Laufabrauð Það er skemmtilegt að skera og er meðal margra ómissandi þáttur í undirbúningi jóla.
Laufabrauð Það er skemmtilegt að skera og er meðal margra ómissandi þáttur í undirbúningi jóla. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Danskur siður nær fótfestu. Vatn í munninn í Óðinsvéum. Örþunnar mynstraðar hveitikökur að norðan eru nú hafðar í hávegum.

Jólahlaðborð eru upphaflega danskur siður. Dönum er flestum ríkara í eðli að gera sér dagamun á góðum stundum, ekki síst í aðdraganda helgrar hátíðar. Aukinheldur er matargerðarlist í hávegum höfð í hinu gamla herralandi okkar, þaðan sem svo margir siðir hafa borist til Íslands í áranna rás. Hver kannast til dæmis ekki við dönsku purusteikina sem er alveg óviðjafnanleg?

Jólahlaðborð eru fyrst nefnd í Morgunblaðinu árið 1984. Það ár héldu eigendur Brauðbæjar við Óðinstorg í Reykjavík upp á tuttugu ára afmæli veitingastaðarins og „í tilefni afmælisins og vegna þess að jólin eru á næsta leiti bjóðum við í hádeginu til jóla danskt jólahlaðborð í veitingahúsinu okkar Óðinsvéum. Við bjóðum einnig fyrirtækjum og stofnunum kræsingarnar heimsendar. Þeir sem til þekkja fá vatn í munninn af tilhugsunni,“ sagði í auglýsingu sem birtist í Morgunblaðinu 8. desember 1984. Það eru sem sagt aðeins 27 ár síðan þessi hefð barst fyrst hingað til lands og var til umfjöllunar í fjölmiðlum.

Undir 1990 náði siðvenja jólahlaðborða fyrst varanlegri fótfestu á Íslandi. „Bjóðum danskt jólahlaðborð fyrir hópa, 20 manns og fleiri í hádeginu. Viðeyjarferjan Maríusúð siglir með matargesti milli lands og eyjar,“ auglýstu veitingamenn Viðeyjarstofu í Morgunblaðinu 7. desember 1988. Eftir það kemur orðið jólahlaðborð æ oftar fyrir í gagnasafni blaðsins – þá sérstaklega eftir aldamótin. Vinnustaðir, vinahópar, fjölskyldur og svo mætti áfram telja; öllum finnst sjálfsagt að gera sér dagamun fyrir jólin og þá liggur beint við að fara á veitingahús og finna reyk af réttum nægtaborðsins góða.

Rammíslenskt fátækrabrauð

En svo eru líka til rammíslenskir jólasiðir sem enginn vildi vera án. Margt af því besta sem jólunum tilheyrir kemur norðan úr landi; menningarhefðir sem hafa raunar fengið allt aðra merkingu í seinni tíð miðað við hvað var. Örþunnar kökur úr hveiti voru eitt sinn þar nyrðra kallaðar fátækrabrauð – og hvunndagsskemmtun fólks var að skera í þær mynstur og tákn áður en þeim var brugðið í kraumandi steikarpott. Nú eru kökurnar hins vegar hafðar í dýru gildi og laufabrauð er enginn fátækramatur.

sbs@mbl.is