Harmur Breski rithöfundurinn Owen Matthews.
Harmur Breski rithöfundurinn Owen Matthews.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Owen Matthews. Urður gefur út. 300 bls. Þýðandi: Elín Guðmundsdóttir.

Breski blaðamaðurinn Owen Matthews rekur hér sögu þriggja kynslóða í Rússlandi á nýliðinni öld, en fléttar inn í frásögnina eigin reynslu og tilfinningum með grípandi hætti. Niðurstaðan er hrífandi bók sem grípur mann föstum tökum frá upphafi. Og þýðingin virðist hafa tekist vel, andblærinn er sannfærandi.

Sögusviðið er auðvitað hrikalegt: Keisaratíminn í upphafi og svo byltingin 1917, sem margir vilja fremur kalla valdarán bolsévikka, grimmdaræði Stalíns, kalda stríðið. Og loks hrunið 1991, átökin hryllilegu í Tsjetsjeníu. Matthews segir að almenningur hafi fylgst meira eða minna skilningsvana með því hvernig þetta kjarnorkuvædda hrófatildur, Sovétríkin, sem virtust vera svo ósigrandi vígi, varð að engu.

Margir drógu sig inn í skel en héldu áfram að strita sem fyrr, í von um að fá að hjara. Sem sumir gerðu ekki. Fá lönd kynntust jafn miklum hremmingum og Rússland á 20. öld og örlög einstaklinganna draga dám af þeirri sögu. Gömul sendibréf og skjöl KGB um forfeðurna duga Matthews til að endurskapa löngu liðna rómantík, ástir, dauða og vonbrigði. En alltaf hvílir yfir þessu öllu harmur, sársauki, jafnvel þegar sólin skín og vonir vakna.

Matthews er í essinu sínu þegar hann dregur upp myndir af Moskvu að vetrarlagi.

„Í Moskvu skellur veturinn á eins og sleggjuhögg sem kremur birtu og liti og mer lífsmarkið úr borginni. Hann leggst yfir himininn eins og myglaðir vængir, myndar hjúp um borgina og einangrar hana frá umheiminum.“ (bls. 149).

Höfundurinn, sem á föður frá Wales og elst upp í Bretlandi, reisir rússnesk-fæddri móður sinni minnisvarða með þessari merkilegu bók og ekki síður afanum sem hann aldrei hitti, Boris Bibikov, einu af fórnarlömbum Stalíns. Maður með blátt blóð í æðum en samt sem áður einbeittur liðsmaður alræðisherranna sem vildu reisa paradís á jörðu og notuðu þjóðina í púkk.

Kristján Jónsson