Feðgarnir Brynjar Eymundsson og Logi Brynjarsson eru klárir fyrir Food & Fun.
Feðgarnir Brynjar Eymundsson og Logi Brynjarsson eru klárir fyrir Food & Fun. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
Frá því veitingastaðurinn Höfnin var opnaður í maílok 2010, í svokölluðum Verbúðum við Suðurbugtina við Reykjavíkurhöfn, hefur bekkurinn verið þéttsetinn. Það þarf engan að undra því staðurinn er ákaflega notalegur að heimsækja og viðtökurnar segja meira en mörg orð um matinn.
Leiðarljós okkar við innréttingar og skipulag var að byggja upp staðinn eins og hann hefði alltaf verið hér,“segir Brynjar Eymundsson, en hann rekur staðinn ásamt eiginkonu sinni, Elsu Guðmundsdóttur. „Því gerðum við okkur far um að halda í sem mestum mæli þessu gamla og sjarmerandi útliti, en nota í bland nútímaleg og falleg húsgögn. Við erum afskaplega ánægð með útkomuna og ég held að fólk kunni að meta útlit staðarins. Alla vega erum við afar þakklát fyrir viðtökurnar sem við höfum fengið frá opnun.

Íslenskt í öndvegi

Frá upphafi var uppleggið í eldhúsi staðarins að matseðill staðarins tæki mið af klassískum íslenskum mat og yrði útfærður á nýtískulegan máta. Gestakokkurinn Michael Ferraro, sem er Bandaríkjamaður af ítölsku bergi brotinn, mun eflaust gera hráefnunum spennandi skil. „Matseðillinn ber ítalskan keim en svo tónar Ferraro þetta skemmtilega með austurlenskum áhrifum og er greinilega vel að sér um hvað hentar að nota af íslensku hráefni,“ segir Brynjar. „Michael er menntaður frá hinum virta skóla Culinarie Institude of America og var valinn einn af 30 bestu kokkum 30 ára og yngri í New York. Við erum því mjög spennt að fá hann til okkar á Höfnina,“ bætir Brynjar við, en þess má geta að Michael rekur vinsælan veitingastað í Soho á Manhattan sem heitir Delicatessen/Macbar.

Ferskur Ricotta-ostur

3,3 l mjólk

1,4 l rjómi

1,3 dl ferskur sítrónusafi

15 g sjávarsalt í flögum

Aðferð Hitið mjólk og rjóma að 88°C. Slökkvið á hitanum.

Skvettið sítrónusafanum jafnt yfir mjólkurblönduna og sáldrið salti yfir.

Hrærið ögn með gúmmísleif, látið blönduna standa við stofuhita í 45 mínútur.

Kekkir ættu nú að sjást og vökvinn á að vera gulur. Ef ekki, bætið við smásítrónusafa. Síið blönduna gegnum tvöfaldan ostaklút.

Setjið í ílát og geymið í kæli.

Matseðill

Lystauki

Heimalagaður ferskur ostur, vorlaukskex og sultaðar smáappelsínur „Kumquat“

Forréttur

Humar á tvo vegu: Snöggristaður leturhumar og „Kimchi“-pera

Leturhumar-tartar, „ristuð“ soja vinargrette, sítrónusýrður rjómi og Wasabi-kavíar

Milliréttur

Ristuð bleikja, roð“-chips“, Ricotta Gnocchi, sveppamauk og Parmesanseyði

Aðalréttur

Langtímaeldað lamb, Polenta, soðsósa og myntufroða

Eftirréttur

Skyr og „Cereal“ Panna Cotta, bláberjakrap og kampavínsseyði