Klettadrangar með einhverju fegursta og fjölbreyttasta stuðlabergi á Norðausturlandi Seljahjallagil er víða 100-150 metra djúpt og um 500 m breitt að meðaltali. Nyrst í gilinu hefur leysingavatn grafið nýtt gil ofan í hraunið og koma þar fram miklir klettadrangar með einhverju fegursta og fjölbreyttasta stuðlabergi sem finnst á austanverðu Norðurlandi. Einn gígurinn í jarðeldunum þegar Laxárhraun yngra rann er í gilinu. Hraunið rann um Mývatnssvæðið, niður Laxárdal allt að Skjálfanda. Mývatn varð til í núverandi mynd.
Klettadrangar með einhverju fegursta og fjölbreyttasta stuðlabergi á Norðausturlandi Seljahjallagil er víða 100-150 metra djúpt og um 500 m breitt að meðaltali. Nyrst í gilinu hefur leysingavatn grafið nýtt gil ofan í hraunið og koma þar fram miklir klettadrangar með einhverju fegursta og fjölbreyttasta stuðlabergi sem finnst á austanverðu Norðurlandi. Einn gígurinn í jarðeldunum þegar Laxárhraun yngra rann er í gilinu. Hraunið rann um Mývatnssvæðið, niður Laxárdal allt að Skjálfanda. Mývatn varð til í núverandi mynd. — Morgunblaðið/Birkir Fanndal
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Þetta er í sjálfu sér ekki í hættu en rétt þótti að setja undir lekann, svo ekki sé tekin áhætta með það,“ segir Hjörleifur Sigurðarson, bóndi á Grænavatni IV í Mývatnssveit.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Þetta er í sjálfu sér ekki í hættu en rétt þótti að setja undir lekann, svo ekki sé tekin áhætta með það,“ segir Hjörleifur Sigurðarson, bóndi á Grænavatni IV í Mývatnssveit. Unnið er að friðlýsingu Seljahjallagils, Bláhvamms og nágrennis, í landi jarðarinnar, í góðu samkomulagi Umhverfisstofnunar, landeigenda og sveitarstjórnar Skútustaðahrepps.

Friðlýsing svæðisins sem náttúruvættis hefur verið auglýst og búast má við að umhverfisráðherra staðfesti hana fljótlega, hugsanlega í næstu viku. Þá tekur við vinna við verndaráætlun.

Svæðið er friðað vegna merkra minja frá jarðeldunum sem skópu Mývatn og umgjörð þess.

Þarf að laga veginn

Jeppaslóði liggur að svæðinu og búast má við að áhugi aukist á að fara þangað vegna umræðu um fegurð þess og friðun. Hjörleifur á Grænavatni segir að einn og einn sé að fara inn að Seljahjallagili og einhverjar gróðurskemmdir hafi orðið vegna þess.

Hann segir að friðunin sé meðal annars gerð í þeim tilgangi að umhverfisráðuneytið taki ábyrgð á svæðinu og beiti sér fyrir bættu aðgengi fólks.

Bergþóra Kristjánsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun á Mývatni, segir venju að tekið sé á slíkum málum við gerð verndaráætlunar sem komi í kjölfar friðlýsingar. Hún segir svæðið viðkvæmt og það þoli ekki mikinn ágang. Því sé betra að undirbúa það áður en ferðafólki verði beint þangað. Hún telur brýnast að gera göngustíga og merkja hættu sem er á leiðinni, meðal annars við gil. Þá þurfi að koma fyrir upplýsingaskiltum.

Á síðasta ári var samþykkt friðlýsing Dimmuborga og Hverfjalls. Bergþóra bendir á að þeirri friðun hafi fylgt fimm milljóna króna fjárveiting til að gera svæðinu til góða.