[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Heimsmeistarar félagsliða í knattspyrnu verða krýndir í 50. skipti á morgun þegar Evrópumeistarar Barcelona og Suður-Ameríkumeistarar Santos eigast við í úrslitaleik í Japan.

Fótbolti

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Heimsmeistarar félagsliða í knattspyrnu verða krýndir í 50. skipti á morgun þegar Evrópumeistarar Barcelona og Suður-Ameríkumeistarar Santos eigast við í úrslitaleik í Japan.

Evrópa og Suður-Ameríka hafa einokað þennan titil frá upphafi þótt hann hafi í raun ekki verið sá sami allan tímann. Frá 1960 til 2004 var um að ræða keppni á milli þessara tveggja heimsálfa og hún hét á ensku Intercontinental Cup. Fram að árinu 1980 var yfirleitt um tvo leiki að ræða, heima og heiman, en frá þeim var leikinn einn leikur, ávallt á hlutlausum velli í Japan.

Mikið gekk á árið 1968

Keppnin féll reyndar tvisvar niður á áttunda áratugnum og á þeim árum gekk oft á ýmsu í viðureignum liðanna. Viðureignir Manchester United og Estudiantes frá Argentínu árið 1968 voru til dæmis ansi blóðheitar og lykilmenn voru reknir af velli í báðum leikjum. Nobby Stiles hjá United í þeim fyrri í Argentínu, sem Estudiantes vann, 1:0, og bæði George Best hjá United og José Hugo Medina hjá Estudiantes í þeim seinni á Old Trafford sem endaði 1:1.

Álfumeistararnir sjálfir mættu reyndar ekki til leiks í öllum tilvikum. Þó enska liðið Nottingham Forest hafi orðið Evrópumeistari tvö ár í röð, 1978 og 1979, lék það aldrei um HM-titilinn. Ekkert varð af keppninni fyrra árið og Forest hætti við þátttöku seinna árið. Malmö frá Svíþjóð, sem hafði tapað fyrir Forest í úrslitaleik Evrópukeppni meistaraliða, fór í staðinn og tapaði tvisvar fyrir Olimpia frá Paragvæ.

FIFA tók við árið 2005

Árið 2005 tók FIFA, Alþjóðaknattspyrnusambandið, við mótshaldinu. Frá þeim tíma hefur það verið með öðru sniði því nú hafa meistaralið allra heimsálfa keppnisrétt. Mótið er því umfangsmeira en áður en Evrópa og Suður-Ameríka njóta áfram forgangs. Meistaraliðin þaðan fara beint í undanúrslit þar sem þau mæta tveimur liðum sem eftir standa úr keppni hinna álfumeistaranna.

Árið 2000 var FIFA reyndar með sérstaka álfukeppni í Brasilíu, sem heimamenn í Corinthians unnu, en hinn hefðbundni meistaraleikur fór eftir sem áður fram í Japan þar sem Boca Juniors frá Argentínu sigraði Real Madrid frá Spáni.

Ótrúlegt jafnræði

Eins og sjá má hér að ofan er ótrúlegt jafnræði á milli Evrópu og Suður-Ameríku. Liðin frá Suður-Ameríku höfðu lengst af vinninginn hvað fjölda sigra áhrærir, en Evrópa hefur nú tekið forystu, 25:24, með því að vinna keppnina fjögur síðustu árin. Inter Mílanó vann í fyrra og þar á undan Barcelona, Manchester United og AC Milan.

Argentína og Ítalía eiga flesta titla í keppninni, níu hvor þjóð, og sigursælasta liðið er AC Milan sem hefur borið fjórum sinnum sigur úr býtum.

Í fyrra var brotið blað í sögunni þegar Afríkumeistarar Mazembe frá Kongó komust í úrslitaleikinn gegn Inter Mílanó en það er eina skiptið til þessa sem lið utan Evrópu eða Suður-Ameríku hefur leikið til úrslita. Inter vann þann leik örugglega, 3:0.

Leikurinn á morgun er kannski áhugaverðastur vegna þess að þar mætast kóngurinn og krónprinsinn: Lionel Messi hjá Barcelona, sem flestir telja besta knattspyrnumann heims í dag, og hinn 19 ára gamli Neymar hjá Santos sem margir spá að verði sá sem helst geti ýtt Messi af þeim stalli á næstu árum.