[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristín Ýr Bjarnadóttir , aðalmarkaskorari Vals í knattspyrnunni undanfarin ár, æfir þessa dagana með sænska úrvalsdeildarliðinu Djurgården.

K ristín Ýr Bjarnadóttir , aðalmarkaskorari Vals í knattspyrnunni undanfarin ár, æfir þessa dagana með sænska úrvalsdeildarliðinu Djurgården. Svíarnir leita að framherja fyrir næsta tímabil en með liðinu leika Guðbjörg Gunnarsdóttir markvörður, Katrín Jónsdóttir og Dóra María Lárusdóttir, sem áður hafa verið samherjar Kristínar í Val og landsliðinu.

Gísli Páll Helgason , bakvörður úr knattspyrnuliði Þórs á Akureyri, er væntanlega á leið til Breiðabliks. Þórsarar samþykktu í gær tilboð Blikanna í Gísla. Hann er tvítugur og lék 21 leik með Þór í úrvalsdeildinni í sumar, alla í byrjunarliðinu, og þá spilaði hann sinn fyrsta leik með 21-árs landsliðinu í haust.

Pape Mamadou Faye , framherjinn sem spilaði með Leikni í Reykjavík síðasta tímabil, samdi í gær við úrvalsdeildarlið Grindavíkur til þriggja ára. Pape er tvítugur að aldri og lék með Fylki til haustsins 2010. Hann spilaði 38 leiki með Fylki í úrvalsdeildinni og skoraði fimm mörk, og lék auk þess með U19 ára landsliði Íslands. Pape lék síðan með Leikni R. í 1. deildinni í ár og varð markahæsti leikmaður liðsins með níu mörk í 19 leikjum. Þar af skoraði hann fjögur mörk í lokaumferðinni þegar Leiknismenn björguðu sér frá falli með því að sigra ÍA 4:1.

Markvörðurinn Birkir Ívar Guðmundsson úr Haukum og Sigfús Sigurðsson úr Val eru á meðal leikmanna í 28 manna leikmannahópi sem HSÍ hefur tilkynnt til mótsstjórnar Evrópumeistaramótsins í Serbíu, en mótið fer þar fram í næsta mánuði. Úr þessum 28 manna hópi mun Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari síðan velja 16 manna hóp til þátttöku á EM. Hann verður að velja leikmenn úr þessum hópi til þess að taka þátt í mótinu, má alls ekki leita út fyrir hann, hvað sem gengur á. Hópinn í heild má sjá á mbl.is.

Danska meistaraliðið AG frá Kaupmannahöfn, með þá Arnór Atlason, Guðjón Val Sigurðsson, Snorra Stein Guðjónsson og Ólaf Stefánsson í broddi fylkingar, mætir þýska stórliðinu Kiel, með Aron Pálmarsson innanborðs og Alfreð Gíslason við stjórnvölinn, í Meistaradeild Evrópu í handknattleik á morgun. Þeir 700 miðar sem AG fékk á leikinn seldust upp á augabragði og reiknað er með að Danirnir fari í 11 rútum yfir til Þýskalands.