Hafnarborg Frá Laayoune, helstu borginni í Vestur-Sahara. Þar er mikil fiskvinnsla og útgerð, einnig er þar lestað fosfat til útflutnings.
Hafnarborg Frá Laayoune, helstu borginni í Vestur-Sahara. Þar er mikil fiskvinnsla og útgerð, einnig er þar lestað fosfat til útflutnings.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Kristján Jónsson kjon@mbl.is Sú ákvörðun þings Evrópusambandsins á miðvikudag að neita að framlengja fiskveiðisamning við Marokkó vegna miðanna við hernámssvæðið Vestur-Sahara skiptir miklu máli fyrir sjávarútveg í sambandinu.

Fréttaskýring

Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

Sú ákvörðun þings Evrópusambandsins á miðvikudag að neita að framlengja fiskveiðisamning við Marokkó vegna miðanna við hernámssvæðið Vestur-Sahara skiptir miklu máli fyrir sjávarútveg í sambandinu. Liðlega hundrað skip, með um 74% af veiðigetu sambandsins, mælt í tonnatölu, hafa veitt á umræddum miðum en nú hafa bálreiðir Marokkómenn vísað þeim á brott. Ljóst er að tugir togara verða í kjölfarið bundnir við bryggju á Spáni.

Framkvæmdastjórn ESB vildi framlengja samning sem frá 2006 hefur gefið Marokkó sem svarar um 5,7 milljörðum króna í aðra hönd árlega. En þingið benti á traustar upplýsingar um að stunduð væri ofveiði á svæðinu, auk þess sem ekki væri sannað að tekjurnar af samningnum kæmu íbúum V-Sahara að gagni. Þeir hefðu aldrei fengið tækifæri til að leggja blessun sína yfir samninginn, ekki verið spurðir ráða.

ESB-þingið vill enn fremur að fulltrúar Sameinuðu þjóðanna, sem fylgjast með vopnahléi milli Marokkós og útlagastjórnar frelsissamtakanna Polisario, fylgist með því hvort mannréttindi séu brotin á innfæddum íbúum. Þeir kvarta undan því að innfluttir Marokkómenn njóti forgangs, mikil fjárfesting á svæðinu gagnist lítið innfæddum.

Engin þjóð hefur formlega viðurkennt yfirráð Marokkó í V-Sahara og Sameinuðu þjóðirnar hafa yfir 100 sinnum fordæmt hernámið. Mannréttindavaktin og Amnesty International hafa sakað hernámsstjórnina um pyntingar og önnur gróf mannréttindabrot.

Sigur fyrir V-Saharamenn og frelsisbaráttu þeirra

Samþykkt þingsins í Strassborg á miðvikudag markar tímamót í frelsisbaráttu Vestur-Saharamanna: þetta er í fyrsta sinn sem ESB lætur réttindakröfur þeirra hafa forgang á beinharða peningahagsmuni sambandsríkja sem hlut eiga að máli, einkum Spánar.

Málið hefur lengi verið vandræðalegt fyrir sambandið. Makkið við Marokkó, sem selt hefur fiskveiðiréttindi V-Saharamanna án þess að ráðgast við þá, hefur árum saman sætt harðri gagnrýni. Menn væru í reynd að samþykkja ólöglegt hernám Marokkómanna og ránið á auðlindum smáþjóðarinnar undir oki þeirra. Sem fer illa saman við hástemmd fyrirheit lýðræðisríkja um að virða mannréttindi.

En hvernig hefur framkvæmdastjórn ESB rökstutt afstöðu sína? Maria Damanaki, sem fer með sjávarútvegsmálin, fullyrti fyrr á árinu að samningurinn væri ekki brot á alþjóðalögum og vitnaði m.a. í álit Hans Corells, sérfræðings SÞ, sem samdi greinargerð árið 2002. Hann hefði fullyrt að atvinnustarfsemi framandi aðila á svæði eins og V-Sahara, undir stjórn annars ríkis, væri „í lagi nema hún hunsaði þarfir og hagsmuni“ íbúanna á svæðinu. En Damanaki virðist hafa breytt ummælunum, tekið hluta úr samhengi. Niðurstaða Corrells var einfaldlega að ef íbúar V-Sahara væru andvígir nýtingu auðlinda á svæðinu væri hún ólögmæt. Og hann sagði sjálfur árið 2009 að umræddar veiðar ESB-ríkja, þar sem ekki væri skilið á milli fiskveiðilögsögu Marokkó og V-Sahara, væru „brot á alþjóðalögum“.

HERNUMIÐ LAND FRÁ 1975

Síðasta nýlenda Afríku

Vestur-Sahara er geysilega auðugt af fosfati og líklegt að þar finnist mikið af ýmiss konar málmum, einnig eru fiskimiðin mjög göful og vísbendingar um olíu og gas á hafsbotni innan lögsögunnar. Íbúarnir eru alls um hálf milljón, þar af er helmingurinn í útlegð. En hundruð þúsunda innfluttra Marokkómanna hafa sest að í landinu síðustu áratugina.

Þegar Spánverjar yfirgáfu Vestur-Sahara á áttunda áratugnum gripu Marokkómenn tækifærið og lögðu svæðið undir sig, þrátt fyrir mótspyrnu landsmanna sem háðu blóðugt stríð gegn ofureflinu fram undir 1990. Hernámið er ólöglegt, Alþjóðadómstóllinn í Haag komst að þeirri niðurstöðu 1975.