Pétur Pétursson
Pétur Pétursson
Eftir Pétur Pétursson: "Það er rétt sem Þórður segir í greinargerð sinni að ég vonaðist eftir sáttum en sáttaviljinn hjá honum var yfirskin eitt."

Vegna þess að Þórður Harðarson situr áfram sem formaður siðanefndar H.Í. verður ekki vikist hjá því að bregðast við rangtúlkunum og hreinum ósannindum í greinargerð hans í grein í Mbl í gær og í viðtali við hann í ítarlegri úttekt á málinu í Sunnudagsmogganum 4.des.

Aðkoma mín að þessu máli helgast af því að ég gegndi störfum deildarforseta á vormisseri 2010 auk þess sem ég var umsjónarmaður umrædds námskeiðs og leiðbeinandi Bjarna Randvers Sigurvinssonar í doktorsnámi hans. Vanhæfni formanns nefndarinnar hefur þegar valdið Bjarna miklu fjárhagstjóni, hugarangri, tafið doktorsnám hans og hann hefur mátt þola einelti sem þrifist hefur í skjóli vanhæfni formannsins – vanhæfni til að skilgreina kæruna yfirleitt, áhugaleysi á því að kynna sér á nokkurn hátt sjónarmið Bjarna og þeirra fræða sem hann stundar. Það má alveg koma fram hér að Bjarni er einn færasti fræðimaður á sínu sviði á Norðurlöndunum og það væri mikið tjón ef hann hrökklaðist frá Háskóla Íslands. Bjarni er auk þess annálaður fyrir samviskusemi sína og nákvæmni í meðferð heimilda. Hann nýtur mikils trausts ólíkra trúarsamtaka vegna vandaðrar umfjöllunar og virðingar sem hann sýnir mismunandi trúarskoðunum.

Metnaður Þórðar Harðarsonar var sá að Bjarni Randver og helst Guðfræði- og trúarbragðafræðideild bæðist afsökunar á öllu því kennsluefni sem félaginu Vantrú þóknaðist að kæra hann fyrir. Í símtalinu þar sem Þórður las upp fyrir mig hina svokölluðu sáttatillögu, sem hann gerir mig samábyrgan fyrir, lagði hann sérstaka áherslu á að „hér verði ekki farið að taka einstaka glærur til umfjöllunar“. Auðvitað fór því fjarri að ég gæti samþykkti þessa tillögu þeirra formanns siðanefndar og Reynis Harðarsonar formanns félagsins Vantrúar og ég bar hana ekki einu sinni upp á kennarafundi Guðfræðideildar sem Þórður getur um í grein sinni. Í yfirklóri sínu reynir samt formaðurinn að gera mig samábyrgan fyrir þessari tillögu sem í raun er sakfelling.

Félagið Vantrú sendi kærur 4. febrúar árið 2010 til þriggja aðila innan H.Í.: Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar, rektors og siðanefndar. Þann 9. mars afgreiddi ég þessa kæru með bréfi til formanns félagsins Vantrúar sem ég lét bóka á næsta deildarfundi þar sem það var rætt undir önnur mál. Bréfið er þannig:

„Sæll Reynir.

Ég hef rætt við Bjarna Randver um erindi bréfs þíns frá 4. febrúar og við höfum farið yfir það efni sem þú tiltekur. Niðurstaða mín er þessi: Tekið verður mið af athugasemdum félagsins Vantrúar við einstaka glærur og kynningu á því ef námskeiðið verður kennt aftur. Um þetta erum við Bjarni Randver sammála. Ég vil einnig taka það fram að hann nýtur fulls trausts míns sem kennari í trúarbragðafræði.

Með góðri kveðju Pétur Pétursson“

Lögfræðingur H.Í. hefur skorið úr um það að þessi afgreiðsla hafi verið óaðfinnanleg og í skýrslu óháðrar rannsóknarnefndar Háskólaráðs kemur fram að þetta hafi verið í raun það eina rétta sem gert er í málinu af hálfu H.Í. og að með þessu bréfi hafi deildin afgreitt málið af sinni hálfu.

Á þessum tíma hafði formaðurinn ekki haft fyrir því að kynna mér það að einnig siðanefnd hefði borist kæra frá félaginu Vantrú. Ég frétti það hjá Hjalta Hugasyni prófessor sem hann hafði haft samband við og upplifun Hjalta var sú að málið væri mjög alvarlegt og ljóst væri að ef ekki næðust sættir þá myndi Bjarni verða áminntur af siðanefnd. Ég set mig því að sjálfsögðu strax í samband við Þórð og fæ þessa túlkun Hjalta staðfesta. Stuttu seinna banka ég svo óboðinn á dyr hjá formanninum með gögn frá Bjarna, bréf sem hann sendi nemendum í umræddu námskeiði, leiðbeiningar um það hvernig þeim bæri að túlka umræddar glærur og taldi ég og samstarfsfólk mitt í deildinni að það væri mjög mikilvægt að formanninum bærust þessi gögn sem fyrst og það fyrir næsta fund nefndarinnar. Formaðurinn hafði engan áhuga á þessu efni sem þó er hluti af kennslugögnunum. Seinna komst ég að raun um að hann hafði stungið þessu bréfi undir stól. Hann hafði heldur engan áhuga á afgreiðslu Guðfræðideildar frá 9. mars 2010.

Í þessu ljósi ber að skilja það bréf sem ég sendi honum 23. mars 2010 þar sem ég vil leggja áherslu á að ég en ekki Hjalti Hugason komi fram fyrir hönd deildarinnar. Áður en ég sendi þetta bréf átti ég einnig fundi með Einari Sigurbjörnssyni prófessor og fleirum og þeir voru mér sammála um að ég kæmi fram fyrir hönd deildarinnar. Þrátt fyrir þetta var ég aldrei boðinn á heimili formanns siðanefndar til þess að túlka sjónarmið deildarinnar eða Bjarna og það eru ósannindi að ég hafi setið fund á heimili hans í hans boði og skilið við hann í miklu bróðerni. Ég sat þar aldrei fund um þetta mál í hans boði.

Það er rétt sem Þórður segir í greinargerð sinni að ég vonaðist eftir sáttum en sáttaviljinn hjá honum var yfirskin eitt. Þetta var mér fljótt ljóst. Ég sagði mig þá frá þessum skrípaleik með eftirfarandi bréfi til næsta yfirmanns míns, Ástráðs Eysteinssonar forseta Hugvísindasviðs. Bréfið er stílað 27. apríl 2010. Á þeim tíma sátu með Þórði í siðanefnd prófessorarnir Sigríður Þorgeirsdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson.

„Með þessu bréfi tel ég beinni eða formlegri aðild minni að málinu lokið. Ég beitti mér mjög fyrir sáttamöguleikanum vegna þess að Þórður og aðrir nefndarmenn gerðu mér það alveg skýrt að nefndin mundi gera athugasemdir við glærur Bjarna. Þórður staðfesti

það enn og aftur við mig í símtali í gær. Ég vildi ganga langt til að forðast það því það mundi skaða stöðu Bjarna sem fræðimanns og kennara og um leið vera áfellisdómur yfir þeirri stefnu og starfi sem ég hef staðið fyrir í uppbyggingu trúarbragðafræða við deildina frá því að mér var falin forstaða þeirra af deildarfundi fyrir tæpum áratug. Hvað eftir annað hef ég reynt að koma sjónarmiðum Bjarna að t.d. með því að fara á heimili formannsins með leiðbeiningarbréf Bjarna til nemenda í umræddu námskeiði þar sem hann útskýrir hvernig nemendur eigi vinna með þessar glærur og skoða þær á gagnrýninn hátt. Ég lét einnig senda þetta sama bréf til annars nefndarmanna. Í símtali í gær staðfestir Sigríður að hún viti ekkert af þessu bréfi. Það virðist ekki enn vera meðal þeirra gagna sem nefndin vinnur með í þessu máli. Ég hef einnig fundið fyrir því að nefndarmenn virðast líta á þetta mál eins og einhverskonar uppgjör milli félagsins Vantrúar og „guðfræðideildar“ sem mér finnst vera út í hött. Ég er í raun furðu lostinn yfir þessum vinnubrögðum.“

Þórður Harðarson telur sig ekki hafa neitt vald sem formaður siðanefndar og starfa eingöngu í sáttahug. Hvorugt er rétt. Áminning af hálfu siðanefndar gerir út um frama viðkomandi einstaklings innan háskólasamfélagsins. Í skugga þess valds starfar formaðurinn og hann beitir því bæði af lagni og lævísi. Það hef ég fundið á eigin skinni frá upphafi og nú í þessari Morgunblaðsgrein hans. Það er óásættanlegt að hann sitji áfram sem formaður siðanefndarinnar eftir þann áfellisdóm sem óháð rannsóknarnefnd á vegum Háskólaráðs felldi yfir störfum hans í skýrslu sinni í október sl.

Höfundur er prófessor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild H.Í.