Mateja Zver
Mateja Zver
Mateja Zver, knattspyrnukonan snjalla frá Slóveníu, sem leikið hefur með Þór/KA síðustu fjögur árin, mun ekki spila með norðanliðinu á komandi leiktíð. Unnsteinn Einar Jónsson, formaður félagsins, staðfesti þetta í samtali við Morgunblaðið í gærkvöld.

Mateja Zver, knattspyrnukonan snjalla frá Slóveníu, sem leikið hefur með Þór/KA síðustu fjögur árin, mun ekki spila með norðanliðinu á komandi leiktíð.

Unnsteinn Einar Jónsson, formaður félagsins, staðfesti þetta í samtali við Morgunblaðið í gærkvöld.

Zver, sem er fyrirliði slóvenska landsliðsins, ætlar að taka sér frí frá fótbolta í sumar en hún hefur spilað allt árið síðustu árin, með liði frá heimalandi yfir vetrartímann og Þór/KA á sumrin.

Þetta er mikil blóðtaka fyrir Akureyrarliðið enda hefur Zver spilað stórt hlutverk með liðinu frá því hún kom til þess árið 2008. Hún skoraði níu mörk í 18 leikjum með Þór/KA í Pepsi-deildinni á síðustu leiktíð en alls hefur hún skorað 55 mörk í 63 leikjum með liðinu. Þá lagði Zver upp langflestu mörkin í Pepsi-deildinni í fyrra. Hún átti 19 stoðsendingar fyrir liðið og lagði því upp 19 af 39 mörkum liðsins.

Þór/KA hefur þar með misst tvo af sínum sterkustu sóknarmönnum en Rakel Hönnudóttir, sem hefur skorað 74 mörk í 100 leikjum með liðinu í efstu deild, gekk til liðs við Breiðablik í vetur.

Þór/KA hefur á móti fengið landsliðskonuna Katrínu Ásbjörnsdóttur frá KR, Þórhildi Ólafsdóttur frá ÍBV og Chantel Nicole Jones, sem er markvörður, frá Bandaríkjunum en hún leysir Berglindi Magnúsdóttur af hólmi.

„Við erum með fullt af ungum og efnilegum stelpum sem eru árinu eldri og við væntum mikils af þeim í framtíðinni en væntanlega munum við reyna að styrkja liðið fyrir sumarið,“ sagði Unnsteinn við Morgunblaðið. gummih@mbl.is