Gestur Ólafsson
Gestur Ólafsson
Eftir Gest Ólafsson: "Íslenskur byggingariðnaður þarf að geta framleitt þær íbúðir sem fólk vill kaupa og hefur efni á."
Fyrir nokkru tók gildi ný byggingarreglugerð sem „gildir um öll mannvirki sem reist eru á landi, ofan jarðar eða neðan, innan landhelginnar og efnahagslögsögunnar“ með nokkrum undantekningum þó. Þetta er töluvert ritverk sem telur nú 178 blaðsíður, en byggingarreglugerð frá 1998 komst fyrir á einungis 94 blaðsíðum. Hér er líka um alvörumál að ræða því „brot á reglugerð þessari varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.“

Nú hefði mátt ætla að þessi nýja byggingarreglugerð tæki fullt tillit til íslensks raunveruleika og íslenskra rannsókna sem hafa farið fram undanfarin ár en fjallaði ekki eingöngu um nýjar kvaðir á hönnuði og byggingaraðila, aukinn kostnað og samþjöppun valds í Mannvirkjastofnun. Þessi orð eru ekki sett á blað til þess að gagnrýna reglugerðina í heild, þótt hún beri það með sér að hafa verið umtalsverð fljótaskrift, heldur einungis að fjalla um áhrif hennar á hönnun lítilla íbúða sem venjulegt fátækt fólk á Íslandi gæti hugsanlega látið sig dreyma um að geta einhverntíma eignast.

Í marga áratugi hafa ýmis ákvæði íslenskrar byggingarreglugerðar verið gagnrýnd, sem hafa komið í veg fyrir hönnun og smíði lítilla, hagkvæmra íbúða sem henta vel t.d. bæði ungu fólki og öldruðum; þeim sem vilja ekki hafa mikið umhendis og fara með peningana sína og lífið í eitthvað annað en steinsteypu.

Þessi ákvæði lúta t.d. að lágmarksstærð á geymslu, þvottahúsi, baðherbergi, svölum og eldhúsi og virðast ekki taka mikið mið af tækniframförum síðustu 100 ára eða breytingum á lifnaðarháttum fólks, matartilbúningi og fjölskyldustærð. í íbúðum sem eru stærri en 55 m 2 , þarf þannig að vera a.m.k. 7 m 2 stórt eldhús. Í þannig íbúðum þarf líka að vera eitt 14 m 2 svefnherbergi auk stofu a.m.k. 18 m 2 að stærð. Í íbúðum sem eru stærri en 110 m 2 þarf líka að vera sérstök snyrting, auk baðherbergis, sem rúmar handlaug og salerni. Þvottaherbergi verður að fylgja öllum íbúðum og skal lágmarksstærð þess, innan íbúðar vera 1,8 m x 1,8 m, en a.m.k. 5 m 2 ef íbúðin er hönnuð á „grundvelli algildrar hönnunar“. Sérgeymsla skal fylgja öllum íbúðum og skal lágmarksstærð hennar vera 2,5 m 2 í íbúðum sem eru minni en 45 m 2 og a.m.k. 7 m 2 í íbúðum sem eru 70 m 2 og stærri. Geymsla má ekki vera sameiginleg þvottaherbergi og í fjölbýlishúsum skal 2 m 2 sameiginleg geymsla að auki fylgja hverri íbúð. Svalir skulu vera a.m.k. 4 m 2 að stærð og ekki mjórri en 1,60 m. Einnig er nú skylt að hanna allar íbúðir á 1. hæð á „grundvelli algildrar hönnunar“ þannig að þær henti m.a. fyrir hreyfihamlaða. Allt eru þetta ákvæði sem hafa umtalsverð áhrif á mögulega gerð og byggingarkostnað nýrra íbúða.

Nú er það kannski skiljanlegt að fólk, sem er í vinnu hjá okkur hinum í opinberum stofnunum og ráðuneytum og fær launin sín reglulega um hver mánaðamót, hafi ekki miklar áhyggjur af þeim reglugerðum sem það setur byggingariðnaðinum til þess að fara eftir. Við sem hins vegar höfum atvinnu af því að hanna og byggja íbúðir þurfum að geta búið til íbúðir sem fólk bæði hefur efni á og vill kaupa. Annars fáum við engin laun og fólk ekki þær íbúðir sem það vill og hefur efni á.

Margar rannsóknir eru til sem sýna fram á að hægt sé að hanna mjög góðar litlar, ódýrar íbúðir án þess að dregið sé úr tæknilegum kröfum eða að þær séu á nokkurn hátt heilsuspillandi enda hafa átt sér stað miklar framfarir á mörgum sviðum íbúðarbygginga undanfarin ár. Þvottavélar eru t.d. í dag orðnar mjög fullkomnar og ekkert að því að þær séu nálægt eldunarsvæði eins og uppþvottavélar. Svokallaðar „franskar svalir“ hafa dugað vel víða um heim og við hljótum að kalla eftir íslenskri rannsókn á notkun svala hér á landi ef á að krefjast a.m.k. 1,60 m breiðra svala á öllum íbúðum. Auðvitað eiga hönnuðir og fólk líka að ráða því sjálft hvar og hvernig geymslurými er háttað.

Í febrúar 2004 skiluðu Batteríið og VSO-ráðgjöf ágætri skýrslu til Íbúðalánasjóðs sem bar heitið „Félagslegar leiguíbúðir – lækkun byggingarkostnaðar.“ Í þessari skýrslu eru mismunandi kröfur Norðurlandanna til íbúða m.a. bornar saman, enda eru þær talsvert mismunandi. Ein niðurstaða höfunda skýrslunnar var sú að það væri „tímabært að ákvæði byggingarreglugerðar um lágmarksstærðir rýma væru lagðar af en í stað þess kæmi skilgreining á þeirri starfsemi og búnaði sem í viðkomandi rými ætti að rúmast.“ Einn höfunda skýrslunnar, Jón Ólafur Ólafsson arkitekt, sem var verkefnisstjóri, lét þess líka getið í viðtali að minnka mætti íbúðastærð hér á landi um 11-19% án þess að minnka kröfur um þægindi eða notagildi, ef stærðarkröfum byggingarreglugerðarinnar væri breytt. Ekkert virðist samt hafa verið tekið tillit til þessara ábendinga við ofangreinda endurskoðun.

Nú er það mikið alvörumál ef fólkið í opinbera geiranum er að koma í veg fyrir að hér sé hægt að byggja ódýrar, hagkvæmar íbúðir á sama tíma og margir sjá ekki fram á að geta nokkurn tíma eignast eigin íbúð. Í öllu falli finnst mér það skulda okkur hinum einhverja skýringu.

Höfundur er sjálfstætt starfandi arkitekt og skipulagsfræðingur.