Gunnar Sigurgeirsson, Hjallavegi 9, fæddist í Reykjavík 3. júní 1942. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 3. desember 2011.

Útför Gunnars var gerð frá Kirkju óháða safnaðarins 12. desember 2011.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Ég varð svo dapur þegar mamma sagði mér að þú værir dáinn. Það var alltaf svo gaman að koma heim til ykkar ömmu, þú varst allaf svo skemmtilegur og góður við mig. Ég fékk alltaf að sofa á milli ykkar ömmu í rúminu og þar leið mér svo vel. Svo varstu alltaf að grínast í mér og stríða mér og ég fór alltaf að hlæja því mér fannst þú svo fyndinn. Ég skal passa ömmu fyrir þig, því ég veit hún saknar þín.

Birgir Steinn.

Okkur systkinin langar að minnast stjúpa okkar Gunnars Sigurgeirssonar með örfáum orðum. Gunni lést laugardaginn 3. desember sl. eftir 11 mánaða baráttu við illvígan sjúkdóm. Baráttu sem oft leit út fyrir að hann myndi vinna en seint í haust var ljóst að fullnaðarsigur yrði ekki unninn. Gunni tókst á við veikindi sín af æðruleysi og stillingu. Kynni okkar ná aftur til ársins 1991 þegar mamma og Gunni hófu búskap fyrst á Egilsgötunni og svo allt til dagsins í dag á Hjallaveginum. Gunni vann alla sína starfsævi við múrverk, en frístundunum fannst honum best að verja heima við lestur góðra bóka. Á sumrin dró Svarfaðardalurinn, sveitin hans, í tengslum við þær ferðir var farið víðar og landið skoðað. Hann var hæglátur maður, skynsamur og vel heima. Á sínum yngri árum hafði hann stundað íþróttir, aðallega handbolta, og það lýsir honum kannski best að það er ekki fyrr en eftir hans dag að við vitum að hann var framúrskarandi íþróttamaður. Það er með trega sem kveðjum í dag en með þakklæti fyrir samfylgdina.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem)

Arna Björk og Bjarni Magnús.