Viðar Guðjónsson sport@mbl.is Íslenskan fótbolta á ekki að spila á gervigrasi nema yfir vetrarmánuðina.
Viðar Guðjónsson

sport@mbl.is

Íslenskan fótbolta á ekki að spila á gervigrasi nema yfir vetrarmánuðina. Rök um að kostnaður við gervigrasvelli sé minni en við grasvelli stenst ekki nánari skoðun, segir Kristján Guðmundsson, þjálfari karlaliðs Vals í knattspyrnu. Kristján verður með erindi um málið á ráðstefnu Samtaka íslenskra golf- og íþróttavallarstarfsmanna á laugardag.

Gervigrasið framtíðin

Reglulega kemur upp sú umræða innan knattspyrnuhreyfingarinnar að einungis sé tímaspursmál hvenær gervigrasvellir taki við af grasvöllum á Íslandi. Nokkur félög í ensku deildakeppninni eru þegar farin að líta til gervigrassins sem raunhæfs valkosts. Bæði í neðri deildum og í úrvalsdeildinni. Þegar hefur verið spilað á gervigrasi um nokkurt skeið í Meistaradeildinni.

Fagleg nálgun

Hingað til hefur sá kostur vegið þyngst að rekstrarkostnaður gervigrasvalla sé lægri en við grasvellina.

Kristján Guðmundsson knattspyrnuþjálfari er ósammála þessari staðhæfingu. „Við eigum alls ekki að nota gervigras,“ segir Kristján. „Þetta er spurning um umhirðu á grasvöllunum og ég hef séð það sjálfur að leikvellir sem áður voru taldir ónýtir komust í gott lag með réttri umhirðu. Á þeim mátti bæði leika nokkuð stíft samhliða því að vera með æfingaálag, eftir að vellinum var sinnt á faglegan hátt.“

Hann segir að oft sé umræðan um þessi mál ósanngjörn og bendir á að erfitt sé að bera saman grasvöll sem lagður var árið 1956 og nýja gervigrasvelli. „Þess utan er verið að rífa gervigrasið allt of fljótt upp sökum þess að enginn sinnir þessu almennilega. Því standast rökin um að gervigrasið sé ódýrara ekki nánari skoðun,“ segir Kristján.

Ráðstefna um grasvelli

Kristján verður með erindi um þetta mál á ráðstefnu Samtaka golf- og íþróttavallastarfsmanna sem fram fer um helgina. Á þeirri ráðstefnu kemur saman áhugafólk um málefnið en fyrirlesarar verða bæði innlendir og erlendir. Meðal erlendra fyrirlesara verður Chris Hague vallarstjóri Parken, þjóðarleikvangs Danmörku.