Gunnar Karl yfirkokkur á Dill hlakkar til að fá Claus M. Henriksen í eldhúsið sem gestakokk. „Hann er velkominn hvenær sem er enda snillingur þegar kemur að norrænni matreiðslu.“
Gunnar Karl yfirkokkur á Dill hlakkar til að fá Claus M. Henriksen í eldhúsið sem gestakokk. „Hann er velkominn hvenær sem er enda snillingur þegar kemur að norrænni matreiðslu.“ — Morgunblaðið/Kristinn
Það er tilhlökkun á DILL Restaurant fyrir Food & Fun enda gestakokkurinn í fremstu röð í norrænni matreiðslu.
DILL Restaurant hefur á tiltölulega skömmum tíma skapað sér sess sem norrænn veitingastaður í fremstu röð. Það fer því vel á því að gestakokkurinn þeirra er einmitt sérfræðingur á því sviði.

„Við vorum svo heppnir að fá til okkar snillinginn Claus M. Henriksen,“ segir Gunnar Karl Gíslason, yfirmatreiðslumaður á DILL. „Þetta er þriðja árið sem hann kemur til okkar. Fyrsta árið sem hann kom vann hann keppnina, þannig að hann fær ekki að keppa aftur en hann fór samt fram á að koma aftur og aftur, og fá að elda með okkur á DILL. Hann er vissulega velkominn hvenær sem er, enda snillingur þegar kemur að norrænni matreiðslu,“ segir Gunnar.

Hráefnin sem Claus ætlar að nota til að töfra fram kræsingar að þessu sinni eru ekki af verri endanum, eins og Gunnar bendir á. „Í ár hefur hann valið að notast við tvíreykt hangikjöt frá Auði frænku á Skútustöðum, krækling úr Breiðafirði og bláar kartöflur. Hann kemur svo sjálfur með danskan smokkfisk, krydd og tré svo eitthvað sé nefnt.“ Það leynir sér ekki að Gunnar hlakkar til. „Það er alltaf mikil tilhlökkun þegar við tökum upp úr kössunum allt dýrindið sem hann kemur með. Þar kennir ýmissa grasa. Í fyrra kom hann t.d. með aspasbjór og runna til að útbúa sósu úr. Einnig sérstakan ost með náttúrulegri seltu og nokkur eintök af nýjustu matreiðslubókinni sinni.

Í ár er ég mest spenntur að fá að smakka hjá honum eftirréttinn þar sem hann ætlar að nota bláu kartöflurnar. Kartöflur er jú ekki eitthvað sem maður fær í eftirrétt á hverjum degi!“

Galdramaður í heimsókn

„Það er alltaf spennandi að fá góðan gestakokk, en að fá Claus er eins og að fá jólin snemma,“ segir Gunnar. „Hann er að fást að miklu leyti við svipaða hluti og við hér á DILL. Þannig að það opnar alltaf augu manns mikið að sjá nýjar hugmyndir unnar úr svipuðum hráefnum og út frá svipaðri hugmyndafræði og við erum að nota. Claus er líka vanur að vera með eitthvað á seðlinum sem kemur mjög á óvart, jafnt fyrir okkur sem og gestina.“ Og Gunnar efast ekki um að brátt verður matarhátíð í bæ. „Food & Fun í ár verður frábær. Þessi vika er sem árshátíð okkar veitingamanna,“ segir Gunnar Karl að lokum. jonagnar@mbl.is