— Morgunblaðið/Golli
Elsti núlifandi Íslandsmeistari í knattspyrnu, Gísli Halldórsson, fyrrverandi forseti ÍSÍ, fékk í gær afhent fyrsta eintakið af 100 ára sögu Íslandsmótsins í knattspyrnu.

Elsti núlifandi Íslandsmeistari í knattspyrnu, Gísli Halldórsson, fyrrverandi forseti ÍSÍ, fékk í gær afhent fyrsta eintakið af 100 ára sögu Íslandsmótsins í knattspyrnu. Gísli, sem nú er 96 ára gamall, varð Íslandsmeistari með KR árið 1934, en þá var hann 19 ára gamall.

Það var Sigmundur Ó. Steinarsson, höfundur bókarinnar, sem kom færandi hendi á hjúkrunarheimilið Eir í gær, en þar dvelur Gísli nú. Þegar fyrra bindi verksins kom út í vor gat Gísli ekki tekið við því vegna veikinda. Nú er Gísli orðinn hress og hann hefur yfir að ráða öflugu lesborði og stækkunargleri samföstu því til að ráða við knattspynuverkið, sem er 896 síður í stóru broti, samtals fimm kíló. Var Gísli að vonum mjög glaður að fá ritverkið loks í hendur.

Sigmundur ritaði eftirfarandi texta í bókina: „Kæri Gísli. Fyrsti handhafi af verkinu 100 ára saga Íslandsmótsins í knattspyrnu. Mér er heiður að því að færa þér verkið í heild sinni, sem elsta lifandi Íslandsmeistara í knattspyrnu, meistari 1934. Velkominn til leiks í „síðari hálfleik“. Það er mér mikil ánægja að vera með þér á nýjan leik á vellinum.“