Badminton Ragna Ingólfsdóttir er í harðri baráttu um að komast á ÓL í London, og við að fjármagna undirbúninginn.
Badminton Ragna Ingólfsdóttir er í harðri baráttu um að komast á ÓL í London, og við að fjármagna undirbúninginn. — Morgunblaðiði/hag
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
AFREKSMÁL Ívar Benediktsson iben@mbl.is „Ég hef náð mjög góðum árangri á sjö mótum á þessu ári en þarf að ná svipuðum árangri á þremur til viðbótar til þess að vera örugg inn á Ólympíuleikana.

AFREKSMÁL

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„Ég hef náð mjög góðum árangri á sjö mótum á þessu ári en þarf að ná svipuðum árangri á þremur til viðbótar til þess að vera örugg inn á Ólympíuleikana. Ég hef fjóra mánuði á næsta ári til þess að taka þátt í mótum og ná þeim stigafjölda sem mig vantar til viðbótar. Ég er bjartsýn á að það takist,“ segir Ragna Björg Ingólfsdóttir, Íslandsmeistari í badminton og langfremsta badmintonkona landsins til margra ára.

Ragna er ein þeirra íþróttamanna sem barist hafa áfram í gegnum súrt og sætt til að tryggja sér keppnisrétt á öðrum Ólympíuleikunum í röð.

Ragna lýsti bágum kjörum sínum í færslu á Facebook fyrir rúmri viku. Í framhaldinu var fjallað um málið í fjölmiðlum. Ragna segist strax hafa fengið jákvæð viðbrögð frá fyrirtækjum og einstaklingum, m.a. hefur hún þegar gert samning við eitt fyrirtækjanna og fleiri samningar eru í burðarliðnum.

Styrkir fara í keppnisferðir

Ragna er með B-styrk frá Afrekssjóði ÍSÍ, 80 þúsund á mánuði. Einnig fær hún 1.000 bandaríska dollara [jafnvirði nú um 122 þúsunda] frá Ólympíusamhjálpinni, sem er sjóður á vegum alþjóðaólympíunefndarinnar. Badmintonsamband Íslands heldur utan um styrkina fyrir hönd Rögnu en þeir eru notaðir til þess að standa straum af æfinga- og keppnisferðum. „Þessir styrkir eru eyrnamerktir keppnistengdum kostnaði, svo sem ferðalögum, gistingu og uppihaldi og á ekki að nota í annað. Síðan fékk ég eingreiðslu úr sérstökum afrekskvennasjóði. Styrkir fara eingöngu í að greiða fyrir ferðakostnað,“ segir Ragna, sem hefur haft úr mjög litlu að moða síðan hún lauk BA-prófi í heimspeki og sálfræði vorið 2009. „Meðan ég var í háskólanum tók ég námslán en eftir að ég lauk námi hef ég ekki haft mikil laun. Ég hef aðeins verið að þjálfa hjá félaginu mínu, TBR.

Stuðningur eftir Facebook-færslu

Síðasta hálft annað árið hafa peningamálin verði í algjöru rugli hjá mér. Það var kveikjan að færslunni á Facebook í síðustu viku þar sem ég lagði spilin á borðið. Færslan vakti mikla athygli og hefur gert að verkum að nokkur fyrirtæki og einstaklingar hafa sett sig í samband við mig og lýst áhuga á að styðja við bakið á mér þannig að ég sé fram á að verða í betri málum á næstunni en ég var fyrir viku.

Fyrsta fyrirtækið sem ég gerði samning við um stuðning er hugbúnaðarfyrirtækið LS Retail. Þeir gera mjög vel við mig alveg fram að Ólympíuleikum, sem mun létta mér mjög róðurinn.

Ég hef fengið og fæ áfram að borða hjá Lifandi markaði. Þá hefur Saffran einnig boðið mér að borða, þannig að matarmálin eru í góðu lagi.

Ég er síðan með góða menn við að hjálpa mér að ræða við nokkur fyrirtæki um stuðning sem vonandi leiða til jákvæðrar niðurstöðu á næstunni,“ segir Ragna og horfir bjartari augum til næstu mánaða.

„En það er alveg ljóst að maður þarf að kasta frá sér sprengjum til þess að ná athyglinni eins og ég gerði í þessu tilfelli,“ segir Ragna, sem vonandi getur borðað eitthvað hollara og staðbetra en pakkanúðlur á næsta keppnisferðalagi.

Lítil réttindi

Ragna segir ennfremur mikilvægt að skoðaður verði réttur íþróttamanna eftir að ferli þeirra lýkur, s.s. eins og til ýmissa réttinda. Má þar nefna rétt til fæðingarorlofs. „Ég hef aldrei verið í fastri vinnu, aðeins unnið í stuttan tíma yfir sumarið og því ekki öðlast ýmis opinber réttindi, má þar nefna rétt til greiðslu í fæðingarorlofi. Ég er farin að hugsa fram í tímann, hvað tekur við þegar ég hætti að keppa. Verð ég þá áfram með alla hluti í rugli og hef ekki réttindi til eins eða neins,“ veltir Ragna fyrir sér.

Félag Rögnu, TBR, greiðir laun fyrir þjálfara hennar en hann er jafnframt aðalþjálfari hjá félaginu. Hún getur hins vegar aldrei haft þjálfarann með sér á mót sökum kostnaðar. Ragna ferðast því um allan heim, til Evrópu, Austurlanda og Ameríku, á mót, ein á báti.

Ragna býr ekki lengur í foreldrahúsum heldur leigir sér íbúð og þar með er kominn fastur og verulegur kostnaður sem erfitt getur verið að brúa þegar tekjurnar eru litlar. „Þeir sem leigja með mér eru skilningsríkir og hafa stutt við bakið á mér með ráðum og dáð,“ segir Ragna Björg Ingólfsdóttir, margfaldur Íslandsmeistari í badminton og væntanlegur ólympíufari.

Ragna Ingólfsdóttir

» Hún er 28 ára og hefur verið besta badmintonkona landsins um árabil.
» Ragna hefur orðið Íslandsmeistari í einliðaleik átta sinnum og aðeins Elsa Nielsen hefur unnið jafnoft.
» Ragna keppti í einliðaleik á Ólympíuleikunum 2008 og á góða möguleika á að komast á leikana í London 2012.
» Ragna er í 69. sæti á nýjasta heimslistanum og sú 27. besta í Evrópu samkvæmt honum.