Smáréttafólkið Lárus Gunnar Jónasson og Vigdís Ylfa Hreinsdóttir eru eigendur og kokkar á Tapashúsinu á Ægisgarði.
Smáréttafólkið Lárus Gunnar Jónasson og Vigdís Ylfa Hreinsdóttir eru eigendur og kokkar á Tapashúsinu á Ægisgarði. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
Tilhlökkun, segir Vigdís Ylfa Hreinsdóttir veitingamaður á Tapashúsinu. Fjölbreyttur matseðill á Food & Fun. Þorskhnakki, humarsalat og hörpuskel.
Food & fund er tilhlökkunarefni enda hefur hátíðin gefið okkur tækifæri til að kynnast skemmtilegri þróun í matargerðarlist. Þá er líka gaman að vinna með erlendum matreiðslumönnum sem eru leiðandi á sínu sviði,“ segir Vigdís Ylfa Hreinsdóttir, veitingamaður á Tapashúsinu á Ægisgarði í Reykjavík. Staðurinn var opnaður sl. haust og hefur því ekki áður tekið þátt í Food & Fun.

„Þetta er alveg nýtt fyrir okkur hér á bæ og þess vegna er þetta mjög spennandi. Næstu dagar líta vel út þannig að stemningin fyrir hátíðinni er greinilega mikil.“

Matseðill Tapashússins fyrir Food & Fun er spennandi. Lystauki er reyktur þorskhnakki með rauðum belgpipar, mjölbanana og lárperufroðu. Í forrétt er grillað nautaspjót í „satay og bergmyntu“ og kjötbollur „bao bun“ með sriracha aioli og íslenskri agúrku. Millirétturinn er humarsalat með mjúku kartöflumauki og steiktum skalottulauk og & Hörpuskeljar-ceviche taco með tempura-jalapeno pipar.

Aðalrétturinn er heitreykt andabringa með kirsuberjakavíar & kjúklinga-confit með asískum perum, beikoni og teriyaki-sósu. Að lokum er það svo eftirrétturinn: mexíkóskur súkkulaðiís með sykurkökukurli og sykurpúðum.

Humarsalat

Fyrir 4 manns

200 g humar (steiktur á heitri pönnu með salti og hvítlauksolíu)

1 bolli japanskt majónes (fæst í sushi-búðum eða Hagkaupi)

2 tsk. sítrónusafi + börkur

2 tst. lime safi + börkur

1 msk. hunang

Salt og pipar

Humarinn skorinn í bita og blandaður saman við. Smakkað til með salti og pipar.

Chilli kartöflumauk

300 g kartöflur afhýddar og soðnar

3 msk. ólífuolía

2 msk. sítrónusafi

1 tsk. sítrónubörkur

1 tsk. chilli paste

salt og pipar

Kartöflur soðnar þar til þær eru orðnar mjúkar, sigtaðar og hrærðar saman með sítónusafa, sítrónuberki, chilli paste og salti og pipar. Ólífuolíu hellt varlega saman við í lokin.

Hörpuskeljar-ceviche

4 stk. risahörpuskel, skorin í þunnar sneiðar

2 msk. yozu-safi (japanskur sítrónusafi)

1 msk. lime-safi

3 msk. appelsínusafi

1 msk. hunang

1 tsk. chilli paste

2 msk. olífuolía

Hörpuskelin skorin í þunnar sneiðar. Allt annað hráefni sett í blandara og blandað vel saman. Marineringu hellt yfir hörpuskelina. Borið fram með stökkum taco-skeljum og jalapenjó pipar.