Björg Thorarensen
Björg Thorarensen
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigrún Rósa Björnsdóttir sigrunrosa@mbl.
Sigrún Rósa Björnsdóttir

sigrunrosa@mbl.is

„Mér finnst þetta allt frekar óljóst,“ segir Björg Thorarensen, prófessor við Háskóla Íslands, þegar leitað er eftir skoðun hennar á því að Alþingi ákvað í fyrradag að vísa frumvarpi stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá aftur til þess til umfjöllunar. Í nefndaráliti meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar var tekið fram að ráðið hefði, þegar það lauk störfum síðasta sumar, lýst sig reiðubúið til að koma aftur að málinu yrði þess óskað. Stjórnlagaráði er ætlað að koma saman í fjóra daga í byrjun mars og skila af sér í síðasta lagi 12. mars. Lagt er upp með að hinn 29. mars sé búið að samþykkja þingsályktunartillögu um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

Óhemjustuttur tími

Í vikunni gagnrýndi Pawel Bartoszek meðal annars að ekki væri skýrt hvernig vinna ætti úr niðurstöðum fyrirhugaðrar þjóðaratkvæðagreiðslu. Sagði hann vinnubrögð þingsins því til vansa. Björg segist taka undir áhyggjur Pawels af málsmeðferðinni. „Það er erfitt að átta sig á hvað stjórnlagaráð á að fjalla um og það hefur mjög stuttan tíma til þess,“ segir Björg.

Óljóst hvað á að gera

Spurð um vægi álits ráðsins segir hún það hafa vægi sem álit en ekkert lögformlegt ákvörðunarvald, enda sé ráðið álitsgjafi sem þingið valdi til að vinna verkefnið. Björg ítrekar hins vegar að það sé ekki ljóst hvað ráðið eigi að gera.

„Hvað sem nefndin leggur fyrir ráðið hefur það ekki langan tíma til þess að vinna úr því og koma með einhvers konar tillögur.“

Þegar rætt er um fyrirhugaða þjóðaratkvæðagreiðslu segir Björg augljóst að það verði að vanda vel til þeirra spurninga sem lagðar verða fram. Það sé ekki síst nauðsynlegt til að túlkun á niðurstöðunni búi ekki til nýtt sjálfstætt ágreiningsmál sem dreifi athyglinni frá verkefninu sjálfu. Ekki sé ljóst hvaða þýðingu hún eigi að hafa þegar ekki liggi enn fyrir hvað verður spurt um. Þjóðaratkvæðagreiðslan sé í öllu falli ráðgefandi en ekki lagalega bindandi. „Ef markmiðið er að reyna að fá fram einhverjar línur þá getur reynst erfitt að túlka þær,“ segir Björg.

Þarfnast rækilegrar skoðunar

„Mér finnst þetta vera allsherjar handarbakavinna og í raun algjört klúður,“ segir Sigurður Líndal, prófessor við Háskólann á Bifröst.

Hann telur tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskránni þarfnast rækilegrar skoðunar.

„Eins og málin standa í bili, að það takist að leysa þetta á einum mánuði. Ég held það myndi jaðra við almættisverk,“ segir Sigurður.

Bæði stjórnlaganefndin og stjórnlagaráðið hafi á sínum tíma kvartað yfir tímaleysi og af því dragi hann þá ályktun að ekki hafi tekist að móta tillögurnar. Miðað við það sem á undan sé gengið sjái hann ekki að hægt sé að koma frumvarpinu í skipulegt horf, þannig að hægt verði að taka afstöðu.

Of stuttur tími

„Þess vegna finnst mér þetta vera eitt allsherjar klúður og rangt farið að málinu frá byrjun,“ segir Sigurður. Þær tillögur sem lagðar eru fram af stjórnlagaráði þarfnist mun meiri yfirlegu. Tekur hann kafla um forseta Íslands sem dæmi en bara það eitt að ákvarða stöðu og valdsvið forseta sé ærið verkefni. Tíminn fram að þjóðaratkvæðagreiðslunni sé of stuttur. „Ég tel að það sé einfaldlega ekki tími til þess að leggja þetta fyrir þjóðina þannig að hún geti tekið vitræna afstöðu. Það er kjarni málsins. Tíminn er of stuttur og málið of vanbúið til að hægt sé að greiða atkvæði um það. Ég tel ekki að það sé hægt að leysa það á einum mánuði.“