrjað?

„Við vorum bara hópur af konum sem höfðu fengið nóg. Stóra systir er afl kvenna úr öllum stéttum þjóðfélagsins. Við erum ekki neinn ákveðinn hópur, sem fólk telur víst að við séum, við erum ekki Stígamót, við erum ekki femínistar, við erum bara Stóra systir. Við erum með lög í landinu sem banna kaup á vændi en þeim er ekki sinnt. Það er gífurlegur markaður fyrir vændi, niður í barnungt fólk, sem stýrist af eftirspurninni.“

Óvissa kaupenda vopn Stóru systur

Hver er ástæðan fyrir nafnleysinu og þeirri ákvörðun að hylja sig, varla til þess eins að vera ekki skilgreindar út frá ákveðnum hópi?

„Nei, alls ekki. Í fyrsta lagi er það ádeila á nafnleysið sem ríkir hjá þeim sem beita þessu ofbeldi. Það er bara þannig að það er einn dómur sem hefur fallið í tengslum við kaup á vændi og í þeim dómi voru þeir sem keyptu nafnlausir. Það er farið eftir lögum og dæmt samkvæmt þeim en samt er enn þetta nafnleysi. En það er ekki eina ástæðan fyrir því að við hyljum okkur. Það er miklu meiri ógn í þessu nafnleysi við þá sem kaupa vændi. Vændiskaupendur vita ekkert hverjir standa á bak við þetta og í okkar hópi geta vel verið systur, mæður, vinkonur og jafnvel dætur kaupendanna. Við teljum að þetta sé besta leiðin til að ná markmiði okkar, sem er að fólk hætti að kaupa vændi.“

Er ekki eðlilegt að kynferðisbrotamenn og vændiskaupendur njóti nafnleysis til að hlífa fjölskyldum þeirra?

„Það er svo einkennilegt hvað það er mikið verið að hlífa fjölskyldum kynferðisbrotamanna. Hvað með börn morðingja, eiturlyfjasala og annarra brotamanna? Eiga þau börn það skilið að foreldrar þeirra séu nafngreindir í fjölmiðlum? Af hverju er þessi eini flokkur undanskilinn því að vera nafngreindur? Fórnarlömbin eru náttúrlega gríðarlega mörg í þessum málum. Sá einstaklingur sem ákveður að misnota barn má búast við því að það hafi áhrif á hans eigið barn komist upp um hann, það sama má segja um vændiskaupendur. Börnin eru auðvitað alltaf saklaus og það á ekki að koma niður á þeim þegar foreldrið brýtur af sér en það verður ekki hjá því komist þegar sanngirni er gætt gagnvart brotaþola.“

Hópur sem veitir aðhald

Hvaða konur standa á bak við Stóru systur, eru vændiskonur í ykkar hópi?

„Við erum hópur af ótrúlega fjölbreyttum konum alls staðar að úr samfélaginu. Við erum valdakonur, verkakonur, lögfræðingar, kennarar og allt þar á milli. Við teljum að þetta afl sem við erum með í höndunum sé miklu sterkara í skjóli nafnleysis. Hvað varðar það hvort það séu vændiskonur í okkar hópi þá höfum við einfaldlega ekki spurt að því innan hópsins en við erum vissulega með beina tengiliði inn í hóp starfandi vændiskvenna.“

Nú hefur nafnið Stóra systir verið tengt við Stóra bróður og Orwell, er eitthvað til í því?

„Nei, það er svo langt frá því. Þetta er bara tilvísun í það að það sé einhver sem hjálpar þér og þú getur leitað til og vill þér ekki illt og á það bæði við um kaupendur og gerendur. Stóra systir er einhver sem þykir vænt um þig og veitir þér aðhald, hún reynir að ala þig upp á góðlátlegan hátt en getur líka verið ströng ef þess þarf.“

En hvers vegna lætur Stóra systir sig þennan málaflokk varða, hvers vegna ekki eitthvert annað samfélagsmein?

„Þetta er augljósasta dæmið um algjört getuleysi stjórnvalda til þess að framfylgja lögum sem hafa verið sett. Lögin og raunveruleikinn togast þarna verulega á. Vændi er einfaldlega látið viðgangast og lögin verða bara hvítþvottur svo að við lítum vel út. Við gerum okkur fulla grein fyrir að lögreglan er ekki viljandi að hunsa þennan málaflokk, það eru einfaldlega ekki til peningar til að sinna þessu. Lögreglan berst gegn kynferðisbrotum gagnvart börnum, sem er auðvitað nauðsynlegt, en það vantar sérdeild sem tekur á vændi.“

Reyna að koma í veg fyrir fikt

Er það ekki fullmikil bjartsýni að ætla sér að útrýma vændi?

„Einhvern veginn verðum við að byrja. Samkvæmt rannsóknum sem hafa verið gerðar í Skandinavíu hefur komið í ljós að meirihluti kaupenda vændis er svokallaðir fiktarar sem gera þetta einu sinni til þrisvar í forvitnisskyni. Við viljum upplýsa þá um þennan ömurlega veruleika sem ég held að þeir geri sér ekki grein fyrir að sé til staðar. Við þurfum að ná til ungu mannanna sem gera þetta í einhverju flippi. Ef við náum að upplýsa þá um hversu skaðlegt þetta er bæði fyrir þá og þolandann er stór sigur unninn. Fiktararnir gera sér ekki endilega grein fyrir hvað þeir eru að gera og vilja engum illt. Þeir eru bara leitandi hópur. Það er auðvitað erfiðara að útrýma greiða gegn greiða þegar fólk er í neyslu en það er líka mjög stórt vandamál. Það er svo sannarlega ekki auðvelt að stoppa þessa hegðun en þess vegna viljum við ná til þeirra sem eru ekki byrjaðir.“

Hverju viljið þið svara þeim sem gagnrýna ykkur fyrir að vera lögbrjótar í aðferðum ykkar?

„Auðvitað er hægt að segja um okkur að við séum að taka skref út fyrir rammann og taka málin í okkar hendur. En það er þannig að ef maður gerir ekkert og tekur enga afstöðu þá er maður í raun að taka afstöðu með þeim sem brýtur af sér. Þannig að ef maður þegir er maður að taka afstöðu með kúgaranum og það einskorðast ekki við vændi. Við erum að tala um það að það er verið að brjóta á börnum í gegnum þessar vefsíður og það er ágætt að það komi fram að við notum að sjálfsögðu aldrei barnungar tálbeitur, við erum fullorðnar konur sem auglýsum á þessum síðum sem unglingsstelpur. Það er almenn tilkynningaskylda í barnalögum og barnaverndarlögum að það megi aldrei horfa framhjá því þegar brotið er gegn börnum og það er vitneskja fyrir því að það er verið að kaupa börn í gegnum einkamal.is og það er ekkert gert í því. Við viljum alls ekki vera einhverjir lögbrjótar. Við höfum til dæmis fengið gagnrýni fyrir að brjóta lög með því að hylja okkur og að það megi ekki hylja útlit sitt á almannafæri. Innan okkar hóps er enginn ásetningur um að fremja glæp. Allt í einu verður orðræðan svo undarleg og löghlýðnin takmarkast við mjög einkennilega hluti. Það er bannað að vera í dulargervi en það er í lagi að fjöldi fólks kaupi vændi. Siðgæðið er svo tvöfalt. Ef fólk brýtur lög og gerir það í pólitískum tilgangi til að benda á hversu fjarstæðukennd lögin eru þá er það eitt mál en því er ekki þannig farið með þessi vændiskaup. Kaupendurnir svara þessum auglýsingum til að fylgja eftir eigin hvötum og beita valdi og ofbeldi.“

Yfirgnæfandi líkur á mansali

Hvernig báruð þið ykkur að þegar þið voruð í leit að vændiskaupendum?

„Við settum inn auglýsingar, bæði á vefmiðla og prentmiðla. Ein auglýsing hljóðaði upp á að viðkomandi væri 15 ára stúlka og ekkert annað gefið til kynna, en fyrirspurnum um verð rigndi inn. Að þetta hafi verið gildra sem var lögð fyrir alsaklausa menn og þeir tældir inn í að falast eftir vændi er bara rangt. Þetta er algjörlega þannig að ábyrgðin liggur hjá þessum mönnum. Við prófuðum ekki einu sinni að setja inn auglýsingar sem yngri stúlkur, það getur vel verið að það sé jafnmikill markaður fyrir 11 ára eða 13 ára.“

Nú hefur Stóra systir líka talað um mansal hér á Íslandi, er vitneskja fyrir því?

„Það er mikill grunur um að auglýsingarnar sem hafa birst í Fréttablaðinu, þó að lát sé á þeim núna, séu tengdar mansalsmálum. Þar hljóða auglýsingarnar upp á nudd hvenær sólarhringsins sem er aðeins í eina viku. Af hverju bara í eina viku? Jú af því að þá geta þessar stúlkur aldrei borið vitni. Og hver kemur til Íslands í eina viku og fer að selja sig í gegnum smáauglýsingar í Fréttablaðinu? Það eru yfirgnæfandi líkur á því að þetta séu mansalsfórnarlömb. Við erum með mjög fína aðgerðaráætlun um mansal og lög gegn mansali og einn dóm sem er ansi góður en svo viðgengst þetta fyrir opnum tjöldum og enginn gerir neitt.“

Í þessari vinnu ykkar útbjugguð þið lista með 56 nöfnum hugsanlegra vændiskaupenda og 117 símanúmerum. Voru einhver mörk áður en mennirnir fóru á þennan lista eða fóru allir sem svöruðu auglýsingum sjálkrafa á hann og í kjölfarið á því; hvað ætlið þið að gera við þennan lista?

„Hvorki nafn né númer fór á listann nema óskin um kaup á vændi væri afdráttarlaus. Það kom eiginlega alltaf fram í þessum samtölum hversu háa upphæð þeir vildu borga og fyrir hvað. Við höfum þegar afhent lögreglunni gögnin og hún metur hvað er alvarlegt og hvað ekki. Það sem var svo sorglegt var að kaupendurnir biðja í miklum meirihluta um að fá að niðurlægja þann sem þeir kaupa þjónustuna af. Svörin voru svo hrikaleg að það er vart hægt að birta þau en auðvitað verður það að einhverju leyti að koma fram svo fólk átti sig á þessum heimi. Óskin um að fá að pissa á þolandann var oft borin upp, að fá að pína 15 ára stúlku að þolmörkum og kaupandinn ákveður þolmörkin, að fá að víkka út endaþarminn á seljandanum og svo framvegis, þetta var samt sem áður ekki svona vel orðað hjá viðkomandi kaupanda. Þetta er algjör ormagryfja og alls ekki eitthvað sem við gerum að gamni okkar. Við viljum samt ekki tjá okkur um hvað við hugsum okkur að gera við þennan lista. Við erum bara með miklar upplýsingar um marga menn. Það er auðvitað allt í lagi að halda úti stefnumótaþjónustu eins og einkamal.is byrjaði en raunin er sú að brotamenn hafa tekið þennan vef yfir. Í einu tilfelli settum við inn auglýsingu um að unga stelpu utan af landi langaði til að eignast vini í borginni, hefði áhuga á hestum og bókmenntum. Þá komu 20 svör frá vændiskaupendum.“

Breytt hegðun eftir að Stóra systir kom fram

Hafið þið tekið eftir einhverjum breytingum í þessum heimi eftir að þið komuð fram?

„Það var ákveðið tungumál sem Stóra systir er búin að útrýma eins og til dæmis að skrifa $telpa í stað stelpa. Einkamal.is hendir núna miskunnarlaust út þeim sem þeir halda að séu að setja inn söluauglýsingar en ekki þeim sem auglýsa eftir kaupum. Það eru enn karlar sem segjast vera fjárhagslega sjálfstæðir og auglýsa eftir skyndikynnum. En karlmennirnir borga fyrir auglýsingarnar en ekki konurnar og það er vafalaust ástæðan fyrir því að þeirra auglýsingar fá enn að vera inni. Aðstandendur einkamal.is hljóta því að vera meðvitaðir um að þeir séu að hagnast á milligöngu um vændi. Visir.is var áður yfirvefur hjá einkamal.is en sá vefur er nú í eigu Senu. Það er því ábending um að bæði Sena og Fréttablaðið hafi hagnast á sölu á vændi og það er borðliggjandi að það er harðbannað.“

En eruð þið ekkert hræddar um að gagnrýnin á aðferðafræði ykkar sé farin að yfirskyggja tilganginn?

„Á vissan hátt er stórkostlegt að sjá viðbrögðin sem þetta hefur vakið og þó að gagnrýnisraddirnar séu háværar hefur stuðningurinn verið gífurlegur. Talsmenn feðraveldisins stíga fram og þar er mikil kvennakúgun sem líðst og þetta er sá menningarheimur sem við segjum stríð á hendur. Hins vegar held ég að flestir sem horfa á þessa aðgerð skilji algjörlega mikilvægi hennar og átti sig á tilganginum. Kompásmönnum var klappað á bakið fyrir sinn þátt og að taka málin í sínar hendur þegar þeir beittu tálbeitum. Athyglin hefur of mikið beinst að því hvernig farið er að hlutunum í stað þess að einblínt sé á markmiðið. Við sátum ekkert bara í kaffi og sögðum: prófum að gera þetta, athugum hvað er í gangi. Við vitum alveg hvað er í gangi af því að fólk hefur sagt okkur það frá fyrstu hendi. Fólk sem hefur verið í vændi segir að það hafi bæði auglýst á einkamal.is og í Fréttablaðinu. Þetta er ekki okkar hugmynd að fara þangað og reyna að finna einhverja, lokka þá í gildrur með auglýsingum sem þeir hefðu aldrei annars svarað. Markmið okkar er miklu mikilvægara en spurningin hvort það sem við erum að gera sé vafasamt. Eigum við frekar að sitja heima og gera ekkert?“

Ekki sjálfsagt að kaupa líkama annarrar manneskju

Eru þetta ekki of öfgafullar aðgerðir?

„Við heyrum einmitt svo mikið, að þetta séu öfgafullar aðgerðir, en hversu öfgafullt er þetta aðgerðarleysi? Aðgerðarleysi sem bitnar á þeim sem nú þegar eru með veikustu stöðuna í samfélaginu. Það er ekki þannig að fólk velji sér vændi af því að það er svo arðbært. Hvar eru þá allar þessar hamingjusömu hórur? Af hverju koma þær ekki fram og verja sitt atvinnufrelsi? Það eru nánast alltaf karlmenn sem tala fyrir hönd vændiskvenna. Við erum ekki á móti kaupendunum persónulega við viljum bara byggja upp betra samfélag og rétta þeim hjálparhönd sem minnst mega sín. Yfirleitt er orsökin fyrir vændiskaupum djúp. Venjuleg manneskja ákveður ekki allt í einu einn daginn: Jæja, nú ætla ég að kaupa mér vændi. Það er oft eitthvað annað að. Það er þá eitthvað sem hægt er að vinna í. Þeir sem kaupa vændi eru oft svo ómeðvitaðir um hversu mikið ofbeldi þetta er og tala um að þeir séu að kaupa kynlíf, sem þeir eru náttúrlega alls ekki að gera því vændi og kynlíf eru tveir afar ólíkir hlutir. Við vitum auðvitað líka að karlmenn lenda líka í vændi og það eru konur sem kaupa vændi þó að sá hópur sé minni.“

Nú hefur ykkur verið líkt við Ku Klux Kan, að þið séuð með nornabrennur o.s.frv. Eru slík ummæli ekki særandi?

„Við þolum það alveg. Markmið okkar eru enn algjörlega skýr. Við vorum fyrst fullar af efasemdum út í þessa aðferðafræði en svo erum við rosalega ánægðar með að þessi leið skyldi farin. Athyglin er tíföld miðað við hvað hún hefði orðið ef við hefðum ekki gert þetta, ógnin er miklu meiri og við erum í miklu betri stöðu til að halda áfram að hrinda alls konar aðgerðum í framkvæmd. Markmiðið er ekki að fara í nornaveiðar og brjóta lögin, miklu frekar að fá fólk til að fylgja lögunum eftir. Það er líka mikilvægt að það komi fram að við erum ekki að reyna að klekkja á neinum. Við viljum bara búa í landi þar sem það þykir ekki sjálfsagt að kaupa sér líkama annarrar manneskju.“

Nú talið þið gjarnan um kynferðisbrot og vændi í sömu setningu.

„Við lítum svo á að kaup á vændi sé kynferðisbrot. Við skoðum líka vændi í mjög víðu samhengi. Það er hægt að rekja það í svo mörgum tilfellum til kynferðislegs ofbeldis. Allar rannsóknir sýna að yfirgnæfandi hluti þeirra sem selja sig á erfiða lífsreynslu að baki eins og til dæmis kynferðislegt ofbeldi. Það er enginn sem veltir í raun og veru fyrir sér: hmm... á ég að gerast blaðamaður eða hóra! Þetta er í langflestum tilfellum neyð en ekki val. Það má heldur ekki gleyma því að vændi er bæði meiðandi fyrir geranda og þolanda. Margir þurfa að leita sér sáluhjálpar eftir að hafa nýtt sér vændisþjónustu. Auðvitað værum við tilbúnar að hlusta á sjónarmið þeirra sem stunda vændi og eru ánægðir með starfsval sitt og fjölskylduna sem er stolt af velgengninni en það hefur enginn komið fram. Það hefur verið einhver umræða um að við séum að vega að atvinnugrein og frelsi vændiskvenna en slík ummæli dæma sig sjálf. Það er víst mjög erfitt að komast út úr vændi þegar maður er byrjaður í því. Flestir hafa lent í einhvers konar ofbeldi eða fíkn og leiðast svo út í vændi. Ef ekki þá byrjar ofbeldið um leið og viðkomandi byrjar að stunda vændi. Það er erfiðara en að segja það að komast út úr því að vera undir ofbeldismönnum. Vændiskonurnar segja til dæmis aldrei frá hver það var sem seldi þær því þær eru svo hræddar.“

Stóra systir hvergi nærri hætt

Hvað finnst ykkur um að það sé lagt bann við kaupum á vændi en ekki sölu?

„Sá sem selur sig er yfirleitt fórnarlamb og það er óþarfi að hegna honum tvisvar. Það er nógu mikill stimpill á viðkomandi að vera í vændi þó að hann verði ekki líka fyrir barðinu á réttarkerfinu. Sá sem kaupir hefur öll völdin. Hann er með peningana og ákvörðunina. Sá sem er keyptur er viljalaust verkfæri þess sem er tilbúinn að borga. Við vitum aldrei fyrir víst hvers vegna manneskjan selur sig í raun og veru. Mansalsmál ganga út á það að við erum með saklaus fórnarlömb sem eru flutt á milli staða og hafa ekkert um það að segja. Eigum við þá að taka þá einstaklinga og refsa þeim?“

Ætlið þið að halda áfram að birta auglýsingar á vef- og prentmiðlum?

„Já, að sjálfsögðu. Eftir að við komum fram er strax byrjað að bera á því að svörin eru orðin færri en fælingarmátturinn er þó ekki fullkominn. En við sjáum breytingu í hegðun á einkamal.is. Svörin við auglýsingunum eru ekki eins skefjalaus og óbeisluð. Við þurfum líka að hugsa um syni okkar. Við viljum ekki að þeir alist upp í samfélagi þar sem það þykir eðlilegt að þeir fari og kaupi sér vændi. Strákarnir eru auðvitað ekki óhultir gegn vændi og eiga í allt of mörgum tilfellum hlut sem fórnarlömb. En við lítum líka þannig á að þegar barnungir strákar fremja kynferðisbrot eru þeir líka fórnarlömb. Þeir eru aldir upp í klámvæðingunni og verða alveg jafnskaddaðir og þeir sem þeir brjóta gegn. Við erum sem betur fer alltaf að gera okkur betur grein fyrir alvörunni sem fylgir þessum málaflokki og úrræðin eru alltaf að verða betri og betri. Það sem er vont er að á sama tíma og úrræðin batna þykir auðfengið aðgengi barna að klámi í lagi, sem leiðir af sér að þeirra kynhegðun verður öll brengluð. Á einum stað erum við að ná árangri á meðan við sökkvum enn dýpra á öðrum.“

En hver eru úrræðin fyrir fólk sem kaupir og selur vændi?

„Það er til hjálp fyrir konur og menn sem hafa leiðst út í vændi af einhverjum ástæðum hjá Stígamótum. Hvað varðar þá sem kaupa vændi þá eru sérfræðingar sem sérhæfa sig í meðferðum fyrir gerendur kynferðisbrota og eins og fram hefur komið teljum við kaup á vændi vera kynferðisbrot. Það er haldið úti jafningjahópum þar sem menn geta hist og talað saman og hjálpast að við að koma sér út úr þessu ferli. En auðvitað vantar betri úrræði fyrir vændiskaupendur þó að þeir gætu, líkt og þeir sem selja vændi, alltaf leitað til Stígamóta.“

Sjáið þið þá fyrir ykkur vændislaust Ísland?

„Við búum á lítilli eyju og ættum að geta verið fyrirheitna landið í þessum málum. Við ættum að geta útrýmt bæði vændi og mansali hér á landi. Það má heldur ekki gleyma því að karlarnir þurfa að gera þetta málefni að sínu. Það eru karlmenn í okkar hópi þó að þeir séu ekki margir. Karlar eru svo oft gagnrýndir fyrir að styðja kvennahreyfingar. Við söknum þess að karlarnir taki meira frumkvæði í þessum málum því við höfum séð hvað það virkar vel, eins og til dæmis Nei-hópurinn, sem hafði mikil áhrif á minnkandi ofbeldi á útihátíðum með viðveru sinni. Og einhvern veginn er það þannig að karlar virðast taka meira mark á öðrum körlum. Sem betur fer eru flestir karlmenn góðir og skilja alvöruna í þessu. Þeir ættu að setja lykkju á leið sína og taka afstöðu gegn vændi þar sem þeir á sama tíma gætu verið að bjarga einhverri ógæfumanneskju frá örlögum sínum.“