Ármann Kr. Ólafsson
Ármann Kr. Ólafsson
Eftir Ármann Kr. Ólafsson: "Fjárhagsáætlun Sjálfstæðisflokksins gengur út á það að sporna við skattahækkunum og sífellt hærri rekstrarkostnaði með raunsæjum aðgerðum."

Í Morgunblaðinu sl. fimmtudag skrifaði Guðríður Arnardóttir, fyrir hönd fjórflokka-meirihlutans, grein sem gekk út á að réttlæta skatta- og gjaldskrárhækkanir sem samþykktar voru í fjárhagsáætlun fyrir árið 2012. Ekki ætla ég að elta ólar við þá réttlætingu og afsakanir að öðru leyti en því að fasteignagjöld og ýmis önnur gjöld eru að hækka umfram almennar verðlagshækkanir. Því fær útúrsnúningur og skrúðmælgi ekki breytt. Það munu íbúar Kópavogs finna á eigin skinni rétt eins og fyrir aðgerðum ríkisstjórnarinnar.

Hitt er að í greininni koma fram staðhæfingar varðandi fjárhagsáætlun Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi sem ekki verður hjá komist að svara. Fullyrt var að bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ætluðu að selja lóðir í þeim tilgangi að lækka fasteignaskatta og halda gjaldskrám óbreyttum. Þar segir jafnframt orðrétt „þannig ætluðu þeir að láta óreglulegar tekjur standa undir föstum rekstrargjöldum“.

Hið sanna er að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram 56 sparnaðartillögur í rekstri og nam upphæðin um 450 milljónum króna lækkun kostnaðar auk annarra tillagna sem gáfu 800 og 900 milljónir króna til viðbótar. Með rekstrarsparnaði átti að lækka skatta, lækka gjaldskrár og skila meiri rekstrarafgangi. Þetta má sjá á bls. 2 í fjárhagsáætlun Sjálfstæðisflokksins en þar kemur m.a. fram að rekstrarafgangur er 437 milljónir króna eða 3% í hlutfalli við skatttekjur, á móti 115 m. kr. eða 1% eins og fram kemur á bls. 2 í fjárhagsáætlun meirihlutans. Þá má sjá á öftustu síðu beggja áætlana (bls. 11) að skuldir á hvern íbúa lækka um 28.000 á hvern einstakling samkvæmt tillögum Sjálfstæðisflokksins. Íbúafjöldinn í Kópavogi er 31.498 sem þýðir að heildarskuldir lækka um 882 milljónir króna árið 2012. Þá lækka fasteignaskattar, sorphirðugjald, holræsa- og vatnsskattur ásamt lækkun lóðarleigu í tillögum Sjálfstæðisflokksins.

Hvað varðar fullyrðingar Guðríðar um sparnað í grunn- og leikskólum þá er hann um 150 milljónir króna í áætluninni en ekki 300 milljónir eins og skilja má á orðum Guðríðar. Ég tók það hins vegar fram að horft væri til 3% sparnaðar miðað við heilt ár hjá grunnskólunum en 2% hjá leikskólunum en sá sparnaður kæmi hraðar til skjalanna. Með vilja má segja að þetta þýddi 210-220 milljónir króna á ársgrundvelli af lið sem hljóðar upp á 8 milljarða. Að tala um 300 milljónir króna er því alveg út úr kortinu en í takt við annað sem í grein hennar stendur.

Fjárhagsáætlun Sjálfstæðisflokksins gengur út á það að sporna við skattahækkunum og sífellt hærri rekstrarkostnaði með raunsæjum aðgerðum. Ef það er gert á hverju ári þá batnar hagur bæjarsjóðs hægt og bítandi en versnar hratt ef slegið er slöku við eins og hjá meirihlutanum. Á síðasta ári hjálpuðu þrír bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins meirihlutanum að vinna fjárhagsáætlun ársins 2011. Markmiðið var að leggja grunn að bættum hag bæjarins. Slök vinnubrögð meirihlutans á árinu sem er að líða og áætlun ársins 2012 hafa gert árangur þeirrar vinnu að engu, því miður.

Höfundur er bæjarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi.